Munnlegt próf

Það er naumast hvað maður getur aldrei komið neinu útúr sér þegar mest á ríður, svo eftir einn bjór á barnum þarf heila herdeild til að þagga niður í mér.

Þartil ég heyri rök fyrir öðru verð ég að vera sammála Antoni um að best væri að deila [sic] bókmenntasögunni uppí tvo 2.5 eininga áfanga. Þannig væri hægt að fara ítarlegar í hvorn hluta um sig og staldra aðeins við, án þess að minnka neitt við hið flennimikla lesefni.

Ekki að ég sé að kvarta. Almennan í lögfræðinni mun vera 9 einingar og lesefnið eftir því. Þá missa sig sumir og leggjast í kör. Sjálfsagt er þannig haldið á spöðunum til að búa til síkkopatafjöld handa útskriftarnemum að verja, búa til eftirspurn til að anna framboði o.s.frv. Hagfræðin afturábak. Svona get ég nú verið víðsýnn.

Óvænt heimsókn – sleggjudómar sem vænta mátti

Bankað var að dyrum hjá mér fyrr í dag og ég æddi til dyra með hugann hangandi útum annað eyrað. Ég rykki upp dyrunum og þar stendur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og kompaní. Mér varð orða vant. Ég gat ekki ímyndað mér erindið.

Heimurinn verður fljótlega eðlilegur á ný þegar Ingibjörg kveðst vera að kynna framboðslista Samfylkingarinnar og réttir mér bleðil, ég missi uppúr mér skilningsvana já. Skyldi hún vilja ræða það yfir kaffibolla?

„Svo,“ bætir hún við, „ætla ég að gefa þér eina rós að skilnaði,“ réttir mér hana og blikkar mig brosandi. Ég gat ekki annað en skellt aðeins uppúr. Þetta kom mér alveg að óvörum. Svo þakkaði hún fyrir með handabandi og við kvöddumst. Brosið sat límt á mér næsta kortérið. Þetta var þó frumlegra en að hringja.

~
Ég vona að húsin sem brunnu verði endurreist. Það skiptir engu máli hversu gömul húsin eru í raun og veru. Það er mikil saga í þessum húsum og það væri synd að glutra henni niður, sbr. nýja hótelið í Aðalstræti sem teiknað er upp eftir þremur húsum sem áður stóðu þar. Þar á meðal er Fjalakötturinn, eitt elsta kvikmyndahús Evrópu, ef marka má heimildargildi Margrétar Jónsdóttur. Sjálfsagt eru það þó ýkjur.

Ég er fokvondur út í Egil Helgason, eins og raunar alltaf þegar ég les svartagallsrausið í honum. Að þessu sinni er eins og Jónas úr Hriflu tali útum rassgatið á honum. Að hans mati voru Fröken Reykjavík og Kebabhúsið ógeðslegar sjoppur, Rósenberg bjórbúlla og Pravda úrkynjað lágmenningarplan. Slík er nú víðsýni þessa höfuðkverúlants Íslands.

Fröken Reykjavík var sjoppa eins og hver önnur, Kebabhúsið var besti skyndibitastaður Reykjavíkur og Rósenbergkjallarinn var menningarsetur með veitingaleyfi. Þar hef ég hlýtt á upplestra Braga Ólafssonar og Ingibjargar Haraldsdóttur meðal annarra, og tónlist Lay Low. Að hógværu mati Egils eru þau sjálfsagt öll úrkynjuð líkt og list þeirra.

Pravda var ef til vill ekki allra og enn síður hentaði hann mínum smekk. Slíkt gildismat myndi þó seint kalla á aðra eins gagnrýni, fyrir utan að Pravda hefur staðið fyrir ýmsum ágætum uppákomum á virkum kvöldum, t.d. djasstónleikum. Þar sem Agli finnst sjálfum gaman að hella sig fullan á börum er drykkjan væntanlega ekki burðarliður í gagnrýni hans á þeirri „lágmenningu“ sem þar þreifst. Þá er ekkert eftir til gagnrýni nema tónlistin sem þar er spiluð. Tímanna tákn, myndu einhverjir segja. Lágmenning, segir Egill. Það er gott að vita að sumir hafa gaman af að fægja fílabeinsturna sína.

~
Myndina hér að ofan tók Nína, sú flinka fótógrafíuflikka. Að kvöldi brunans buðu þau Skúli mér í mat til sín. Það var afar notalegt kvöld, gaman líka að eiga vini sem nenna að bjóða manni í mat. Um tíuleytið það sama kvöld sprakk heitavatnsleiðsla í næstu götu. Þá brenndust sjö. Gott að sama verður ekki sagt um brunann við Lækjartorg. Ef til vill hefði Egill Helga ekki verið jafn hrokafullur í yfirlýsingum ef kviknað hefði í þá um kvöldið og tugir farist í eldsvoðanum. Og þó, maður veit aldrei. Alltaf skal mannkertinu takast að koma mér á óvart.

Bók, grindardráp og dauði

Þessi vika er vika bókarinnar. Þá er kominn tími til að hafa áhyggjur af námsframvindu. Ef bókmenntaritgerðin er ekki kláruð fyrir fæðingardag Kiljans og Shakespeare (og dauðadags þess síðarnefnda), og próflesturinn ekki vel ríflega hálfnaður, þá er illt í efni. Hálfkaldhæðnislegur deadline.

~
Ég tefli einnig á tæpasta vaði í öðrum skilningi. Með dags millibili hef ég óumbeðinn talið upp í partíi það kvenfólk sem gagnkynhneigð vinkona mín myndi sofa hjá, og tjáð annarri vinkonu minni að verði vissum skilyrðum fullnægt muni ég fremja á henni grindardráp. Ég mun aðeins ganga lengra héðanaf.
~
Þrjár flugvélar hafa nú svifið yfir húsið í aðflugi síðastliðnar fimm mínútur og mér finnst ég þegar búa við La Guardia. Ég er búinn að pakka kettinum inn í eldvarnarteppi og bíð með Dauða Ásu tilbúinn í græjunum, á hæsta styrk. Í því tilfelli að næsta vél geri sig of heimakomna.

Stór dagur

Elva og Stígur giftu sig við fallega athöfn í Fríkirkjunni í gær. Hljómsveitin Ménage à Trois sá svo um dinnertónlist í veislunni á Borginni og mun það hafa lukkast ágætlega þrátt fyrir litlar sem engar æfingar. Enda er það tríó sem segir sex …

Í veislunni hitti ég margt gott fólk, þar á meðal fólk sem maður hittir alltof sjaldan. Sumu fólki heilsaði ég ekki af gömlum (og gagnkvæmum) vana. Leið svo dagurinn þar frameftir götunum, hitti heilu ógrynnin af fólki sem ég hafði ekkert talað við síðan í MR. Karl Ágúst, Sunnu Maríu, Önund Pál, Birgi Pétur og síðast en ekki síst glaðværan náunga sem sagði í sífellu „Hey, Arngrímur!“ en hafði yfirleitt litlu við að bæta. Ég er ekki alveg viss hvort ég eigi að þekkja hann.

En gærdagurinn var í flesta staði mjög velheppnaður og skemmtilegur, þótt ég hefði vísast komist upp með að drekka eilítið minna.

Af sperðlingum og moggabloggi

Mér finnst ég alstaðar vera að rekast á umræður um pylsur/pulsur. Málið er mjög einfalt, sbr. Pylsa er upprunalegur ritháttur, en /pilsa/ er unglegur framburður. Hefðarinnar vegna er því tækast að skrifa pylsa en segja pulsa.

~
Annars mæli ég með moggabloggsíu Konráðs. Hún er einföld í uppsetningu og forðar notendum frá heilatæringu af völdum almennrar lúnasíu, einnig nefnt Kvitt!;)syndróm.

Árnað heilla

Afmælisbarn dagsins er mademoiselle Hjördís Alda, heimsferðalangur og snillingur. Hún er tuttugu og eins árs í dag og er henni hérmeð árnað heilla á auðmjúkum síðum órum, í því tilfelli að smáskilaboðin hafi geigað einhversstaðar útyfir Atlantshafi.

Sjálfur kanna ég hugarlendur Þórbergs um þessar mundir og á því fáar frístundir frá námi. Það er eins nálægt fjarlægum draumalöndum og ég kemst í bili.

Í Suðursveit

Helginni varði ég á Hala í Suðursveit. Það var ferð sem seint mun líða mér úr minni, enda ekki á hverjum degi sem sveitarómantík sameinast epísku fylleríi. Sérstaklega vil ég þakka starfsfólki Þórbergsseturs, fyrir að takast alltaf jafnvel upp við að draga fram bláa litinn í augum mér, svo og að sjálfsögðu honum Svavari, fyrir tilþrif sem seint verða toppuð.

Eftir jafn dásamlega helgi er ekki laust við að mann langi helst til að umvefja sig sæng, tylla kettinum ofaná og éta nammi, meðan maður bíður þess að Hollywood uppfylli allar manns lífsins þrár og drauma. Eftir þessa epík liggur lífið niðrávið, það er alveg á hreinu.