Heimilislegt

Dýrðardagur! Á tveim dögum hef ég eignast kaffivél, bolla, ruslafötu, þvottasnúru, kerti og bókasafnsskírteini. Mér finnst ég nánast ríkur orðinn. Þá lét ég í einhverju góðmennskukasti ginnast til að kaupa rós af sígaunakonu sem fær nú að drekka úr vatnsfylltri bjórflösku, rósin það er, ekki sígaunakonan.

Gamli skipulags- og Ikeapervertinn í mér er víst kominn á kreik. Það er loksins að komast sýstem á þetta hjá mér og það kann ég vel að meta. Enda þótt ég eigi enn eftir að heimsækja Ikea. Þá verður fjandinn sjálfsagt laus.

Haustlauf

Það eru óhjákvæmileg viðbrigði að hugsa og tjá sig á þrem tungumálum á sama tíma. Stundum yfirhleðst hugurinn svo úr verður alveg stórfurðulegur en skemmtilegur hrærigrautur. Mest henti það mig í Svíþjóð þegar ég þurfti að þýða úr dönsku jafnóðum og ég talaði á minni sérstöku dólgasænsku, svo blandaðist þar við að Christian vinur minn er enskur og þar voru Íslendingar í bland sömuleiðis. Ekki kann ég nein dæmi um þessa sprokbilun enda gleymist vitleysan undir eins og hún er flogin af vörum.

Þrátt fyrir það gengur mér danskan svo ágætlega að ég gleymi því oft að ég hef aðeins búið hér í sex vikur, ég tala til dæmis jafnan dönsku í bankanum og finnst það ekki mikið flóknara en að tala við íslenska þjónustufulltrúa – ef hreinlega ekki auðveldara. Þeir eru allavega ekki að reyna að selja mér eitthvað sem ég þarf hvorki né skil. En það er samt gott að vera stöku sinnum minntur á að ég er innflytjandi í útlandi og það þarf svosem ekki mikið til að koma mér á óvart.

Eftir rúnt ofan úr Háskóla niður í Latínuhverfið (sem hefur ekkert með rómanska menningu að gera ólíkt flestum öðrum latínuhverfum) sveigði ég inn á Árbúluvörðu og naut þess að finna gusta aðeins um mig í skugganum eftir þröngar sólskinsgöturnar á undan. Sunnanmegin árinnar er gengið eftir bryggju sem liggur undir brúna sem ber uppi Søndergade. Og sem ég gekk þarna heyrði ég óminn í saxófón úr fjarska spilandi Autumn Leaves, í hægum, tregafullum takti.

Það er nær ómögulegt að finna almennilega útgáfu af þessu lagi (ég bíð alltaf eftir að Buena Vista Social Club taki upp sína frábæru útgáfu) en þarna var hún skyndilega komin, upp úr þurru, og umhverfið allt varð skyndilega framandlegt og öðruvísi. Mér fannst ég staddur allt annarsstaðar, einhversstaðar sem ég hafði aldrei verið fyrr. Það þarf víst ekki mikið til að gleðja mig. Og núna hef ég allan daginn framundan til að njóta stemningarinnar í sólríkri miðborginni og sjá hvort ég finni nokkursstaðar þvottagrind. Einsog stuðið á mér er núna myndi fátt kæta mig meira.

Dagbókarlífstíllinn danski

Þar kom að því, ég er farinn að nótera niður mannamót á dagatalið í tölvunni minni. Fyrrum nýlenduherrann vann stórsigur á hrokafulla eftirlendugosanum sem lyppaðist með skottið milli lappanna heim aftur fyrir sex vikum. Fundur í fyrramálið, matarboð um kvöldið, fyrirlestur á föstudag, ljóðahátíð um helgina, þrif á sameign á sunnudag. En ekki man ég hvern fjandann ég á að gera á mánudaginn af því ég gleymdi að nótera það niður. Senn kaupi ég dagbók fyrir 2011.

Ferðasagan heldur svo áfram þegar ég nenni að skrifa hana. Í öðrum fréttum er ég orðinn stoltur eigandi þvottabala og kaffikönnu. Ruslatunnu fann ég hvergi en senn verður bætt úr því. Vonandi fylgja svo ögn meira sjarmerandi mublur í kjölfarið.

Stiklur úr ferðasögu I

Á leiðinni til Álaborgar frá Árósum keyrði lestin á eitthvað og tætti það svo í sundur undir hjólunum. Titringurinn og óhljóðin fundust óbærilega vel og ég grínaðist með að við hefðum keyrt yfir dádýr. Stuttu síðar var tilkynnt í hátalarakerfinu að við hefðum keyrt yfir dádýr.

Álaborg virtist mér vera ágætispláss en hún er smámsaman að deyja. Störfum fækkar og flestir flytja annað til að mennta sig. Þar var ágætisbar sem heitir The Wharf. Bjórinn er afgreiddur úr stórum ámum sem liggja á hliðinni bakvið barinn. Þær eru merktar með heiti og greinargóðri bragðlýsingu. Hvergi hef ég séð annað eins úrval og einsog allir góðir barir var þar reykingalókall.

Við Christian og Mathias gistum þá nótt hjá Olle, sem þó heitir Carsten, í Nørresundby sem liggur hinumegin árinnar, svipað og hvað hinn bærinn heitir hinumegin Lagarfljóts. Við vöknuðum fjórum tímum síðar og ekki grunaði nokkurn okkar þá að þannig ætti það eftir að verða alla næstu viku. Við tókum lestina til Friðrikshafnar og þaðan ferju yfir til Oslóar.

Ferjan Stena Saga, sem var líkari litlu skemmtiferðaskipi en neinni ferju sem ég hef áður tekið, er sérkapítuli í ferðinni allri. Þar var bara gjörsamlega stórfurðulegt fólk, flestir Norðmenn í rossignolúlpum með aflitað hár, mottu og ýstru. Á ellefta dekki mátti komast á netið og þegar ég kom þangað upp stóð hópur af Dönum á nærfötunum sem spurðu hvort þau fengju töskuna mína lánaða. Ég starði á þau og tókst á endanum að æla útúr mér nei. Þau voru víst að leika einhvern leik og þegar hann var búinn skiluðu þau ýmsum hlutum til annarra í rýminu og klæddu sig.

Tveir Norðmenn voru þegar fullir þegar við sigldum úr vör og við teljum að þeir hafi keypt sér miða báðar leiðir. Í lok ferðar voru tveir Norðmenn einmitt kallaðir upp fjórum sinnum því þeir hefðu ekki yfirgefið herbergi sín, sjálfsagt dauðir. Skipið allt var svo smekkleysislega hannað að fá orð leyfa sannleikanum að njóta sín í stuttri bloggfærslu. Á einum margra veitingastaða mátti svo sjá allskonar viðrini vappa milli hlaðborðs og bars skreyttum með veggmyndum af Friðþjófi forvitna einsog við hefðum keypt miða á fríksjó P.T. Barnums.

Þetta var eitt allsherjar fljótandi geðveikrahæli. Barinn á sjöunda dekki var nákvæmlega einsog ég sá fyrir mér barinn í Hinu stórkostlega leyndarmáli heimsins eftir Steinar Braga. Hann hét C-View (!), með eftir því góðu útsýni, að því undanskildu að hann snérist ekki. Diskókúlur hér og þar og yndislega vandvirknislega valin drasldiskólög ómuðu um salinn. Eftir skamma hríð höfðum við þó vanist þessari vitleysu og þegar rigningunni hafði slotað gátum við setið við stafninn, drukkið bjór og beðið eftir að strendur Noregs dúkkuðu upp við sjóndeildarhringinn. Ferðin tók níu tíma í allt.

Ekki beið okkur neitt betra í Osló. Þar settumst við á Kebabstað sem var rekinn af melludólg. Mellurnar stóðu fyrir utan staðinn og strákar á öðru götuhorni reyndu að selja gangandi vegfarendum aðgang að þeim og rapporteruðu svo til kebabmannsins. Til að kóróna dópistana við höfnina mátti svo sjá eitthvert það ótrúlegasta samsafn af forljótum svartleitum háhýsum með ljósaskiltum að kauphöllinni og fljótandi markaðsvirði hlutabréfa fljótandi frá hægri til vinstri á stafrænum skjá engan veginn undanskilinni.

Í Osló komst ég að því að hvorki danski síminn né kortið virka utan Danmerkur. Með þá gleði í hjarta fór ég í partí um borð í skipi við höfnina, sem er einhverskonar partíbátur/bar sem á þar varanlegt aðsetur. Þar hittum við félagar vinkonu eins, Silje nokkra, sem keyrði okkur til Drammen þar sem við gistum þá nóttina. Hún er ásatrúar og ekki síður en fyrir kurteisissakir en fyrir þann sið færðum við henni vodkaflösku fyrir greiðann. Hún átti eftir kom á daginn að hjálpa okkur enn meira þar sem strætósamgöngur í Noregi eru út í hött og óskiljanlegar með því að keyra okkur þónokkra vegalengd að lestarstöðinni klukkan 6 um morgun.

Þannig leið fyrsti einn og hálfur sólarhringurinn í stuttu máli.

Enn meira úr daglega lífinu

Bankakortið fékk ég blessunarlega í hendurnar aftur í dag svo ég get haldið ótrauður til Álaborgar á morgun. Ég ákvað að verðlauna sjálfan mig þolinmæðina með feitum hamborgara við ána, en þeir kostuðu tæplega 3000 krónur svo ég hélt lengra inn í bæinn og fann Buffhús Jensens sem var örlítið ódýrara. Það er hægara sagt en gert að finna alvöru hamborgara hérna svo ég lét slag standa og pantaði hamborgara sem ég átti sjálfur að setja saman.

Salatbarinn var raunar ekki sérlega frumlegur fyrir þá sem setja ekki fusilli á hamborgara svo ég valdi mér bara allt þetta venjulega. Mér leið hálfpartinn einsog dólgi sitjandi við borðið mitt andartaki síðar á tiltölulega fínum stað skerandi dvergtómata og gúrkur. En mikið óskaplega var þetta gott. Fyrir herlegheitin og einn bjór borgaði ég rúmlega 3000 krónur. Það er fátt gefins hérna.

Ég lét annan kennarann minn vita að ég væri að fara á ráðstefnu í Noregi svo hann héldi ekki að ég væri vísvitandi að skrópa í næstu viku. Honum leist svo vel á það að ég fékk það verkefni að kynna ráðstefnuna fyrir bekkjarfélögunum þegar ég kem aftur, í stað þess að endursegja fræðigrein eftir, Torfa Tulinius? Ég man það ekki. Eftir því sem ég best veit les hinn kennarinn minn, Bergdís, þessa síðu líka og veit væntanlega að ég er að fara. Svo ég vona að hún verði eins umburðarlynd þótt ég hafi misst af fyrsta tímanum í fyrradag.

Ástæða þess er að ég hef ekki getað sofið þrjár nætur í röð. Ég þó pyntaði mig til að fara á fætur í dag og tókst að skríða framúr klukkan hálfeitt. Vonandi verður það til þess að ég geti sofnað fyrr í kvöld. Þá er bara að ganga endanlega frá sjálfsnáminu við skrifstofuna svo ég vona að ég verði eitthvað nettengdur á væntanlegu ferðalagi. Ég er þegar búinn að velja mér ritgerðarefni sem ég hlakka mjög til að tækla: Spatial and liminal differences between ghosts, monsters and the other in Sagas and Þættir of Icelanders.

Ég hafði að vísu enga hugmynd um hvað ég vildi skrifa fyrr en í strætó í dag, þá laust í mig þessari hugmynd (ekki það að farþegarnir hafi verið svona draugalegir þó). Það er líka ansi freistandi að tengja þetta við Fornaldarsögur í framhjáhlaupi en það væri eflaust að bera í bakkafullan lækinn. Þar er líka ólíku saman að jafna þótt af nógu sé að taka. En ég hef þegar lesið yfrið margt um þetta efni og hlakka til að lesa meira, og endurnýja kynnin við Þórólf bægifót og púka Þorsteins skelks.

Lærdómur síðastliðinna fjögurra vikna er að iðjuleysi gerir mig geðvondan. Ég hef ekki verið iðjulaus í fjögur ár fram að þessu og það venst illa. Kannski er ég bara ekki týpan sem tekur sér frí.

Af hrakförum og ferðalögum

Seinheppni minni og klaufaskap er engin takmörk sett. Eftir ágætis göngutúr með Christian um fegurri hluta gettósins – gömlu Brabrand og umhverfis hið gullfallega Brabrandvatn – lá leið mín niður í bæ að næla mér í eitthvað til að nærast á. Ég hef komið mér upp þeim sið hérna þegar ég fer yfir fjölfarnar umferðargötur að líta fyrst til vinstri og færa mig svo á miðja götuna þartil hægst hefur um umferðina úr hinni áttinni.

Svo ég leit til vinstri við Ráðhúsið og sá engan bíl. Ég steig út á götu og fékk umsvifalaust kjaftshögg. Þegar ég hafði áttað mig eftir höggið leit ég til hægri en sá engan, þar til ég leit niður á götuna og sá stúlku sem hélt bölvandi og ragnandi um ennið á sér. Hún hafði verið að flýta sér og hljóp eins hratt og mannlega er mögulegt með höfuðið á undan, skallandi mig í smettið þegar ég steig út á götu. Kona kom aðvífandi í vígamóð hrópandi á mig einsog ég hefði ráðist á stúlkuna, en hún kom mér til varnar og sagði að þetta væri í lagi. Þegar hún var farin sá ég að sólgleraugun mín lágu í molum á götunni. Annað samskonar parið sem ég glata á jafnmörgum mánuðum.

Eftir þetta ákvað ég að drífa mig heim svo ég tæklaði örugglega ekki fleira fólk niður í götuna, en þegar tók að rökkva beið mín ekkert betra. Ég hef þann vanann á að hafa gluggann opinn á kvöldin af því ég reyki inni, og þegar ljóst var að ég myndi ekki sofna aðra nóttina í röð setti ég mynd á í tölvunni. Þá verð ég skyndilega var við að ekki aðeins einn heldur tveir risavaxnir geitungar sveima hatrammlega um herbergið, svo stórir að ég hélt fyrst að þetta væru býflugur.

Ég laumaðist til að opna gluggann betur í von um að þeir fyndu leiðina út en þá fylltist allt skyndilega af geitungum svo ég varð að loka glugganum. Tugir ef ekki hundruð geitunga smullu á glugganum að utanverðu og sífellt bættist í hópinn. Ég hef ekki fríkað svona út í áraraðir – þetta hef ég aldrei séð. Og þó er ég enginn aukvisi í tortímingarfræðum geitunga. Ég taldi finngálknin í herberginu og sá að þau voru fjögur. Þegar tvö þeirra lágu í valnum bættust tvö önnur við, eitt af hverjum ég spreyjaði með salernishreinsi og lokaði inni á baði. Hin skrímslin kipptu sér lítið upp við það svo ég sótti rússneska málfræðibók fram og hóf að murrka úr þeim líftóruna með bókstafnum. Salernishreinsirinn kom sér vel þegar ein skepnan faldi sig í lampanum mínum. Eftir hasarinn sem stóð í á milli 30 til 45 mínútna voru sex kvikindi dauð og herbergið angandi einsog nýhreinsað klósett. Í morgun fann ég það sjöunda við skrifborðið mitt. Sjálfsagt hef ég talið vitlaust.

Í fyrradag eftir órabið fór ég í bankann til að kvarta undan að því að kortið mitt væri ekki komið, en var tjáð að það hefði verið sent heim til mín þann 25. ágúst. Þá brá ég á það ráð að gá á hæðina fyrir ofan hvort allur pósturinn sem ég hafði ekki fengið leyndist nokkuð þar. Það stóð heima, og nú var ég loksins orðinn handhafi bankakorts og sjúkratryggingakorts. Danir taka jarðhæðina greinilega hátíðlegar en Íslendingar svo klúðrið skrifast á mig. Hinsvegar vissi ég ekki að þjónustufulltrúinn hafði skráð kortið sem vákort, fyrst það var glatað. Hann amk hafði ekki fyrir að segja mér það. Svo þegar ég fór í hraðbankann áðan gleypti hann kortið.

Á dagskránni á morgun er því enn ein ferðin niður í Jyske Bank að endurheimta kortið. Þar eru allir peningarnir mínir. Ekki seinna vænna heldur, ég fer til Álaborgar á föstudaginn og þaðan með ferju til Oslóar. Að sjálfsögðu tek ég þessu öllu með jafnaðargeði, enda ef allt gengi snurðulaust fyrir sig fengju allir fimm lesendur Bloggsins um veginn (eða Bloggsins um vælið einsog einhver stakk upp á) ekki að lesa allar þessar skemmtilegu hremmingarsögur af undirrituðum.

Í Álaborg gistum við Christian og Mathias eina nótt heima hjá heimsborgara einum sem er góðkunningi síðuritara jafnt sem lesenda. Í Osló gistum við jafnframt eina nótt eftir því sem ég best veit áður en við tökum lestina til Bergvinjar (vinur minn kvartaði undan því að ég talaði um Bergen á sama tíma og ég nefni mína borg Árósa, og staðarheitið Björgvin get ég ómögulega látið út úr mér, vona að honum þyki millivegurinn ásættanlegur).

Í Bergvin sækjum við ráðstefnu um aðferðafræði í miðaldarannsóknum þar sem margir helstu hausanna verða, þám Rudolf Simek sem allir lesendur þessarar síðu skyldu kannast við. Þar verðum við þrjár nætur en tökum svo lestina til Gautaborgar þar sem við dveljum tvær nætur hjá einhverjum náunga. Að endingu er ferðinni heitið heim með lest eftir endilangri vesturströnd Svíþjóðar, sem síðuritara skilst að sé óviðjafnanlega falleg.

Aðlögun í skugga óreiðu

Eyrarsundskollegíið á Amager er fyrir löngu alræmt meðal íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn. Þegar ég kom þangað fyrst í janúar á síðasta ári var þar íslendingapartí auk eins Færeyings sem fékk að fljóta með sökum skyldleika og kannski þess að Íslendingum þykja Færeyingar fyndnir. Það er stærsta kollegí í Kaupmannahöfn, ef ekki það stærsta í Danmörku. Í öllu falli keppir það í stærð við Skjoldhøjkollegíið í Árósum. Þangað og í minni kollegí á Amager er öllum útlendingum troðið og það sama er uppi á teningnum í Árósum. Allir eða velflestir erlendir námsmenn eru sendir í Gellerup og þar má finna Skjoldhøj. Í verri endanum, Brabrand, má svo finna talsvert minni stúdentagarða sem nefnast Hejredalskollegiet. Þar er þeim óheppnustu fundinn íverustaður og þar bý ég.

Gellerup var upphaflega, að því er mér er sagt, hugsað sem úthverfi fyrir hina efnameiri. Þegar hverfið byggðist upp fyrir rúmum 50 árum keyptu velstæðir Danir sér íbúðir þar fyrir talsverðar fjárhæðir, en borgaryfirvöld höfðu á hinn bóginn ekki séð fyrir að ef til vill væru sovétblokkirnar sem þau höfðu byggt of margar og verðið of hátt til að hægt væri að fylla hverfið. Af þeim sökum sátu yfirvöld uppi með það sem út af stóð svo á endanum varð úr að borgin leigði þær út svo lágu verði að því varð ekki jafnað saman við önnur hverfi Árósa. Þangað sóttu í síauknum mæli hinir verst stöddu, sem í tilfelli Danmerkur einsog annarra landa, voru og eru aðallega innflytjendur. Síðan þá hefur hverfið verið látið drabbast niður, hvort sem það er vegna þess að borginni fannst nægum peningum sólundað í þetta herfilega skipulagsslys eða af öðrum sökum, og hinir efnameiri íbúar fluttir annað.

Einsog önnur slík vanrækt hverfi glímir Gellerup við sín vandamál. Í Aarhus Stiftstidende mátti lesa um að Gellerup væri í raun orðið að sjálfstæðu samfélagi aðeins nú fyrir örfáum dögum. Fjölskyldur innflytjenda, sem að stærstum hluta eru frá þeim löndum sem kennd eru við miðaustur og Danir eru sérstaklega þekktir fyrir að líta niður á, eru nú sagðar hafa myndað eigið réttarkerfi. Fréttin var þó ekki sérlega afgerandi þar sem varðstjóri hverfisins gat ekki gert upp við sig hvort íbúar réttuðu yfir og dæmdu samlanda sinna til þjónustu eða refsingar, eða tilkynntu þá ekki yfirhöfuð til viðeigandi yfirvalda þegar þeir brytu af sér. Þá var talað við formann hverfisráðsins, stjórnmálamann hjá Radikale Venstre. Sá sagði að Gellerup væri vissulega plagað af göturánum og öðrum smáglæpum en aldrei hefði hann orðið var við neinn sérstakan götudómstól meðal fólksins; þvert á móti hefðu tilkynningar til lögreglunnar aukist á undanförnum árum. Hvort það væri merki um stóraukna glæpatíðni eða aðlögun og aukna samfélagslega ábyrgð íbúa tjáði hann sig ekkert um.

Þingkosningar verða haldnar hér í nóvember á næsta ári en Radikale Venstre hafa þegar hafið sína kosningabaráttu. Það er kannski viðeigandi að auglýsingar þeirra má helst sjá í strætóskýlum í Gellerup en sjást óvíða annarsstaðar. Þar má sjá nánast hatursfullar tilvitnanir í Piu Kjærsgaard, sjálfan forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen og aðra forvígismenn annarra flokka, þar sem látið er að því liggja að þau hati útlendinga, kennara og Evrópusamstarf. Þar fyrir neðan stendur til dæmis: Við stólum. Líka á útlendinga. Eða: Við trúum. Líka á kennarana. Sjálfsagt falla slík slagorð fyrir daufum eyrum hinna fjölþjóðlegu íbúa Gellerup sem hafa engar úrbætur fengið á sínum málum í áratugi, og ekki er útséð um hvort árangur Radikale í komandi þingkosningum muni hafa nokkuð í för með sér fyrir íbúa einstaks hverfis í Árósum. Á sama tíma stefna borgaryfirvöld að því nú að rífa fjöldann allan af þeim sovétblokkum sem þau áður seldu dýrum dómum. Það sem koma skal í staðinn er einhverslags verslunar- og þjónustukjarni, en hvað verður um íbúana er allt annað mál.

Í 40 ár hefur þarna byggst upp einstætt samfélag byggt að hálfu á siðum gömlu landanna og öðrum hluta á hinum danska lífsstíl sem Íslendingum er að góðu kunnur. Íbúarnir hafa með öðrum orðum samlagast Danmörku að því leyti sem það er hægt þegar þeim er öllum skóflað á sorphauga samfélagsins, og vandamálum þeirra sópað undir sama hornið á teppinu svo fjallið undir verður ekki umflúið. Og þegar fólk hrasar á ruslahrúgunni er fólkinu undir kennt um. Þarna hefur hálfgert skrímsli af fjölmenningarsamfélagi skapast þar sem utanaðkomandi eru jafn tortryggðir innan hverfis og íbúarnir sjálfir eru tortryggðir að utan. Það dettur engum hjá borginni í hug að hreinsa eftir sig, hvað þá að rétta íbúunum hjálparhönd. Lausnin er að rúlla upp teppinu og henda því út á haugana svo hægt verði að finna pláss fyrir stærra stofuborð.

Hvað verður um íbúana þegar heimili þeirra hafa verið rifin er svo aftur vandamál seinni tíma. Meðan Árósar eru enn sú borg í Danmörku sem stækkar hvað örast verður kannski hægt að grafa vandamálið enn fjær ráðhúsinu en nú er, allt svo Danir geti enn hæðst að múslimum og spurt sjálfa sig hvers vegna þeir hafi nú ekki húmor fyrir þessu.

Af þessum ástæðum og öðrum er allt tal um aðlögun einsog ljótur brandari. Vel má vera að Radikale Venstre hafi séð ljósið og vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að rétta út sáttahönd, en mig undraði ekki þótt íbúar Gellerup vildu heldur vera látnir í friði.

Birtist fyrst á Smugunni 6. september.

O du, mein holder Abendstern

Wie Todesahnung Dämmrung deckt die Lande,
umhüllt das Tal mit schwärzlichem Gewande;
der Seele, die nach jenen Höhn verlangt,
vor ihrem Flug durch Nacht und Grausen bangt.

Da scheinest du, o lieblichster der Sterne,
dein Sanftes Licht entsendest du der Ferne;
die nächt’ge Dämmrung teilt dein lieber Strahl,
und freundlich zeigst du den Weg aus dem Tal.

O du, mein holder Abendstern,
wohl grüßt ich immer dich so gern:
vom Herzen, das sie nie verriet,
grüße sie, wenn sie vorbei dir zieht,
wenn sie entschwebt dem Tal der Erden,
ein sel’ger Engel dort zu werden!