Orðabók, skúffukaka, helgin, Foldasafn og lærdómur

Jæja, núna er ég búin að kaupa mér ENSK-ÍSLENSKA skólaorðabók og hef nú enga afsökun lengur fyrir því að fara að lesa allar ensku, þungu fræðigreinarnar.Orðabókin sem við áttum fyrir var of gömul fyrir minn smekk, svo gömul að sumar þýðingarnar (þ.e. íslensku orðin) átti ég erfitt með að skilja, t.d. var piano þýtt sem slagharpa.

Óli bakaði skúffuköku í gær. Hún er góð! Hann bjó líka til krem á kökuna, kremið heitir Frostingur og samanstendur af miklum púðursykri, sykri, vatni og stífþeyttum eggjahvítum, NAMM! Við buðum svo Hrönn og Svenna að koma í síðbúið kvöldkaffi og horfðum á tvo uppbyggjandi þætti Sex and the City og Bachelor.

Ég var búin að plana að hafa massíva lærdómshelgi og það plan stendur ennþá, en það verður samt nóg annað að gera líka. Í kvöld ætla ég til Evu og Heiðu og við ætlum að elda e-ð gott og horfa á Idol og sitthvað fleira kannski. Á morgun er badminton með Óla, Evu og Heiðu og svo kannski út að borða og bíó um kvöldið. Á sunnudagskvöldið er svo matarboð hjá Svenna og Hrönn.
Það lítur því út fyrir að ég fái nóg að borða um helgina 🙂

Ég fór uppá Foldasafn áðan. Það var skrýtið að koma þangað án þess að vera að vinna. Koma bara sem „óbreyttur borgari“. Var að skila diskum sem ég var búin að vera með alltof lengi og líka nokkrum bókum. Var líka að skila af mér lyklunum. Nú komst ég líka að því hvað það er langt út í Grafarvog frá Vesturbænum.

Jæja, nú verð ég að fara að ákveða hvað ég ætla að taka mér fyrir hendur í dag. Á ég að leita að heimildum fyrir ritgerð í Upplýsingamiðlum? Á ég að leita að heimildum fyrir verkefni í Vinnulagi? Á ég að reikna dæmi í Tölfræði? Á ég að lesa í Skjalastjórn? Eða Upplýsingamiðlun? Eða Aðferðafræði? Eða gera könnunarprófið í Aðferðafræði? Eða byrja á verkefninu í Interneti?
Úff…ætli Upplýsingamiðlun verði ekki fyrir valinu og hlustun á 200.000 naglbíta á meðan 🙂
Góða helgi!