Þessa mynd tók ég út um flugvélarglugga í maí 2004. Síðan þá hef ég ekki farið frá Áslandinu ástkæra. Ég hef aldrei á ævinni farið til sólarlanda, aldrei farið í verslunarferð, aldrei í borgarferð… Ég hef tvisvar komið til Danmerkur og um leið keyrt til Þýskalands – og þar með er það upptalið! Nú eru að verða fimm ár síðan en þegar ég hugsa um augnablikið þegar flugvélin var að keyra af stað eftir flugbrautinni og ég vissi að ég gæti ekki hætt við – þá finnst mér það hafa gerst fyrir viku! Ég er svo sjúklega flughrædd að það hefur mikil áhrif á það hvað ég ákveð að gera og hvað ég ákveð að gera ekki. Á þessum fimm árum hafa oft komið upp hugmyndir um utanlandsferðir sem ég hef stoppað af því ég þori ekki að fljúga.
Ég skil ekki hvernig svona hlutur helst uppi í loftinu. Ég skil ekki hvernig manneskjur geta stjórnað svona stórum hlut og látið hann fljúga. Ég vil geta stjórnað sjálf og ég vil skilja hvað er að gerast, ég vil geta staðið upp og labbað út þegar ég vil – ekki góð hugmynd reyndar! Mig langar að skoða svo margt og upplifa það að koma til ýmissa staða.
Fyrir 7 mánuðum pantaði ég mér leikhúsmiða í London – á sýningu sem er í byrjun maí. Það var svo langt í burtu að ég gat ýtt til hliðar þeirri staðreynd að ég get víst ekki labbað þangað. Nú er komið að því að ákveða…. Ég á leikhúsmiða, ég hef góða pössun fyrir aðalmanneskjuna, mig langar að sjá London, ég á nú alveg inni að fá að minnsta kosti að koma inn í eina HM búð, verandi kvenmaður og allt það 😉 En ég get ekki bókað flugið á netinu af því að ÉG skil ekki hvernig maður flýgur flugvél. Er ekki bara kominn tími á að hætta að láta svona og drífa sig í eina helgarferð?