Fróði / Birtingur er skítafyrirtæki

Pirripirripirr!

Fróði eða Birtingur eða hvað þetta heitir núna er skítafyrirtæki.

Það var semsagt hringt í mig í maí og mér boðin gjafaáskrift að Séð og heyrt í 2 og hálfan mánuð. Ég gæti svo fengið 20% afslátt af blaðinu eða öðru blaði frá Fróða í ár eftir það. Ég var ekkert of spennt en spurði samt hvort ég væri bundin af því að halda áfram að kaupa blað frá þeim. „Neinei, þú getur alveg hætt eftir 2 og hálfan mánuð, þú þarft bara að passa sjálf uppá að hringja í okkur í júlí og segja upp áskriftinni“. Ég ítrekaði meira að segja spurninguna og fékk sömu svör. Jæja, gott og vel, það væri ekkert of slæmt að fá Séð og heyrt í 2 og hálfan mánuð, ágætis klósettlesefni!

Svo fæ ég Séð og heyrt sent heim næstu vikur. Svo er komið fram í ágúst og ég fæ sendan gíróseðil fyrir Séð og heyrt, 4 blöð sem ég hafði þá fengið eftir að gjafaáskriftinni lauk. Ohh, djöfull gleymdi að segja upp áskriftinni. Ég borga gíróseðilinn.

Hringi svo í Fróða og segist ætla að segja upp áskriftinni að Séð og heyrt.
Einhver voðaleg brussa svarar mér og spyr hvað ég vilji fá í staðinn.
„Fá í staðinn? Ekkert!“
„Jú, þú verður að taka áskrift að einhverju blaði hjá okkur, það er inní tilboðinu.“
„En mér var sagt að ég gæti alveg hætt eftir að gjafaáskriftin rynni út.“
„Nei, það getur ekki verið.“
„Jú, ég spurði meira að segja sérstaklega að því!“
„Neinei, heldurðu að þú fáir bara Séð og heyrt frítt og þurfir ekkert að leggja til sjálf?“
„Er það mér að kenna að þið hafið óhæft lið í úthringingum hjá ykkur?! URG! Gestgjafinn er sennilega skásta blaðið ykkar, sit ég semsagt uppi með það næsta árið?“
„Já, þú vilt semsagt fá Gestgjafann?“
„Nei, ég vil ekki fá Gestgjafnn en mér skilst á þér að ég sitji uppi með hann!“

Jæja, ég hef nú fengið tvo blöð af Gestgjafanum. Voða huggulegt að lesa Gestgjafann, margt gagnlegt í honum. En verst að mig langaði bara ekkert að fá hann og langaði að eyða peningunum mínum í annað!

Talandi um peninga. Mamma talaði við mig í gær.
„Heyrðu, hefur þú verið að fá Gestgjafann? Kannski óumbeðið?“
„Já, tvö blöð. Jú, óumbeðið svo að segja. Af hverju?“
„Ég var nefnilega að fá gíróseðil frá Birtingi vegna þín.“
Vá, frábært. Ekki nóg með að þessi andskotar ætli að seilast ofan í vasana mína þá eru þeir farnir að seilast ofan í vasana hjá mömmu!

Ég hringdi í Fróða áðan. Talaði við ósköp kurteisan strák…sem gat bara því miður ekkert gert fyrir mig, nema senda mér gíróseðilinn sem mamma fékk. Ég sit uppi með Gestgjafann þar til í apríl 2007. Eins gott að setja það á reminder að segja þessu helvíti upp!

Er þeim annars stætt á að gera þetta? Það er ekki til neinn skriflegur samningur fyrir þessu. Bara orðin tóm.

Ég mun aldrei aftur kaupa tímarit af Fróða/Birtingi eða hvaða nöfnum þeirra kunna að nefast í framtíðinni.

Eins og ég mér finnst nú Gestgjafinn annars ágætt blað.