Bigfoot

Ég sá áðan að eðalmyndin Bigfoot er á dagskrá RÚV í kvöld. Ég var reyndar búin að steingleyma þessari mynd en um leið og ég las nafnið á henni rifjaðist upp fyrir mér svakaleg minning tengd henni.

Ég man að mamma var að ryksuga ganginn á Furugrundinni og ég var eitthvað ósátt (fínt orð yfir einhvers konar frekjukast) og reyndi að grenja nógu hátt til að yfirgnæfa ryksuguna. Þegar við vorum fyrir utan herbergið hennar ömmu kom Jóna Magga frænka mín sem þá bjó líka hjá okkur og sagði að hún ætlaði að bjóða mér í bíó daginn eftir. Ég man ennþá hvað ég snarþagnaði enda ekkert smá að vera boðin í bíó. Kannski betra að minnast á að þetta var árið 1987, svo fólk haldi ekki að ég elti mömmu grenjandi þegar hún reynir að ryksuga. Jóna Magga sagði að ég gæti kannski orðið hrædd þar sem þetta væri um rosalega stóra, loðna veru sem héti Bigfoot eða Stórfótur 😉 En ég þyrfti þess nú ekki því þetta væri bara búið til. Ég man eftir tilhlökkuninni í kringum þetta og ég man eftir einu atriði úr myndinni, í minningunni er það þegar Bigfoot rennur niður á framrúðu á bíl – þá brá mér svakalega og ég man að stundum bjóst ég hálfpartinn við svona risastórum loðnum haus á framrúðunni á bílnum okkar.

Er hér með farin að slappa af yfir Bigfoot og athuga hvort atriðið komi 😉