

















Frábær Truflun vefur
Við hjónin ræðum stundum ríkidæmi okkar, að eiga þessi yndælu börn okkar, hvort annað, fjölskyldur okkar og vini – það er algjörlega ómetanlegt! Nauðsynlegt að hafa smá væmni með öllum þessum jólasnjó hérna úti.
Á þriðjudegi bökuðum við piparkökur, bæði engiferkökur og kökur til að mála, svo allt yrði nú tilbúið fyrir miðvikudaginn.
Því á miðvikudegi komu 4 vinir krakkanna hingað eftir skóla og hér var skellt upp verkstæði jólasveinsins, yfir 200 piparkökur skreyttar, föndrað, leikið og pizzur etnar – allt með jólalög í bakgrunni. Yndislegur dagur!
Á fimmtudegi var dúllað og dundað að venju, föndrað fyrir skólaverkefni þeirrar sveimhuga og leikið.
Á föstudegi vöknuðum við í óvanalegri birtu – hér var alhvít jörð! Um 10 sm snjór og það snjóaði meiripart dagsins. Eftir skóla fóru krakkar út í brekku og þaðan aftur niður í skóla þar sem var lestrareftirmiðdagur og föndur.
Á laugardagsmorgni var gerður myndarstafli af pönnsum, krakkar fóru út að renna í tæpa 3 klukkutíma! Eftir hádegið keyrðum við niður til Mössingen þar sem íslensk/þýsk/ameríska fjölskyldan hafði boðið okkur til Þakkargjörðar. Áttum við þar yndislegan seinnipart og kvöld í faðmi góðra vina.
Á sunnudegi var ekið austur til Ulm að heimsækja kæra vini, var dagurinn þar ekki síðri þar sem var etið, spilað, jólamarkaður heimsóttur, börnin út að leika og etið og spilað svolítið meira.
Unaðsleg helgi í faðmi vina og fjölskyldu að baki – enn snjóar og samkvæmt spánni verður ekkert lát á því næstu tvær vikurnar.
Á mánudagsmorgni var sú snögga sótt úr skólanum hálf sloj – líklegast bara þreyta sem þjakar hana – svefn var það eina sem ekki var nóg af nýliðna helgi!
Njótið aðventunnar kæru vinir og fjölskylda – það ætlum við að gera hér, þó við teljum dagana í heimflutning í leiðinni.
Þá er enn kominn mánudagur, bloggið hætt að birtast á sunnudögum í bili, einhver ægileg sunnudagskvöldsleti í gangi! Jamm.
Á þriðjudegi var sú sveimhuga í leikfimi og sú snögga hjá vinkonu sinni. Þeim skapmikla leiddist ekki að fá að dúllast einn með mömmu sinni í smá stund. Um kvöldið tókst hjónunum að gleyma því að þeim hafði verið boðið að koma á kóræfingu, annað hvort saman eða annað þeirra.
Á miðvikudegi mundum við eftir æfingunni. Heimalærdómur þeirrar sveimhuga var föndur, svo hér var föndrað fram eftir degi. Foreldrafundur vegna þeirrar snöggu var um hádegið svo hún passaði bróður sinn á meðan henni var hrósað í hástert í skólanum, er ein af þeim betri í bekknum í þýsku! (Á mánudeginum hafði verið foreldrafundur hjá þeirri sveimhuga þar sem hún fékk líka mikið hrós fyrir stórkostlegar framfarir í þýsku).
Á fimmtudegi skrapp sá skapmikli til vinar síns og kvenpeningurinn föndraði svolítið meira, bóndinn var á ráðstefnu og kom ekki heim fyrr en eftir kvöldmat.
Á föstudegi fórum við í smá hjólatúr, stelpurnar á nýju og ekki svo nýju hjóli sem gáfust vel. Sá skapmikli vildi samt drífa sig heim áður en nóttin kæmi, svo við rötuðum örugglega. Bóndinn kom heim fyrir kvöldmat en var sendur út aftur til að taka þátt í hátíðarkvöldverði ráðstefnunnar.
Á laugardegi var bóndinn áfram að ráðstefnast, en frúin dreif sig með börnin í fylgd bekkjarkennara þeirrar sveimhuga (sem er líka stærðfræðikennari þeirrar snöggu), móður og dóttur hennar, á markað í Buttenhausen. Það er þorp sem er mikið til þjónustuþorp fyrir aldraða og hreifihamlaða og þar selja heimamenn afurðir sínar fyrir jólin ár hvert. Var þetta ákaflega skemmtileg ferð í Schwebísku Albana. Bíllinn var að vísu með smá stæla.
Á sunnudegi kom fyrrverandi nágranninn með fjölskylduna í hádegissnarl og gönguferð í rigningunni um miðborgina og kastalann. Skúffuköku og vöfflum var sporðrennt eftir göngutúrinn og Þorláksmessa plönuð. Um kvöldið tóku hjónin forskot á jólasæluna og horfðu á „White Christmas“ til að koma sér í gírinn!
Á mánudagsmorgni var slydda sem breyttist í smá snjókomu, nóg til að gera grá/hvíta föl á allt annað en malbikið – svona í tilefni myndar sunnudagskvöldsins! Spáð er slyddu/snjókomu næstu tvær vikurnar í það minnsta. Krakkarnir bíða spennt eftir að það frysti svo snjóinn festi og hægt verði að fara út að renna!
Bíllinn fer í viðgerð – já, einu sinni enn, í næstu viku. Hann hefur aldeilis séð fyrir því að ekki er mikið lagt fyrir á þessum bæ þetta árið!
Enn ein vikan þotin hjá.
Mánudagur eins og vanalega með íþróttaskammti og sofandi skapmiklum dreng þegar ekið var frá íþróttasvæði stelpnanna seinnipartinn.
Á þriðjudegi var dundast í jólakortagerð eftir skóla.
Á miðvikudegi var ljóskerjaganga hjá þeim skapmikla, kennararnir byrjuðu á því að sýna stuttan leikþátt og svo var gengið í gegnum skóginn og sungnar Marteins vísur. Af þessu tilefni var fyrsta jólaskrautið tekið upp, sem er útskorið englaspil (án engla) en með krökkum í ljóskerjagöngu. Heim var komið seint og um síðir.
Á fimmtudegi fór sá skapmikli í heimsókn til vinar síns en systur fengu að horfa á mynd í friði á meðan.
Á föstudegi var reiðtími eftir skóla, sú sveimhuga lenti í ævintýri – hún missti hrossið svo hrikalega undan sér þegar hún átti að fara á brokk. Hann hálf prjónaði og rauk á stökki yfir þvera reiðhöllina, stelpan hékk á baki, datt samt úr ístöðum en náði að ríghalda í taumana og hrossið stoppaði svo í hinum endanum! Hún var nokkuð slegin en kláraði þó tímann á baki. Er þá reiðtímum hérlendis lokið.
Á laugardegi skrapp frúin í verslunarferð fyrir hádegið og í sænskan samsöng seinni partinn. Þar voru sungin lög Bellmans í útsetningu ensks stjórnanda – hríðlækkaði meðalaldur söngvara við innkomu frúarinnar! En ákaflega var þetta skemmtileg stund.
Á sunnudegi komu góðir gestir í kaffi, ný fjölskylda í borginni – sonur þeirra er á deild með þeim skapmikla. Faðirinn er Ítali en móðirin sænsk/þýsk. Áttum við ákaflega góðar stundir og sýndum þeim sleðabrekkuna og bóndabæinn. Um kvöldið skrapp frúin til fyrrverandi nágrannans og sótti hjól sem hún hafði keypt fyrir þá sveimhuga. Sátu þær stöllur úti á palli á peysunum fram yfir miðnætti! Hugsanlega verður keypt annað hjól fyrir þá snöggu.
Á mánudegi var leikfimi og íþróttir auk foreldrafundar hjá þeirri sveimhuga, kennaranum finnst leitt að við flytjum aftur heim þar sem stúlkan er að ná svo góðum tökum á tungumálinu.
Á þriðjudegi skrapp frúin með börnin og ameríska vinkonu til Sinsheim en þar er bíla og tækjasafn eitt mikið og merkilegt. Voru þar til sýnis alls konar farartæki, fyrir loft og láð – á friðartímum og stríðs. Þótti öllum mikið til koma, hægt var að fara inn í margar flugvélar, þar á meðal Concord – bæði franska og rússneska!
Á miðvikudegi var mikil verslunarferð í íþróttavörubúð – krakkarnir græjuð upp til næstu mánaða. Frúin fór svo um kvöldið og keypti kassa og annað sem til þarf vegna flutninga og byrjaði að pakka – 5 kassar eru frágengnir, ekki verður upplýst hvað eigi eftir að pakka niður í marga til viðbótar!
Á fimmtudegi fórum við í bæinn, keyptum jólagjafir, pappír fyrir kortagerð og fórum á leikvöll uppi á Österberg.
Á föstudegi var lagt af stað í ferðalag, Kehl var fyrsti áfangastaðurinn, en það er systraborg Strasbourg – Þýskalands megin við Rín, vestan við Svartaskóg. Gistum við þar á farfuglaheimili.
Á laugardegi ókum við yfir brúna til Frakklands, fórum í síkjasiglingu í Strasbourg – það var ein besta síkjasigling sem við höfum prófað. Mjög skemmtileg og fróðleg ferð. Við gengum um miðborgina og ókum svo aðeins um sveitir Elsass héraðs þar sem flestar borgirnar heita þýskum nöfnum.
Á sunnudegi ókum við aftur yfir til Strasbourg, fórum í Evrópuhverfið og stoppuðum við Evrópuráðið, keyrðum þaðan í suður í Hunawir (Húnaver) þar sem við kíktum í lítinn en frábæran dýragarð. Þar voru otrar sem þurftu að veiða sér til matar (fengu lifandi fiska í vatnið hjá sér) og einhverjar bjórrottur sem voru ákaflega sprækar. Þaðan keyrðum við að minningarreit um Maginot línuna og svo heim. Um kvöldið vorum við boðin í mat til Ameríkananna í nr. 11.
Á mánudegi fór lífið aftur í sínar venjulegu skorður, en þegar sá skapmikli var sóttur stóðu yfir björgunaraðgerðir við leikskólann, ein móðir og einn faðir voru að bjarga eldsalamöndrum úr sjálfheldu við kjallarainngang. Sex stykkjum var bjargað í nestisbox og sleppt út í skóg.
Þá eru víst bara 8 vikur eftir hér í landi!
Og enn geysist tíminn áfram.
Mánudagur var eins og þeir eru vanalega, skóli, leikskóli og íþróttir.
Á þriðjudegi voru íþróttir hjá þeirri sveimhuga, annars bara dund heimavið og búðarferð í búðina sem auglýsir „einmal hin, alles drin“ og þeirri sveimhuga fannst það algjörlega vera slagorð sem væri vel við hæfi.
Á miðvikudegi áttum við von á vinkonu í heimsókn, en hún veiktist og kom ekki, við fórum því í staðin í göngu-/hlaupahjólatúr í fallega haustveðrinu upp að bóndabæ og borðuðum grasker með kjúklingnum.
Á fimmtudegi var síðasti skóladagurinn fyrir haustfrí og systurnar áttuðu sig á því hversu stutt það er þangað til við flytjum. Sú sveimhuga var með miða þar sem á standa dagsetningar fyrir sund þennan veturinn og ég benti henni á að hún eigi bara eftir að mæta þrisvar í skólasund! Það var eiginlega örlítið áfall en um leið mjög spennandi. Sú snögga sagði að hún hlakkaði mikið til að flytja heim, en hún yrði örugglega mjög feimin í skólanum. Hún hlakkar mest til að hitta einn vin af leikskólanum. Sá skapmikli var leiður yfir að hitta ekki besta vininn í marga daga.
Á föstudegi fórum við í svolitlar útréttingar og út að borða í hádeginu í IKEA. Sú sveimhuga fór í reiðtíma og gekk vel án þess að vera teymd og á eftir fór fjölskyldan í sund.
Á laugardegi skruppum við til Maulbronn, þar er klaustur sem er á heimsminjaskrá UNESCO – klaustrið starfaði frá því fyrir 1200 í tæp 400 ár og sem mótmælendaskóli síðan – og enn í dag. Skemmtilegt var að skoða þetta svæði. Á heimleiðinni fórum við smá rúnt til að dást að haustlitunum.
Aðfararnótt sunnudags var tímanum breytt yfir á vetrartíma, þá var hægt að fara seint að sofa og sofa út en vakna samt snemma! Eftir hádegið fórum við á skauta og vorum svo boðin í partý um kvöldið – þegar við mættum þangað kom í ljós að tilefnið var afmæli húsfreyjunnar og að krakkarnir voru að fara út í betligöngu, uppáklædd! Okkar börnum var bjargað með andlitsmálningu og fengu þau yfrið nóg af góðgæti.
Á mánudegi var slakað á fyrripartinn – frúin hálf slöpp vegna magakveisu um nóttina. En þegar fór að dimma fórum við með þýskum vinum í kirkjugarð í nágrenninu og gengum þar í rökkrinu, en kaþólikkar skreyta leiði með ljósum á Allra-heilagra-messu (sem er almennur frídagur hér). Þau komu svo í mat til okkar.
Vorum við hjónin einmitt að ræða um daginn hvað þýska orðið yfir kirkjugarð sé fallegt „Friedhof“ (friðargarður) – á eitthvað svo miklu betur við en kirkjugarður, þar sem þessir garðar eru í dag yfirleitt ekki nálægt neinum kirkjum og þar liggur fólk sem á stundum tilheyra þeim ekki heldur.