Óður til Akraborgar

Mig langar heiiiiiiim! Á undanfarin tvö skipti sem ég hef ætlað heim hefur veðrið tekið upp á því að verða brjálað. Mér finnst þrjár vikur of langt milli heimferða fyrst ég er nú bara 40 mínútur á leiðinni. Ég var að spá um daginn þegar ég sat ein í köldu íbúðinni minni og missti af þvílíkri matarveislu hjá mömmu hvort ég hefði farið með Akraborginni ef hún væri ennþá til… það er spurning.
Við Akraborgin eyddum mörgum stundum saman í gamla daga. Á fyrsta lagi var auðvitað ótrúlegt stuð að leika hana syngja þegar hún opnaði „munninn“ um leið og hún lagðist að bryggjunni heima, svona þegar við biðum í bílnum eftir einhverjum sem var að koma með henni. Það hefur örugglega verið gaman fyrir þá sem voru með mér í bílnum líka. Ég held ég hafi verið 7 ára þegar ég fór fyrst alein með henni, í eina af milljón heimsóknum til Öddu. Um svipað leyti fórum við Guðrún saman tvær í Ödduferð með Akraborg, eyddum næstum því öllum ferðapeningnum í nammi á leiðinni og ákváðum svo að leika hunda (frábær hugmynd). Skriðum um gólfin milli ælandi fólks (því til mikillar gleði) því það var vægast sagt vont í sjóinn þennan dag.

Hönnunin inni í skipinu var mjög undarleg því reyksvæðið (skær-appelsínugult þema) var þeim megin sem minna fannst fyrir veltingnum og sjónvarpið með teiknimyndum (eiturgrænt þema) fyrir krakka var á þeim stað sem var verst að vera. Sniðugt. Ég hef aldrei verið sjóveik en tók hins vegar upp á því þegar ég var búin að fara margar Bogguferðir í góðu stuði að verða sjóhrædd. Áður en ég varð flughrædd. Þetta var svo slæmt á tímabili að ég undirbjó mig fyrir dauða minn í hvert skipti sem ég labbaði inn í skipið. Ég sat alltaf og talaði við konurnar sem voru að vinna í sjoppunni og keypti mér maltesers til að borða eitthvað gott í síðustu máltíðinni. Svo spurði ég þær reglulega hvort við værum að sökkva og hvort þetta væri nú ekki svolítið hættulegt. Mikið hefur verið gaman hjá þeim. Þessi ofsahræðsla skánaði reyndar aðeins með tímanum og í dag finnst mér mun betra að sigla en fljúga.. ég kann nefnilega að synda en er ekki með vængi 😉

Meðan ég sat á sjoppustól, hlustaði á fallegu hljóðin í sjóveika fólkinu og hugsaði um væntanlega dauðastund mína var ég farin að stúdera veltinginn frekar mikið. Öllum veltingi fylgdi brak eins og allt væri að liðast í sundur, ótrúlega traustvekjandi og heimilislegt. Algengasti veltingurinn var bara uuuuuupp og niiiiiiiiiiiður, og inn á milli extra hátt upp og svaka dýfa niður sem hafði yfirleitt í för með sér að allir sögðu „vóóóóóó“ og svo komu nokkur gubb meðal aumingja sjóveika fólksins sem var svo óheppið að reykja ekki. Veltan frá helvíti var svo upp – brjálað zikzak til hliðanna – niður. Viðbjóður. En af einhverjum ástæðum komst ég lifandi frá þessu öllu og þykir pínu vænt um Boggu gömlu. Ég mætti allavega á bryggjuna til að kveðja hana eftir síðustu ferðina 1998… veifaði vasaklút í áttina til hennar og hugsaði um hvað það var gaman að veltast um í maganum á henni.

Ef Kjalarnesið verður með stæla á föstudaginn leigi ég mér gúmmíbát og sigli heim.