Mánaðarskipt færslusafn fyrir: apríl 2009

Prúðar

Mikið erum við Lísa nú saklausar þarna… það mætti halda að við hefðum aldrei gert neitt af okkur 😉 Þegar ég á að vera að læra fer ég stundum að grúska í myndasafninu mínu. Á tímabili var helsta listgrein okkar Cookie að taka sjálfsmyndir. Ég gæti örugglega gefið út nokkur bindi af sjálfsmyndabókum um okkur, það myndi væntanlega rokseljast.

Það væri að minnsta kosti stuð að safna myndunum öllum í eina möppu og athuga hvað þær eru margar. Ég skal láta ykkur vita þegar ég kemst að niðurstöðu. Já… og ég skal líka láta ykkur vita ef mér tekst einhvern tímann að skrifa þessa ritgerð, verandi svona upptekin að skoða myndir af sjálfri mér.

Fagur fugl

Hildur Björk systurdóttir mín var fermd í gær. Undirbúningur í kringum fermingu er merkilegt fyrirbæri. Ég hef ekki upplifað þann undirbúning svona nálægt mér síðan ég sjálf var fermd og það er nú eiginlega ekki tekið með. Mér finnst þetta svolítið eins og það hafi verið ýtt á pásu í dálítinn tíma og í þessari pásu var athygli allra nánustu ættingja og vina Hildar á því að gera daginn sem eftirminnilegastan fyrir hana. Þegar allt er afstaðið og hversdagsleikanum er aftur ýtt af stað er Hildur allt í einu orðin svo miklu stærri en hún var! ;)  Það er þroskandi að fá að taka þátt í að undirbúa sína eigin veislu, að skipuleggja, velja og hafna, segja sínar skoðanir og vera miðpunktur athyglinnar. Á fermingardeginum sínum var hún bæði falleg og frábær, brosandi og kát (með sitt nýja teinalausa bros :)), söng fyrir gestina sína og naut dagsins í botn. Jú jú hverjum þykir sinn fugl fagur… en minn er bara svo rosalega sætur 🙂

Skýjum ofar

Þessa mynd tók ég út um flugvélarglugga í maí 2004. Síðan þá hef ég ekki farið frá Áslandinu ástkæra. Ég hef aldrei á ævinni farið til sólarlanda, aldrei farið í verslunarferð, aldrei í borgarferð… Ég hef tvisvar komið til Danmerkur og um leið keyrt til Þýskalands – og þar með er það upptalið! Nú eru að verða fimm ár síðan en þegar ég hugsa um augnablikið þegar flugvélin var að keyra af stað eftir flugbrautinni og ég vissi að ég gæti ekki hætt við – þá finnst mér það hafa gerst fyrir viku! Ég er svo sjúklega flughrædd að það hefur mikil áhrif á það hvað ég ákveð að gera og hvað ég ákveð að gera ekki. Á þessum fimm árum hafa oft komið upp hugmyndir um utanlandsferðir sem ég hef stoppað af því ég þori ekki að fljúga.

Ég skil ekki hvernig svona hlutur helst uppi í loftinu. Ég skil ekki hvernig manneskjur geta stjórnað svona stórum hlut og látið hann fljúga. Ég vil geta stjórnað sjálf og ég vil skilja hvað er að gerast, ég vil geta staðið upp og labbað út þegar ég vil – ekki góð hugmynd reyndar! Mig langar að skoða svo margt og upplifa það að koma til ýmissa staða.

Fyrir 7 mánuðum pantaði ég mér leikhúsmiða í London – á sýningu sem er í byrjun maí. Það var svo langt í burtu að ég gat ýtt til hliðar þeirri staðreynd að ég get víst ekki labbað þangað. Nú er komið að því að ákveða…. Ég á leikhúsmiða, ég hef góða pössun fyrir aðalmanneskjuna, mig langar að sjá London, ég á nú alveg inni að fá að minnsta kosti að koma inn í eina HM búð, verandi kvenmaður og allt það 😉 En ég get ekki bókað flugið á netinu af því að ÉG skil ekki hvernig maður flýgur flugvél. Er ekki bara kominn tími á að hætta að láta svona og drífa sig í eina helgarferð?

Ferskt

Nú segja allir bloggarar að facebook taki allan þeirra tíma. Ég get víst ekki skýlt mér á bak við þá afsökun því þó ég kíki reglulega þangað inn er mér alltaf farið að leiðast eftir nokkrar mínútur. Ég hef aldrei reynt að neita því að ég er bara léleg í að uppfæra þessa síðu og það ætti að vera farið að síast inn í þá sem þekkja mig 😉 Það er reyndar frekar skrýtið því mér finnst fátt skemmtilegra en að skrifa.

Ég er að hugsa hvað ég eigi að gera við þessa síðu því mér finnst ekkert ömurlegra en yfirgefnar bloggsíður sem sýna sömu færsluna endalaust. Þá er betra að láta þær bara hverfa fyrir fullt og allt. Það er þrennt í stöðunni í þessu grafalvarlega máli. Ég hallast mest að einum möguleikanum en hann býður einmitt upp á skrif og eitt af þessu FÁA sem er enn skemmtilegra en skrif… að grúska í gömlum og nýjum ljósmyndum. Myndir segja meira en þúsund orð, það vita auðvitað allir 🙂 Þessi möguleiki snýst semsagt um að endurvekja síðuna með ferskum blæ, svona ný síða eins og nýju bankarnir og nýja Ásland – nema bara betri 😉 Hinir möguleikarnir eru að eyða þessari síðu eða láta hana halda áfram að hanga í sama farinu út í hið óendanlega.

Þetta er spennandi….!