María Sigrún, kókdrykkja og sofandi barn

Á kvöld er María vinkona mín að halda upp á stórmerkilegt stórafmæli. Ég er með í anda en vona að andinn verði ekki það sterkur að ég fari að sjást þar því ég er ekki beint í sparifötunum ákkúrat núna 😉 María er auðvitað ein af skemmtilegustu manneskjum sem ég þekki, ég kynntist henni þegar við byrjuðum í þjóðfræði haustið 2002, eðalfólk sem var þar samankomið 😉 Katrín Rut lýsti mér einu sinni sem „stelpukonu“ þegar hún var að reyna að átta sig á hvað ég væri eiginlega og mér finnst sú lýsing passa mjög vel við Maríu. Ég sendi henni blogg-hamingjuóskir þó ég hafi óskað henni til hamingju á réttum degi, það er samt spurning hvenær hún rekst á þessa færslu 😉

Ég var þrí-plönuð í kvöld. Umrætt stórafmæli, styrktartónleikar og nuddtími. En skortur á pössun þýðir kósýkvöld heima með krónprinsinum og ég kvarta svosem ekki yfir því 🙂 Maður er svolítið latur þegar barnið vaknar syngjandi klukkan 5 að morgni (það er reyndar mjög óvenjulegt en gerðist í morgun) og Daði er í vinnunni frá 7 á morgnana og til miðnættis! Ég uppgötvaði í kvöldmatnum að ég var búin með 3/4 af tveggja lítra kókflösku yfir daginn 😀 Ein…. Flott! Ekkert smá jákvæð orka þar á ferð! Það er hægt að fara að tala um mig eins og bíl, hvað ég eyði mörgum lítrum og svona… Virðist allavega innbyrða jafnmikið og bíll. Sem betur fer er ég samt ekki farin að drekka bensín, þreytan er ekki komin á svo slæmt stig. Framar á listanum er væntanlega að setja kók á bílinn, það væri ódýrara en bensín eins og staðan er í dag! Að því gefnu að ég versli á réttum stöðum.

En… eftir langan dag er eitthvað svo gott við að hanga í tölvunni og slappa af, drekka VATN (til að þynna kókið í líkamanum aðeins), vera búin að ganga frá í hverju einasta herbergi og vita að barnið er sofandi inni í herbergi. Ahhh 🙂

sleep.jpg

Tók smá áhættu áður en afslöppunin mín hófst og lýsti allt svefnherbergið upp með flassinu á myndavélinni… En það slapp! Guðmundur Hrafnkell í draumalandi fyrr í kvöld…