Myndir af Laugarneshverfi 1991-1992

Greinilega er sumarið komið í Laugarnesið, í sextánda skiptið síðan ég fluttist hingað. Táningarnir komnir með föst stæði framan við hverfissjoppuna, allt brjálað að gera í versluninni, allir íbúar virðast sammála um að nú sé tíminn til að grilla. Bílar standa með allar dyr opnar, fólk liggur hálft inni í þeim og bisar við að þrífa veturinn innan úr þeim.

Ég man ekki gjörla eftir sumrinu 1991, þó veit ég að það var frábært. Ég hafði eignast góða vini í skólanum og eyddi öllum stundum með þeim utandyra. Þá var garðurinn hans Arnars við Laugarnesveg 84 hrein paradís. Í þá daga stóð stórt moldarbeð eins og hæð upp úr garðinum þar sem allskyns blómstur og runnar döfnuðu, hellustígur lá eins og kross yfir það. Beðið bauð upp á skemmtilega möguleika í eltingarleik en sú iðja okkar var lítt vinsæl meðal íbúa. Annað sem garðurinn hans Arnars bauð upp á var afgirt gróðurhús í norðvesturhorninu uppvið húsið, sem var í eigu kerlingar nokkurrar sem áreiðanlega er dáin í dag. Við vissum vel að ræktarsvæðið var forboðið, en eitt sinn hættum við okkur þangað innfyrir. Það tók okkur dágóðan tíma að klöngrast yfir vírgirðinguna en þegar ég var kominn yfir náði ég ekki að ganga lengi um svæðið þar til kerlingin kom auga á mig af svölunum. Önnur eins öskur hafði ég vart heyrt áður og kerling tók á rás inn í íbúð, vafalítið á leiðinni út að limlesta mig. Þegar mér varð litið aftur á Arnar sá ég að hann hafði ekki klifrað alla leið yfir. Hann stóð ennþá hinumegin og glotti til mín. Læt nægja að segja að það var ekki eins erfitt fyrir mig að komast yfir girðinguna í seinna skiptið.

Ég held það hafi verið farið að halla undir haust 1991 þegar við Arnar og Raggi vinur hans fórum með stóran pappakassa út á túnið framanvið Listaháskólann og þóttumst vera sjóræningjar á árabát. Árarnar voru kústsköft og með þeim ýttum við okkur áfram eftir túninu, að stórum steini sem var á túninu miðju. Það var eyjan sem við ætluðum að grafa fjársjóðinn okkar á. Þegar þangað var komið áttum við þó hvorki fjársjóð til að grafa né var hægt að grafa í steininn. Minnir þó að við höfum skilið spýtustúf eftir í holu undir steininum. Síðar fór ég að vitja spýtunnar, ekki vegna notagildis hennar heldur af forvitni um hvort hún væri þar enn, en þá var hún horfin.

Dag einn þegar skólinn var nýhafinn varð Arinbjörn samferða mér heim. Hinumegin Laugalæksins við Kjötmiðstöðina mættum við tveimur eða þremur táningspiltum sem veittust að okkur. Með hrópum til Arinbjörns um að ég skyldi fara eftir hjálp tók ég á rás eftir götunni og fyrir hornið á Laugalæk og Laugarnesvegi. Einn þeirra elti mig alla leið heim að dyrum, en snerist strax á hæli þegar hann sá mig hringja dyrabjöllunni. Það vildi mér til happs því enginn var heima. Þegar hann var farinn fór ég að leita að Arinbirni og mætti honum loks á miðjum Laugarnesveginum. Sá sem elti mig hafði ekki sagt farir sínar sléttar hinum durgunum, svo þeir slepptu honum. Þá tilkynnti mér Arinbjörn að hann ætlaði ekki að koma inn til mín, hann ætlaði þaðanaf að halda sig við sitt eigið hverfi, það væri öruggara. Þá bjó Arinbjörn beint á móti Laugarnesskóla. Alveg áreiðanlega var það sama hverfið.

Það var einnig snemma sama vetur að ég mætti í skólann skömmu fyrir hádegi. Í þann tíð var skólanum þannig skipt að helmingur nemenda mætti klukkan átta um morguninn og var til hádegis, en hinir voru í skólanum frá hádegi til þrjú-fjögur um daginn. Þegar ég mætti snemma upp í stofu tilkynnti gýgurin sem hafði kennt mér veturinn áður að ég ætti ekki að mæta fyrr en eftir hádegi, spurði mig vingjarnlega í leiðinni hvort ég væri eitthvað heimskur. Í stað þess að svara henni ákvað ég bara að fara fyrst ég var ekki velkominn í skólann lengur. Á leiðinni heim mætti ég Arnari og ég sagði honum sem orðið var og við ákváðum að leika okkur í hjólageymslunni heima. Eftir að hafa verið þar nokkra stund heyrðist útidyrahurðin opnast og einhver koma inn en staðnæmast svo á stigapallinum. Svo kom pabbi niður í hjólageymslu. Sá varð hreint ekki kátur og dreif okkur strax til skólastjóra. Málsvörn okkar var fálega tekið og við vorum áminntir fyrir að skrópa, þótt seint hefði hann Jón Freyr skólastjóri þótt strangur. Sjálfur hafnaði ég þó alltaf þeirri söguskoðun að við hefðum skrópað.

Síðar á haustönn 1991 fór ég heim til Arinbjörns eftir skóla að horfa á uppáhaldsteiknimyndaþáttinn okkar, sem stolið er úr mér hvað hét. Eftir þáttinn fórum við inn í herbergið hans Arinbjörns og reyndum að finna okkur eitthvað til dundurs, en gekk fremur illa. Hvernig gat það gerst að tveimur skapandi hugum væri ómögulegt að finna sér nokkuð að gera? Þvílík kreppa!
En þá gerðist það að móðir hans Arinbjörns kom inn í herbergið og spurði hvort við vildum ekki brauðsneiðar með kæfu. Við játtum því og hún fór til að smyrja ofan í okkur. Við Arinbjörn litum hvor á annan án þess að blikka, fullkomlega samhuga um framhaldið: „Búum til gildru!“ sagði Arinbjörn. „Já!“ sagði ég. Það var í fyrsta og síðasta skipti sem ég hef gerst sekur um samsæri til að myrða manneskju; planið var að binda snæri í hurðarhúninn, vefja hér og þar um skrifborðið og nota það þannig eins og talíur, og binda endann loks í fataskápinn sem stóð við hliðina á herbergishurðinni. Það var von okkar að skápurinn dytti ofan á mömmu Arinbjörns þegar hún opnaði dyrnar. Svo biðum við. Aldrei hafði mér virst svo fáar mínútur eins langar. Ætlaði hún aldrei að koma inn með brauðsneiðarnar?
Loks opnast dyrnar og mamman birtist í gættinni með stóran disk hvar á hvíldu fjórar brauðsneiðar með kæfu. Án þess nokkuð annað gerðist gekk hún inn, lagði diskinn á skrifborðið og kommenteraði á snærin: „Eruð þið að búa til gildrur?“ Svo hló hún létt með sjálfri sér og yfirgaf herbergið. Lokaði á eftir sér. Við sátum eftir meira en lítið vonsviknir. Loks rauk Arinbjörn á fætur, sársvekktur, óð að hurðinni og rykkti henni upp, með þeim afleiðingum auðvitað að fataskápurinn féll ofan á hann og kramdi í klessu að því er virtist. Ég stóð upp í forundran og hrópaði á hann að svara mér. Skápurinn lá í spón á gólfinu, Arinbjörn hvergi sjáanlegur. Loks, eins og í teiknimynd, opnast dyrnar á skápnum. Þar lá Arinbjörn inni í skápnum og hló. Ég man ekki hvað mamma hans sagði þegar hún gekk á hljóðið.

Goðsaga ein gekk um hverfið af gamla blinda píanóleikaranum sem sagður var reka hljóðfæraverslunina við Gullteig. Jafnframt var hann sagður búa í risíbúð sama húss ásamt barnungri dóttur sinni. Allir vissu að blindi píanóleikarinn var afar góður maður þótt enginn hefði nokkru sinni séð hann. Ekki man ég fleira sem sagt var um blinda píanóleikarann, en pabbi staðfesti tilvist hans, þótt ekkert vildi hann fullyrða um dótturina. Ég man að verslunin stóð lengi enn eftir að fregnir bárust af andláti píanóleikarans. Þegar verslunin loks fór fannst mér sem enn færi æskustöðvunum hrörnandi.

Önnur goðsaga sem gekk um hverfið hverfðist um rauðan blett á veggnum við bakdyrainngang Laugarnesskóla. Sagan hermdi að einhverju sinni, mögulega aðeins ári eða tveimur áður en við hófum skólagöngu okkar, hefði drengur einn þroskaheftur og ofstopamaður mikill lagt nagla upp að húsveggnum og slegið höfði minni stráks í hann, með þeim afleiðingum að hann lét lífið. Ýmsar útgáfur fóru af örlögum ofbeldismannsins, sú vinsælasta hermdi að hann sæti inni á barna- og unglingageðdeild fyrir verknaðinn. Ég veit ekki betur en bletturinn sé enn á sínum stað, en heldur veit ég ekki betur en bletturinn sé málningarsletta. Fyrir örfáum árum komst ég að því að sagan gekk enn um skólann, til þess að gera óbreytt. Það fannst mér merkilegt.

Þennan vetur tóku vissar hefðir að myndast sem héldust óbreyttar gegnum skólavist okkar í Laugarnesskóla: Leynifélögin. Mér helst ekki tala á því hversu mörg leynifélög voru stofnuð, held ég hafi þegar mest gekk á verið formaður þriggja. Stofnun slíkra félaga fór alltaf fram á sama máta, eftir því hvaða háttur var hafður á við stofnun þess fyrsta, sem nú verður vikið að. Ég teiknaði kort af skólasvæðinu, merkti inn hvar hinir og þessir skilgreindir „óvinir“ mínir héldu jafnan til, og samdi hernaðaráætlun inn á kortið, þ.e. hver vina minna færi að slást við hvern og eftir hvaða leiðum hann færi þangað. Svo fékk ég félagana til að samþykkja áætlunina. Hinsvegar fór það svo að áætlanirnar dóu alltaf á teikniborðinu, meðþví engri þeirra var raunverulega hrint í framkvæmd. Oft hef ég velt fyrir mér mögulegum afleiðingum þess hefði ég verið fundinn sekur um að vera höfuðpaur skipulagðra ofbeldisverka við skólann.
Liður í leynifélaginu var kofinn sem við Arnar og Arinbjörn ætluðum að byggja í trjágarði nokkrum í útjaðri skólalóðarinnar. Aldrei varð neitt af byggingu kofans, en bjöllurnar í viðvörunarkerfið áttum við lengi á eftir.
Aldrei gengum við leynifélagsmenn í skrokk „óvina“ okkar en hinsvegar njósnuðum við um þá og sannreyndum hversu góðar leiðirnar voru sem ég hafði merkt inn á kortið. Tveir aðilar þótti mér sérstaklega viðsjárverðir, en það voru þeir Sigurður Benediktsson og Inuk Már Rannveigarson, Siggi vegna þess hann var stór og vígalegur, töffari frá náttúrunnar hendi, en Inuk einfaldlega vegna þess ég misskildi hann, raunar eins og flestir aðrir gerðu.

Inuk er einn þeirra sem skólakerfið einfaldlega hentaði ekki, einn þeirra sem hefur margar gáfur sem falla ekki að kerfinu, en skortir á hinn bóginn margar þeirra sem skólinn miðar við. Þannig var Inuk alltaf utanveltu í skólanum, þess vegna fór það svo að hann tók upp á því að stríða sér minnimáttar. Einhverju sinni blöskraði mér svo atganga hans að tveimur bekkjarsystrum sínum að ég óð í hann og slóst við hann í örskamma stund uns hann hrökklaðist á brott. Sumarið eftir fékk ég þó færi á að kynnast honum mjög vel. Síðan þá og enn þann dag í dag erum við mjög góðir vinir.

Mikilvægt er að minnast á Ragga, vin Arnars sem áður var getið, vegna þess sem gerðist fyrir veturinn á eftir. Þennan vetur var hann með okkur Arnari, Arinbirni og Sævari í bekk. Í sífellu komu upp ósætti á milli okkar og loks sauð upp úr þegar ég kom inn úr frímínútum og hann hafði litað umferðarljósin í bókinni minni í vitlausum litum. Mig minnir ég hafi tortímt bókinni hans í kjölfarið og hótað honum líkamsmeiðingum. Það þurfti að skilja okkur að og það sem eftir lifði vetrar sátum við hvor í sínum enda stofunnar. Þetta hefur verið í febrúar 1992 að öllum líkindum.

Um sumarið tók ég þá ákvörðun að skipta um bekk. Ekki eingöngu vegna Ragga þó, heldur einnig vegna þess að góðvinir mínir Ásgeir og Inuk voru í S-bekknum. Þar var raunar líka Siggi Ben, en ég átti fljótlega eftir að læra að hann var ekki allur sá skálkur sem ég hafði gert mér í hugarlund. Fyrrum félagar mínir úr N-bekknum áttu aftur á móti eftir að líta á mig sem svikara við sig. Líklega skýrir það að nokkru leyti hvers vegna við Arinbjörn hættum að umgangast hvorn annan.

4 thoughts on "Myndir af Laugarneshverfi 1991-1992"

  1. Þórdís skrifar:

    Þú ert áreiðanlega að meina hann Leif píanóstillara á Gullteignum. Frægur pianóstillari og einmitt blindur.

  2. Já, það hlýtur að vera. Manstu hvenær hann dó?

  3. Þórdís skrifar:

    Ég held að hann sé sprelllifandi, tæplega sextugur, búi Austurbænum og sé ennþá að stilla píanó.

  4. Detti mér allar, hlutirnir sem maður heyrir sem barn! Sjá, svanni er sprelllifandi og ekki nærri eins gamall og sögur létu af. Ekki fara þær alltaf saman, goðsagan og raunveruleikinn.

Lokað er á athugasemdir.