Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2006

Jól

Möndlugrauturinn er í pottinum, við erum búin að fara pakkarúnt og í kirkjugarðinn og allt er að verða klárt. Ég slapp naumlega við að vera étin af jólakettinum, jólafötunum var reddað á Þorláksmessukvöldi. Ég er búin að hitta marga sem mér þykir vænt um undanfarið og suma sem ég hef ekki hitt mjög lengi. Góð tilfinning. Jólin mega semsagt koma núna, líka eins gott því þau koma víst á eftir sama hvað ég segi. Ég er að minnsta kosti komin með jól í hjarta og skiptir það ekki mestu máli? 🙂

Líði ykkur öllum sem best og gleðileg jól!

Ljúfa líf

Tveir heilir lærdómslausir dagar liðnir. Ég er samt ekki enn búin að ná því að ég þurfi ekki að læra og fæ reglulega ósjálfrátt samviskubit. En það hverfur fljótt. Ég er meira að segja búin að fá einkunn fyrir þessa mestu geðveiki sem ég hef upplifað og er mjög sátt!

Á föstudaginn borðuðum við Daði auðvitað afmælismatinn hans.. mmm… ég er enn að hugsa um þennan mat. Fullkomin nautalund á Argentínu, gerist ekki betra. Sleeeeeeeeef! Mér finnst að Daði ætti að eiga afmæli oftar. Og halda alltaf svona upp á það. Á gær yfirgaf ég svo Reykjavík, jólafríið verður svona meira alvöru þegar maður er kominn heim. Mottóið mitt sívinsæla „ég verð að geta borið allt dótið út í bíl í einni ferð“ virkaði ekki alveg. Þurfti nefnilega að flytja allar jólagjafirnar á Skagann. Fyrir utan minn venjulega farangur sem er ekkert lítill. Mér tókst að troða þessu í þrjár ferðir en ég vona samt að sem fæstir hafi séð mig á meðan á þessu stóð, þetta hefði kannski passað betur í fimm ferðir. Að minnsta kosti. Og við skulum hafa í huga að ég bý á þriðju hæð og nota ekki lyftur.
En þetta tókst og ég er komin heim. Bærinn er alltaf búinn að breytast svo mikið í hvert skipti sem ég kem, þó það líði oft bara ein vika… ég þakka bara fyrir að rata heim. Á meðan ég er búin að vera í prófalestri er til dæmis búið að opna BT, Krónuna og Subway hérna. Suss… orðið algjört Reykjavíkurúthverfi.

Ég er farin… að halda áfram að ekki-læra. Munið að vera stillt, þá fáið þið kannski pakka.

Á miðjum prófalestri…

Ég er alltaf að læra betur og betur hvað maður getur dæmt fólk vitlaust ef maður þekkir það ekki. Dregið rangar ályktanir. Sem er kannski allt í lagi ef maður heldur þeim bara fyrir sig.
Held að þetta sé eitthvað sem allir hafa gott af því að hugsa út í…
Það eru 4 dagar í frí!

Eftir eina viku…

… verð ég komin í frí frá skólanum í heilan mánuð. Það verður frekar ljúft að geta lagst með tærnar upp í loft. Maður verður samt að passa að vera ekki þannig of lengi því þá rennur allt blóðið niður í haus. Ekki gott mál.

Ég er með lista af skemmtilegum hlutum til að gera eftir þessa einu viku. Langefst er að eyða tíma með fjölskyldunni minni og afburða skemmtilegu vinum mínum. Prinsinn í fjölskyldunni er líka að verða eins árs 19. desember, sem er reyndar skrýtið því það getur engan veginn verið ár síðan hann fæddist. Daginn eftir á Daði afmæli en ég ætla að borða afmælismat með honum strax daginn sem prófin klárast. Hann fær semsagt í afmælisgjöf að borða með mér, enda er ég einstaklega skemmtilegur borðfélagi, læt öðrum líða eins og þeir borði svo lítið. Það á samt kannski ekki við í þessu tilfelli, Daði er voða duglegur að borða 😉
Svo er það auðvitað allt jólastússið, einhvers staðar þarf ég að ræna jólapappírslager til að geta pakkað inn öllum þessum gjöfum sem eru hægt og rólega að fylla íbúðina mína. Á næsta ári ætti ég kannski að reyna að kaupa bara litlar jólagjafir, gefa öllum bara leikhúsmiða eða eyrnalokka, þið megið velja hvort þið viljið. Ein jólapappírsrúlla ætti að duga, kannski tvær. Ég þakka hér með sjálfri mér fyrir það að hafa ekki dottið í hug að búa til jólagjafir fyrir þessi jól. Á fyrra var ég að sauma alla Þorláksmessu og langt fram á nótt. Svo er ég líka búin að ráða mér jólakortaskrifara. Verst að hann er bara ímyndun mín svo það stendur ekkert á kortunum. Ég þarf víst að gera þetta allt sjálf.

Jólauppgötvun…

Ég byrjaði fáránlega snemma að kaupa jólagjafirnar í ár, sá fram á að vera búin að þessu öllu áður en desember kæmi. Fannst ég allavega vera búin með mjög mikið. Ég ákvað að gerast skipulögð áðan og skrifa niður stöðuna á þessu og þá kom í ljós að ég er bara búin að kaupa 9 jólagjafir af 23. Það er ekki einu sinni helmingur. Reyndar er ég svo búin að kaupa þrjár hálfar gjafir en það telst varla með. Svo á ég eftir að skrifa og senda jólakort til Ástralíu, Burundi og Ecuador og fresturinn væntanlega að renna út. Uppgötvun mín er semsagt að ég er eiginlega bara sein í jólaundirbúningi þrátt fyrir allt. Piff.

Merkilegur dagur í dag…..

… því Guðrún mín á afmæli. Hún er búin að vera vinkona mín síðan ég man eftir mér og mun auðvitað alltaf verða það. Enda er hún frábær manneskja og algjör hetja… til hamingju Gudda mín og njóttu kvöldsins 🙂
Þessi mynd af okkur var valin úr svona hundrað myndum sem kom til greina að setja hingað en sumar myndir af okkur eiga einfaldlega ekki heima á netinu og þarna erum við svo ungar og saklausar. Erum uppi í Akrafjalli að renna. Sumir þorðu reyndar eiginlega ekkert að renna sér, þetta er svo rosalegt fjall maður. Við erum með eins húfur þarna eins og glöggir lesendur sjá og þeir sem eru ekki litblindir sjá líka að þær eru reyndar í sitthvorum litnum. Við áttum eiginlega alltaf einhver eins föt, erum nefnilega með svo góðan smekk 😉
snjothoturb.jpg