Mér finnst frekar furðulegt að túlka niðurstöður kosninganna um helgina þannig að Íslendingar vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Ég efa það að allir sem kusu Samfylkinguna, Borgarahreyfinguna og Framsókn vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Mig grunar að fólk hafi verið að hugsa um margt fleira þegar það var að ákveða hvernig það myndi verja atkvæði sínu eins og t.d. efnahagsmál, atvinnumál, heilbrigðismál og jafnréttismál og bara almennt hvernig menn vilja sjá samfélagið þróast á næstu mánuðum og árum. Og ég efa að allt þetta fólk haldi að ESB sé einhver töfralausn í öllum málum. Svo voru væntanlega margir sem kusu bara sína flokka af gömlum vana án þess að hugsa um málefnin, fortíðina og framtíðina.
Könnun sem var gerð í byrjun apríl (já árið 2009) sýnir að meirihluti landsmanna er andvígur aðildarviðræðum.
En ég er helst á því að við verðum að fara í viðræður svo það sé hægt að fara að hugsa um eitthvað annað. Því ESB umræðan verður yfir og allt um kring hvort sem við sækjum um eða ekki. Það er líka ekkert að því að fá að sjá svart á hvítu hvað er í boði. Annars finnst mér vanta vitræna umræðu um þessi mál, flest sem við heyrum eru bara frasar. Mér finnst ég líka aldrei hafa heyrt neitt af viti frá Samfylkingunni um ESB, bara frasann að við verðum að sækja um.