Mánaðarskipt færslusafn fyrir: maí 2008

Og það er árið áttatíu og níu

Ó internet, ó internet!

Ég átti þennan og þessa og þennan og þessa og þennan svo eitthvað sé nefnt! Við Guðrún lékum okkur ekkert smá með þessa Fabuland karla, byggðum alltaf risastórt hús og allir voru með sitt hlutverk… rostungurinn var alltaf kóngurinn. Einn af „nýjustu“ körlunum var flóðhestur, reyndar kvenkyns. Ég man hvað ég var fúl þegar hann týndist í leik hjá okkur Guðrúnu. Skil ekki hvernig, við vorum bara í leiknum „hendum dótinu aftur fyrir okkur inn í geymsluhillurnar og reynum svo að finna það“… og hann fannst aldrei 😉

Svo fyrst ég er byrjuð þá er þetta líka hressandi!  Fæ bara kitl í magann! Enda varla til sætari gaurar en þetta 😉

Og ein spurning að lokum… hvað hétu Smjattpattarnir á frummálinu? 😉

Nafnamartröð

Dreymdi í morgun að ég hefði óvart sagt vitlaust nafn í skírninni. Þetta voru tvö nöfn, bæði frekar ljót og pössuðu vægast sagt ömurlega saman. Ég er búin að gleyma seinna nafninu en fyrra nafnið var Friðsteinn. Sætt. Var að reyna að hringja í prestinn því ég vildi reyna að stoppa þetta sem allra fyrst (hafði af einhverjum ástæðum ekki „fattað“ vitleysuna í athöfninni sjálfri… aha…). Auðvitað var eins og ég hefði aldrei notað síma áður, hitti ekki á takkana, gerði vitlaust númer og svo svaraði enginn. Og barnið hét Friðsteinn Xxxxxx. Þegar ég vaknaði við að „Friðsteinn“ var farinn að láta heyra í sér fannst mér ennþá að ég yrði að hringja í einhvern til að leiðrétta þetta. Eins gott að ég hringdi ekki hálfsofandi í þjóðskrá og heimtaði nafnabreytingu. Það getur verið erfitt að vera nafnanörd.

I just keep loosing my beat

Ég hélt að ég ætti heima á efri hæð af tveimur í mínu fagra húsi. Undanfarna daga hef ég komist að því ég bý á annarri hæð af þremur. Ábúarnir á efstu hæðinni eru svolítið spes… Mér finnst þeir ljótir en það er allavega ekki hægt að segja að þeir séu latir, skila þvílíkum afköstum á hverjum degi. Þeir eru allir með átta lappir… jibbí, ég á heima í kóngulóarhúsi! Þetta hefur alltaf verið draumur minn, ég man hvað ég öfundaði Lísu þegar hún bjó í Kópavoginum og sá nýjar tegundir af kóngulóm á hverjum degi. Gular, grænar, feitar, stórar… yndislegt. Þegar ég lauma barnavagninum út á tröppur í hádeginu snýst hausinn á mér í hringi til að staðsetja hvert einasta kvikindi sem gæti verið nálægt mér. Stundum liggja þær bara og slappa af í þessum fáránlega stóru meistaraverkum sínum sem hanga meðal annars utan í þakinu. Svo lítur maður aðeins af þeim og allt í einu eru þær horfnar! Og mann fer að klæja við tilhugsunina um hvar þær gætu mögulega verið. Hrollur hrollur…..

Þjóðfræðibras: Ég er búin að vera að skrifa upp viðtöl (sem ég á að vera löngu búin með). Fékk annað upptökutæki en ég var með og þar leyndist viðtal sem einhver annar á. Diskurinn er ekki merktur og sá sem tekur viðtalið kynnir sig ekki en þetta virðist vera um Ólafsvöku… einhver búinn að týna viðtali??? Á eftir að athuga þetta betur og auglýsa á réttum stöðum en það sakar ekki að byrja hér 😉

Afmælisbarn dagsins er engin önnur en mamma mín!

family2.jpgmamms.jpg

Mér finnst hún nú hafa breyst fáránlega lítið á 50 árum! Heppilegt að í dag er bannað að vera í megrun, held að ég fái nefnilega svolítið mikið gott að borða á eftir (allir dagar eru reyndar megrunarlausir hjá mér en það er fínt að hafa þetta svona opinbert).

Aukaafmælisbarn dagsins er svo Guðmundur Hrafnkell sem er 3 mánaða í dag!

Húrra, húrra, húrraaaa!