Mótmælum mótmælt

Mér er óskiljanlegt hvers vegna fólk er að mótmæla mótmælum, hvort heldur það er vegna fjöldamorða á Afgönum, Írökum, Tíbetum eða barsmíðum á ljósálfum í Saving Iceland svo ekki sé minnst á róttækar aðgerðir vörubílstjóra. Ef beinskeyttar aðgerðir er það sem þarf þá er það ekkert flóknara. Miðað við hvernig stjórnvöldum er tamt að bregðast við hvers kyns mótmælum má það vera alveg ljóst að hin hefðbundnu íslensku mótmæli duga einfaldlega ekki lengur, og já, ef það er það sem þarf, þá ber almenningi að „kúga“ stjórnvöld til að fá sínu framgengt – hvor kaus enda hvern til að fara með stjórn í þessu landi? Menn geta svo verið sammála eða ósammála málstaðnum, en eftir sem áður er það lítilsvirðing við réttinn til að mótmæla og gengisfelling á lýðræðishefðinni að vera fúll á móti þegar fólk lætur í sér heyra. Verstir þykja mér frjálshyggjuguttarnir sem leggja skatta og mótmæli að jöfnu við ofbeldi. Sitthvað er nú ofbeldið. Ef fólk vill hvorki búa í samfélagi eða við lýðræði getur það bara farið eitthvert annað. Zimbabwe, til dæmis.

Eftir miðnætti á mánudegi

Núna hefst geðveikin fyrir alvöru. Ég drekk ekki á meðan né geri nokkuð annað en rykfalla inni á bókasöfnum meðan hárið og „skeggið“ vex utan á mér. Ef ég verð ennþá til frásagnar í maí, þegar allt er búið, má gera ráð fyrir að ég detti það harkalega íða að ég muni ekki næsta hálfa ár á undan. Mér skilst þeir hafi það svipað á Vogi, enda er stutt bil milli náms- og vistmannsins …

Heyrt á bókasafni

Eldri kona: Af hverju skrifar hann svona langar bækur?
Bókavörður: Hver?
Eldri kona: Haraldur Bessason.
Bókavörður: Æi, þú veist. Svona náttúrulýsingar og …
Eldri kona: Ooh, jæa. Er hann ennþá á lífi heldurðu?
Bókavörður: Hver?
Eldri kona: Haraldur Bessason.
Bókavörður: Ja, nú ve …
Eldri kona: Æ, hann er sjálfsagt einhversstaðar þarna á mörkunum.
Bókavörður: Tja.
Eldri kona: Líður þér ekki annars miklu betur hérna núna eftir að fleiri karlmenn fóru að vinna á safninu og þú ert ekki svona mikið eins og arabahöfðingi?

Drasl

Stundum hef ég velt fyrir mér hvaðan líkingin sé dregin þegar dritað er úr vélbyssum yfir fólk. Í það minnsta getur hinn almenni borgari þakkað fyrir að fiðurfénaður getur ekki dritað yfir það eins og úr vélbyssu.

Loksins lét ég verða af því að fá mér USB-lykil í BT og afrita mikilvægustu gögnin mín á hann. Það tók mig nokkurn tíma að fatta að það var systir hans Jóns sem afgreiddi mig, enda lítur fólk öðruvísi út bakvið afgreiðsluborð en í raunveruleikanum (vinnustaðir heyra ekki undir raunveruleika).

Annars er allt við sama heygarðshornið. Bloggið verður víst bara að vera álíka leiðinlegt og óritskoðaði hluti hversdagslífsins á meðan.

Fólki haldið uppi á ókeypis lesefni

Fyrirsegjanlegustu bloggtíðindi ársins: Ágúst Borgþór er kominn á Eyjuna. Minna mætti það ekki vera.

Í öðrum fréttum: Allt sem gerist kringum mig þessa dagana er of steikt til að tala um, þannig að ég ætla ekki að tala um það. Það litla jákvæða er síðan of persónulegt til að tala um. Það verður sjálfsagt lítil breyting þar um á næstunni.

Annars er í dag aldarafmæli afa míns heitins Arngríms. Hann lést sama ár og ég fékk köttinn minn, þó ekki væri nema fyrir það reyndist mér auðvelt að telja árin. Það var einnig sama ár og ég las mína fyrstu bók ótilneyddur. Hana fékk ég keypta í Eymundsson í Austurstræti og þurfti að hafa nokkuð fyrir því. Mér var þá og er enn óskiljanlegt þetta hik í foreldrum mínum þegar ég bað sjálfur um þá bók sem ég vildi lesa (pabbi keypti fyrst Bláskjá í staðinn en hana vildi ég hvorki sjá né heyra af).

Áður en ég fékk bókina minnist ég þess að hafa setið á rúmstokkinum hjá afa mínum og lesið fyrir hann úr lestrarkverinu Má ég lesa? Hann var orðinn afar máttfarinn en hann bað mig þó samt að hætta ekki að lesa, og svo fór að lokum að ég kláraði bókina fyrir hann. Það var síðasta skiptið sem ég sá hann, í miðjum jólaundirbúningnum. Allt var þetta svo erfitt að skilja þá, og fjarvera afa varð áberandi einkenni jólanna í mörg ár á eftir. Jólasveinninn hvarf mér þetta sama ár.

Það er eftir afa sem ég heiti Arngrímur Vídalín, og allt frá því ég var lítill fannst mér mikil ábyrgð í að bera nafnið hans. Það hefur stundum reynst vont að geta ekki leitað til hans, og þótt mér sé lítið um væmni gefið þá upplifi ég stundir þar sem ég velti fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið öðruvísi ef hans hefði notið við lengur. Það er við hæfi í dag að velta því fyrir sér. Aðra daga leyfi ég mér ekki að trega ímyndaða nútíð sem aldrei varð.

Ég missi jafnan trú á mannskepnuna

Þeir sem fárast yfir bingóspili á föstudeginum langa hljóta að vera alvarlega veikir í sinninu. Það kemur ríkisvaldinu ekki við hvað fólk gerir í frítíma sínum svo lengi sem það skaðar engan. Og þaðan af síður kemur það kirkjunni við, fremur en skattstjóranum eða öðrum stofnunum ríkisins, hvort fólk spili bingó eða ekki. Hvað þætti nú fólkinu ef bannað yrði að „drýgja hór“ á þessum degi, að bannað yrði að lesa nokkuð annað en nýja testamentið, að bannað væri að horfa á sjónvarpið? Hverjum kemur það við?

Lög eru sett til að þjóna hagsmunum fólksins, þegar lög eru hætt að gera það eru þau afnumin. Ef skemmtanabann á föstudeginum langa væri vilji fólksins, þá myndu ekki allir skemmtistaðir, barir, næturklúbbar, súlustaðir og hóruhús opna á slaginu tólf og troðfyllast á „mesta djammdegi ársins“. Okkur sem er sama hver var krossfestur ætti að vera í sjálfsvald sett hvernig við eyðum lögbundnum frídögum okkar, en á meðan fólk fárast mest yfir bingóspili af öllu því sem gerist sérhvern langan föstudag, þá sé ég fátt annað en skynsemina á krossinum, reiðubúna til að deyja fyrir firringu mannskepnunnar.