Þegar ég Samsa-maðist Kafka

Þegar Arngrímur Vídalín vaknaði morgun einn af órólegum draumum, komst hann að raun um að hann hafði breyst í skræpóttan furðufíl í rúmi sínu.

Í tilefni þess að ég (þ.e. Elmar) las betri þýðingu Hamskiptanna á dögunum (þ.e. Umskiptin) er hér tilvitnun í Annie Hall (þ.e. Woody Allen) sem er magnaðasta gagnrýni á tilgerð (þ.e. tilgerð) sem ég hef nokkru sinni séð:

Pam: Sex with you is really a Kafka-esque experience.
Alvy Singer: Oh. Thank you.
Pam: I mean that as a compliment.

Dagsferðin

Áðan skrapp ég í IKEA og var í tvígang spurður hvort ég hefði ekki hugleitt að koma aftur til starfa. Þegar ég sagðist vera ánægður á bókasafninu uppskar ég sama svar í bæði skiptin: Jaaaá, alveg rétt. Þú varst alltaf svo mikið fyrir svoleiðis! Gekk ég út án stóráfalla fyrir budduna og þykist ég nú eiga allar nauðsynjar líkt og fyrri daginn. Þó gleymdi ég að kaupa það sem rak mig þangað til að byrja með og ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað það var.

Fyrir utan sænsku velferðarkeðjuna – velferð í flötum kassa eru kjörorð þeirra – rann upp fyrir mér að ég hafði gleymt að skrúfa upp bílrúðuna, og tortímdust glósublöðin í rigningunni. Sannlega er ég meistari. Eigi að síður var notalegt að keyra inn í Hafnarfjörðinn með kristaltært rigningaloftið leikandi um bílinn meðan vatnið gufaði upp af glósunum undir léttum hita miðstöðvarinnar. Eins og lítið vor bara fyrir mig.

Lauk ég dagsferðinni á að koma við í sjoppu nokkurri , hvar ung stúlka hélt skimandi tófu sinni undir handarkrikanum. Bað hún um pylsubrauð með öllu nema hráum. Þvínæst fóðraði hún tófuna. Margt er í heimi hér.

L8-Ex!

Samþykkt var á hluthafafundi Olís hf. í dag að fyrirtækið breytti nafni sínu í L8-Ex! Kom þetta í kjölfar sameiningar fyrirtækisins við Straum-Burðarás á dögunum.

Þegar blaðamaður Bloggsins um veginn spurði útí nafngiftina sagði Víglundur Þórmundarson, nýskipaður stjórnarformaður L8-Ex!, að nafninu sé ætlað að vekja jákvæð hugrenningatengsl við hið alþjóðlega umhverfi sem L8-Ex! þiggur áhrif sín frá.

„Nafnið er ótvírætt og ber styrk fyrirtækisins fagurt vitni. Styrkur okkar er hið alþjóðlega bakland, þetta er stórfelld útrás og það eru miklir möguleikar í boði, einsog yfirstandandi viðskiptasamningar við Bilderberg Group og Johnsons Fairchild EPCD sýna.“

Aðspurður segist Víglundur ekki geta tjáð sig um eðli samninganna á þessari stundu. „En þetta er allt að koma,“ segir hann með bros á vör.

Satie

Það er sammerkt með mörgum snillingum sögunnar að þeir voru ekki metnir að verðleikum tímanlega. Nú veit ég ekki hvort maðurinn spilaði svona hryllilega á píanó, en ég fullyrði að engum sem hefur hlustað á Gymnopédíur Saties myndi láta sér detta í hug að segja hann „klaufalegan þó fágaðan tekníker“. Sá sem sagði það hafði heil 23 ár til að hlusta á þær (16 ár til að hlusta á heildarverkið, ef miðað er við útgáfutíma 2. Gymnopédíu). Af því ætla ég að hann hafi verið fáviti. En við getum ekki öll verið fullkomin.

Annars óskast þýðing á þessu furðulega orði. Mér skilst að líklegasta túlkunin sé einfaldlega Dans, en fyrsti hlutinn og jafnframt sá þekktasti er einmitt áþekkur valsi. Sjálfur sagðist hann vera gymnopetisti en ekki tónskáld, sem gæti þá þýtt kóreógrafer. Einnig mun hann hafa kallað sig fónómetríker, sem Wikipedia segir að merki þann sem mælir og skráir hljóð. Hvað ætli Kristjáni Árnasyni þætti um það?

Og kjósendur fögnuðu ákaft

„Fred Thompson, forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, sagði í dag að nauðsynlegt væri að handsama Osama bin Laden og taka hann af lífi. Ekki kæmi þó til greina að hann yrði líflátinn án dóms og laga.“
mbl.

Gott að hann tók fyrir þann misskilning, ha krakkar? Eitt andartak hélt ég nefnilega að ég byggi í einhvers konar raunveruleika.

Fable revisited

Í sumar varð mér bloggað um Atlantis og vakti það athygli sjálfs Menosar, sem svaraði pistlinum um hæl. Nú hef ég rekið augu mín í nýstofnaða vefsíðu, Bad Archaeology, sem tekur fyrir allskyns þvælu sem fer að einhverju eða öllu leyti á skjön við viðurkennda fornleifafræði. Hér má sjá umfjöllun þeirra um Atlantis. Af því ég minntist í sömu færslu á meinta gröf Heródesar mikla er ekki úr vegi að vísa einnig á pistil þeirra um það efni.

Málalyktir

Eftir að ég hafði gengið frá samkomulagi um viðskipti við Byr fór ég í Glitni til að greiða skuldina, og fjandinn hafi það ef það er ekki búið að innrétta staðinn eins og eitthvert geimskip. Hryllilegar lyftuútgáfur af Tears in Heaven og viðlíka lögum ómuðu um rýmið og skælbrosandi stelpur í drögtum buðu uppá sótthreinsað kaffi, áreiðanlega kiknandi undan harðsperrum í munnvikunum. Þetta er ekki banki lengur, þetta er heill andskotans sirkus.

Ég fékk ekki að tala við neinn sem skiptir máli, aðeins hefðbundinn bankastarfsmann í löginnheimtudeild, þannig að mér gafst ekki almennilegt tækifæri til að öskra á neinn. Skuldin er þá greidd en enn er eftir að færa peningana mína milli banka. En það er víst eins gott að bankinn gleymdi ekki að senda mér stefnuna eins og hitt, því hið merkilegasta við þetta allt saman er að innheimtuaðferð bankans, sem fer hér á eftir, er lögleg:

1) Viðkomandi eru sendar ítrekanir um greiðslu allt að 38.000 krónum. Það var gert í mínu tilfelli.
2) Viðkomandi er send aðvörun um að farið verði í hart verði skuldin ekki greidd. Það var ekki gert í mínu tilfelli.
3) Viðkomandi er stefnt til að greiða skuldina innan þriggja daga frá stefnuvottun ellegar verði hann kærður til Héraðsdóms. Það var og gert, með fyrrgreindum málalyktum. En höldum annars áfram, hér kvíslast þetta í tvennt:
4a) Stefndi tapar málinu fyrir rétti og er gert að greiða upphæðina auk alls málskostnaðar. Ætli það hlaupi ekki á hálfri milljón fyrir einn Visareikning.
4b i) Stefndi mætir ekki fyrir dóm af einni eða annarri ástæðu og veitir það stefnanda aðfararrétt.
4b ii) Stefndi er tekinn fjárnámi og/eða eignaupptöku, þ.m.t. húsnæði í hans eigu að andvirði 20 milljóna króna. Mismunur er vitanlega ekki gefinn tilbaka.
4b iii) Stefndi er í kjölfarið lýstur gjaldþrota.

Svona getur 23 ára gamall námsmaður orðið gjaldþrota. Finnst engum öðrum en mér það óeðlilegt að bankar skuli stefna fólki fyrir svo lágar upphæðir, án þess einu sinni að a) vara við því að málið verði tekið til innheimtumeðferðar berist greiðsla ekki fyrir tiltekinn tíma, og b) veita andmælarétt áður en stefnt er. Það hefði svo sannarlega gagnast í mínu tilfelli, þar sem ég hafði samið um það við þjónustufulltrúa að ég greiddi allar mínar skuldir við bankann í septembermánuði núlíðandi. Hvað gerðist veit ég ekki. En þetta er allur skilningurinn og traustið – hin dásamlega námsmannaþjónusta Glitnisbanka. Og er það ekki í fyrsta sinn sem viðlíka stofnun svíkur við mig munnlegan samning.

Skrifast með von um að nýi bankinn reynist betur.

Ég, hinn ákærði

Þá er skólinn byrjaður aftur og að þessu sinni er kennsluefnið að mestu á norsku. Daglega hratið lét víst ekki bíða eftir sér heldur, því við það að ég var að fara að vinda mér í að lesa Textens mønstre, barði grafalvarlegur maður að dyrum með stefnu í krumlunum.

Bankinn minn hefur semsé stefnt mér fyrir að hafa ekki greitt greiðslukortareikning upp á rúmar 30.000 krónur, sem er skondið því ég var einmitt á leiðinni að borga hann. Hinsvegar get ég ekki ímyndað mér annað en bankanum sé skylt að vara mig við áður en farið er í hart, svo þeir mega búast við heimsókn frá mér á morgun.

Þannig að í stað þess að leita til Intrum um innheimtu á smápeningum á borð við þetta, þá stefnir bankinn viðskiptavinum sínum án formála. Meira að segja MasterCard hringir á undan sér. Ég þarf víst ekki fleiri ástæður til að skipta um banka. Eftir tíu ár af gagnkvæmu trausti og skilningi, síðan í september 1997, má virðulegur Íslandsbanki > Íslandsbanki FBA > Íslandsbanki > Glitnir nú loksins eiga sig. Héraðsdómur fær peningana en bankinn fær sparkið.