Útför

Þá er Berti frændi dáinn, jarðarförin var í dag. Ég minnist þess aðeins að hafa hitt hann einu sinni en þá var ég á sjöunda ári. Þá gaf hann mér ópal og var voða góður við mig, svona eins og afar myndu gera. Þá þegar hélt ég að hann væri orðinn fjörgamall.

Sálmaskráin leiddi hins vegar í ljós að Berti var aðeins sextíu og fjögurra ára þegar hann dó. Það lyktar af einhverri ósanngirni. Og enn blossar krabbamein upp annarsstaðar í fjölskyldunni. Við því er miður lítið hægt að segja, aðeins vona.

Orð dagsins

Er rosmhvalur, í tilefni af þessari frétt.
Forliðurinn rosm á sér hliðstæður bæði í nýnorsku (rossmal/rossmar) og gamalli dönsku (rosmer), og rekur ættir aftur til fornháþýska orðsins ros(a)mo, sem merkir ‘rauður eða rauðbrúnn litur’ samkvæmt Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal, og vísar því til litar rostungsins.
Forliðurinn rost í því orði er kominn úr norsku og ber svipaða merkingu og rosm. Orðið er skylt fornháþýska orðinu rost, eða ‘ryð’, og er ekki notað lengur. Líklega þekkja lesendur best enska samsvörun orðsins, rust, sem einnig merkir ‘ryð’.

Á Árnastofnun

Ég ákvað að prófa lesaðstöðu Árnastofnunar, þó ef til vill í helst til sakleysislegum erindagjörðum:

Áttu hér eintak af Snorra-Eddu? Tjaá, hér er allavega eitthvað, svaraði bókavörðurinn og rétti fram velmeðfarna bók bundna í skinn.

Ég sest inn á lessal og opna bókina: „Snorra-Edda ásamt Skáldu og þarmeð fylgjandi ritgjörðum eftir gömlum skinnbókum. Útgefin af R. Kr. Rask, prófessor og öðrum bókavörð Kaupmannahafnar Háskóla, Stockhólmi 1818. Prentuð í hinni Elménsku prentsmiðju.“

Hér er ekki skafið ofanaf hlutunum. Ef ég bæði um Trektarbók, ætli mér yrði afhent svona eitthvað innanúr skotheldum glerskáp?

Hér er annars gott að vera og allir afar notalegir við mig.

Býsnast yfir barnlendingi

Manneskja sem nefnir sig Mengellu skrifar heillanga ritgerð um hversu hörundsár Eyvindur Karlsson hafi verið á spjalli á Barnalandinu, vef sem gengur hvað síst út á börn en þeim mun heldur brandara um fósturlát og sifjaspell ef marka má hana. Það er í samræmi við það sem ég hef heyrt um þann vef.

Undir lok pistilsins lýsir Mengella því yfir að Eyvindur hafi svo fyrirgert virðingu hennar að hún hafi ákveðið að flokka hann með húmorsleysingjum á borð við Ágúst Borgþór og sjálfan mig. Það fannst mér að vísu nokkuð fyndið, en á hinn bóginn fæ ég ekki séð að ég tengist þessari umræðu. Ég þekki hvorki Ágúst né Eyvind, hef aldrei á Barnaland komið og þaðanaf síður get ég ímyndað mér að ég þekki nokkuð til þessarar Mengellu.

Einhverjum nafnleysingja úti í bæ er sumsé í nöp við mig. Ég er enn ekki búinn að gera upp við mig hvort ég gráti mig í svefn. En meðan hún þorir ekki að gangast við eigin köpuryrðum er fráleitt mark á henni takandi.

Ef ekki of seint, þá …

Í gærkvöldi brugðu íslenskunemar sér í Reykjavíkurakademíuna. Þar var mikið stuð eins og vænta mátti og eftir því erfitt að vakna klukkan níu í morgun. Kaffi og skyr varð ofaná fremur en skyr og kaffi í fjölbreyttu úrvali mögulegra morgunverða á heimili mínu í Vesturbænum.

Þar sem gæði strætósamgangna þaðan standa í öfugu hlutfalli við vegalengd á laugardögum var ég genginn þvert yfir Nýlendugötu út í strætóskýli kortér yfir tíu. Svona í framhjáhlaupi má taka fram að mér finnst Nýlendugatan sérstaklega skemmtileg; hún minnir svo skammarlaust á að eitt sinn var Reykjavík ekki nema sjávarþorp. Mér finnst sjávarþorp frábær. Hvað um það, vagninn lét ekki á sér kræla fyrr en kortér í ellefu.

Um hálftólf er ég búinn að læðast framhjá ógnvænlegum gæsunum, kominn inn á bókasafn, búinn að laga mér kaffi, kveikja á öllum tölvum o.s.frv. þegar ég spyr mig hvort svo fari mögulega sem horfi að ég neyðist til að opna safnið upp á eigin spýtur. Með öðrum orðum: Hvar er stórskotaliðið? Nújæa, fyrir örskotsstundu hætti mér að lítast á blikuna og var í þann veginn að hrynda upp dyrunum, þegar ég uppgötvaði í mæðu minni að safnið opnar fjandakornið alls ekki á hádegi, heldur klukkustund þareftir.

Fjandans auli getur maður verið. Nú er ég búinn að slokra í mig öllu því kaffi sem ég get drukkið, búinn að blaða í öllum blöðum svo og ársskýrslu safnsins og hef bókstaflega ekkert að gera. Ég er þó Í ÞAÐ MINNSTA búinn að ganga frá öllu nauðsynlegu, og það ríflega tímanlega … Ætli maður gluggi ekki bara í bók?

Ýmiss konar tilbeiðsla

Sú mikla bifreið föður míns er nýkomin úr viðgerð en er alveg jafn biluð og fyrri daginn. Líklega var ég bara heppinn að komast ferða minna í gær, en í dag var ég ekki svo heppinn og mætti alltof seint í goðafræðina.

Goðafræðin er annars áhugaverðasti kúrsinn, þótt ef til vill sé hann lúmskt erfiður. En það kemur allt í ljós. Annars konar goðafræði var í fullum gangi á kaffistofunni í kjallaranum. Þar óðu guðfræðinemar uppi og hempuklæddir menn ræddust við á ítölsku. Ég grínast ekki. Hvers vegna guðfræðiskor vill endilega starfrækja kapellu í Háskólanum mun ég aldrei skilja. Ég ætti kannski að krefjast þess fyrir hönd íslenskuskors að við fáum langeld og fórnaraltari í kjallara Árnagarðs, okkar eigið eldhús og kaffistofu. Bókmenntafræðin gæti þá fengið tilbeiðsluherbergi með Derridagínu til að rúnka. Herbergið gæti heitið „Póstmódernisminn“ og menn gætu þá dundað sér við að finna leiðina út aftur. Nei, þetta er fíflaleg umræða.

Alls ótengt heilagleikanum í kjallara Aðalbyggingarinnar þætti mér ágætt ef ég þyrfti aldrei að sækja tíma þangað aftur. Ef hægt væri að koma því við að ég sæti alla mína kúrsa í Árnagarði eftirleiðis yrði ég sérdeilis kátur. Það varðar þá helst óþægilegan strúktúr byggingarinnar, sem gerir það að verkum að það verður kvöð að sækja kaffið sitt. Kaffistofur beggja bygginga mynda raunar sams konar flöskuháls á álagstímum, en þá er líka munur að mæta skemmtilegu fólki eða guðfræðinemum. Jón og síra Jón, á þessu er munur. Nema veri hann Magnússon, þá er fanatíkin sú sama.