Og svo var allt í einu kominn janúar…

Ég sem ætlaði að plana eitthvað rosalegt fyrir afmælið mitt, nú hef ég allt í einu bara tuttugu og fimm daga til þess. Sjáum til hvort ég nenni að gera eitthvað, ég er svo gömul.

Jólin eru búin að vera frábær. Ég er reyndar voðalega lítið búin að ná að lesa, það er alltaf svo mikið að gera. Fékk samt nokkrar girnilegar bækur í jólagjöf, þar á meðal nýju Ásland í aldanna rás bókina og Sögu jólanna. Hlakka til að ná að kíkja almennilega í þær. Ég fékk líka fáránlega mikið af jólagjöfum í heildina og er ennþá með samviskubit yfir að fólk sé að gefa mér svona mikið. Get nú samt ekki neitað að ég er mjög ánægð með þetta allt, er meira að segja byrjuð að skilja eitthvað í símanum sem ég fékk og það er stórt skref 😉

Jólin byrjuðu mjög rólega hérna þar sem við mamma og pabbi vorum bara þrjú á aðfangadagskvöld. Á jóladag fóru þau svo í kaffiboð og ég fékk Albert í stutta spilaheimsókn. Annan í jólum sóttum við Grethe til Reykjavíkur en hún kom í áramótaheimsókn til Áslands. Um kvöldið var þvílík veislumáltíð hérna og við vorum öll fjölskyldan – og Lísmundur og Grethe líka að sjálfsögðu. Daginn eftir vorum við svo bara í rólegheitum… eða eins miklum rólegheitum og geta verið þegar fjögur börn sem eru 4 ára og yngri eru á einum stað 😉 Óli Gneisti kom við á leiðinni frá Akureyri og við spiluðum og horfðum á eðalkvikmynd með ótrúlega fallegum, grænum aðalleikara 😉 Ég skrópaði svo á spilakvöldi Rannsóknafólksins heima hjá honum daginn eftir þar sem ég nennti ekki alveg þessum endalausu Reykjavíkurferðum. Á staðinn hitti ég Óla (Óla Helga, Óla #1) sem var að sjálfsögðu ekki verra. Daginn eftir fór ég einmitt til Reykjavíkur, hitti Öddu og co og Daða. Á laugardeginum hitti ég konu sem verður væntanlega meðleiðbeinandi með Terry í Mastersverkefninu mínu. Skrýtið að þurfa allt í einu að hætta að hugsa um ekki neitt og fara að spá í skólann aftur. Um áramótin vorum við svo öll fjölskyldan og Grethe heima hjá Kristjáni og Hildi. Borðuðum þvílíkt góðan mat, fórum í blysför, á brennu og horfðum svo á alla flugeldana. Ég get varla dæmt skaupið því börnin á svæðinu voru orðin frekar þreytt og þar af leiðandi missti maður af ýmsum atriðum 😉 Fannst að minnsta kosti mjög fyndið þegar Gísli á Uppsölum gekk aftur með sjónvarpið.

Hér er semsagt kominn jólapistill en ég ætla að láta vera að skrifa sérstaka upprifjun á þessu ári. Venjulega er þetta blogg bara staður fyrir örfá sýnishorn úr lífi mínu þó þessi nákvæma jólalýsing sé væntanlega undantekning 😉 en ég ætla áfram að eiga heildina fyrir sjálfa mig. Pistill um árið myndi þar af leiðandi innihalda frekar fátt, kannski bara BA gráðu og upphaf MA náms, helstu „opinberu“ atburðirnir held ég. Ég er hins vegar búin að kynnast ótrúlega mörgu fólki á þessu ári, bæði í sumarvinnunni minni og í skólanum… sem er frábært en breytir því samt auðvitað ekki að ég þekkti margt frábært fólk fyrir sem ég þekki enn 😉 Búin að læra margt nýtt og líka farin að skilja sumt betur sem ég hef lært fyrir löngu.
Ég vona að árið 2007 verði sem best fyrir ykkur öll… þó ég kunni nú alltaf betur við ártöl sem enda á sléttum tölum 😉 Ekkert óeðlilegt við það… eða hvað?

Hér skála Heiður Dís og Katrín fyrir nýju ári… Skál!

skal.jpg