Linsumátun

Ég fór í linsumátun áðan. Niðurstaðan varð að ég fékk linsur með -1,00, eins og gleraugun mín eru. Ég fór í Optical Studio í Smáralind og þar kostar linsumátun 2000 kr. Það gekk nú svona frekar brösuglega að máta. Ég er náttúrlega hrikalega viðkvæm að því leyti að ég blikka augunum við minnsta áreiti. En þetta gekk eftir nokkrar tilraunir. Lykilatriðið er að toga efra augnlokið upp með löngutöng vinstri handar og neðra augnlokið niður með löngutöng hægri handar. Svo þarf linsan að snúa rétt og liggja kúpt á vísifingri hægri handar. Svo þarf linsan að „grípa augað“. Svo á að loka auganu og horfa upp, niður, hægri, vinstri til að leyfa linsunni að jafna sig. Svo er maður bara good to go, þangað til þarf að taka hana úr. Já og það er mikilvægt að þvo sér um hendurnar þegar maður er að eiga við linsurnar. Og ef illa gengur að setja linsuna í, er gott að bleyta í henni inná milli með linsuvökva.

Það má ekki sofa með linsur, ekki einu sinni í smá stund. Það má fara í sund með linsur, en verður að hafa sundgleraugu ef maður ætlar að synda. Ekki æskilegt að hafa linsurnar lengur en 10-12 tíma í einu, en 18 tímar eru hámark.

Ég fékk svo nokkrar með mér heim til að æfa mig af Johnsons dagslinsum. Náði reyndar að nudda aðra linsuna úr mér áðan, tveimur tímum eftir að hún fór í. Semsagt ekki æskilegt að nudda augun harkalega þegar maður er með linsur, dööhhh.

Þetta eru nú aðallega minnisatriði fyrir mig. Ég hugsa að ég noti linsurnar ekki daglega, heldur meira svona „spari“ t.d. í stjörnuskoðun, gönguferðum og öðrum aðstæðum sem óþægilegt er að vera með gleraugun en samt gott eða nauðsynlegt að sjá vel.

Og takk fyrir góðu ráðin 🙂