Heibb!

Eru páskarnir búnir? Ég er ekki alveg tilbúin til að hætta að liggja í leti og éta til skiptis.. eða bara bæði í einu svo ég ætla að lengja þá aðeins. Á dag, fjórða í páskum, er ég reyndar búin að svíkjast undan letinni og læra aðeins en ég er að hugsa um að hætta því sem fyrst. Annan í páskum fórum við Óli hinsvegar á Björk og Hot Chip í Laugardalshöllinni. Úhhh það var svo gaman. Þetta á sér auðvitað langa og flókna sögu og ekkert er skemmtilegra en langar og flóknar sögur (eins og ónefndur aðili komst að þegar hann talaði við annan ónefndan aðila í afmælinu mínu.. múhaha).

Þegar ég var litil átti ég auðvitað tvö yndisleg gelgjusystkini og það hafði ýmis forréttindi í för með sér. Meðal þeirra var tenging við hina ýmsu tónlistarmenn og á tímabili ól Adda mig upp í því að dýrka og dá Sykurmolana í einu og öllu. Ég er einstaklega hlýðin og stóð mig vel í þessu. Þar sem þetta var í gamla daga voru ekki sýnd myndbönd í sjónvarpinu allan sólarhringinn heldur var Jón Ólafs með þáverandi mini-afró á hausnum með vikulegan hálftíma myndbandaþátt sem skipti nú eitthvað um nafn en hefur væntanlega heitið Popp og kók eða eitthvað álíka. Þar var nú aldeilis hægt að sjá og heyra eitthvað skemmtilegt en uppáhalds lag+myndband mitt með Sykurmolunum var að sjálfsögðu Deus á þessum tíma.

Tíminn leið og Björk stakk af en ég vildi ekki gefast upp á henni greyinu enda skipti aðdáun mín á henni hana svo miklu máli 😉 Ég var alltaf á fullu í því að verja öskrin í Björk fyrir vinkonum mínum á þessum tíma (nema auðvitað Guðrúnu, hún var með mér í þessu :)) því þeim fannst þetta víst hljóma verr en Sálin hans Jóns míns. Hmmm…  Eftir að Debut kom út 1993 trylltist ég sem aðdáandi og fór meðal annars í hina sívinsælu búð Hugfang (blessuð sé minning hennar) og lét prenta plötuumslagið á bol, alveg eitursvalt. Sumarið 1995 þegar Post kom út var ég í vist og um leið og fyrstu launin skiluðu sér hljóp ég með barnið í kerrunni að kaupa diskinn (í pínulitlu Roxy búðinni, blessuð sé minning hennar líka! Hvað er með að allar búðir séu bara dauðar). Árið eftir náði þetta svo auðvitað hámarki þegar við Guðrún og Ása skelltum okkur á Bjarkartónleikana. Ég mun þá hafa verið útlítandi eins og lítil kartafla, með asnalega wannabe Bjarkarhárgreiðslu og sólbrennd í framan eftir fyrstu vikurnar í vinnuskólanum. Á minningunni voru Guðrún og Ása allavega mun skárri þó þær hafi reyndar verið með svipaða hárgreiðslu 😉 Eftir þetta hætti ég nú að fylgjast mikið með því sem Björk var að gera en vissi svona af því… Þegar Medulla kom svo út fyrir ca 3 árum fann ég að hún var farin að gera eitthvað nýtt – og eitthvað sem ég fíla í dag. Ég fór samt á þessa tónleika án þess að hafa neinar væntingar.

Flest lögin af nýju plötunni fannst mér góð, þetta er allt öðruvísi efni en í gamla daga enda er ég og minn smekkur líka allt öðruvísi en þá, sem betur fer 😉 Tvö stóðu sérstaklega upp úr og gera það allavega þess virði að kaupa diskinn. Þau lög sem hún tók af eldri plötum voru eins og valin eftir mínum smekk… nostalgíulag af Debut, flottasta lagið af Post í geggjaðri útsetningu, Vökuró af Medulla og svo framvegis. Stelpurnar sem eru að vinna með henni stóðu sig líka vel, ekkert smá tækifæri að fá að fara í 18 mánaða tónleikaferð um heiminn… með Björk. Semsagt, frábærir tónleikar – og Hot Chip voru líka góðir 😉

2 replies on “Heibb!”

  1. ég man þá góðu daga þegar við sátum úti í Monzunni (blessuð sé minning hennar) og hlustuðum á kasettu með sykurmolunum…þá komstu mér á bragðið og þá var mér ekki snúið við!
    ohhh….það var alltaf svo gaman hjá okkur…og þessir Bjarkartónleikar hér í denn voru frábærir…svo ekki sé minnst á ferðina heim um Hvalfjörðinn…hehe…:) ég fíla björk í tætlur og öfunda Silvíu soldið á að vera að fara með björk í tónleikaferðalag!
    ég get allavega státað mig af því að hún kom inn á Crit/sýningaropnunina okkar í Saltfélaginu…sem var gaman…:)

  2. Hehe þetta var svakaleg ferð, við fórum í milljón sundferðir og í herminn… geggjaðar gellur! 🙂
    Ég var búin að gleyma þessu æði mínu að sitja inni í Monzu og hlusta á kasettur 😀

Comments are closed.