María Sigrún

 

Fyrir rúmum 12 árum var ég svo heppin að kynnast þremur af mínum allra bestu vinkonum þegar ég hóf nám í þjóðfræðinni. Nú er ég búin að kveðja eina þeirra, Maríu, í síðasta sinn. Það er ólýsanlega sárt að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hitta hana aftur.

 endfebfyrstimars 073

 

Sumar manneskjur eru einfaldlega þannig að maður vill helst alltaf vera í kringum þær. María var einmitt þannig að maður sótti í félagsskap hennar. Hún var heillandi og skemmtileg og ein besta fyrirmynd sem hægt var að eiga. Réttsýni og fordómaleysi var ríkjandi í öllum hennar samskiptum og blandaðist saman við skemmtilegan húmor og mikla frásagnarhæfileika. Svoleiðis kokteill getur ekki klikkað enda eru allar minningar mínar sem tengjast Maríu fyrst og fremst svo skemmtilegar að það er varla hægt annað en að brosa þegar þær eru rifjaðar upp.

 

endfebfyrstimars 079

 

Hún var gædd flottustu danshæfileikum sem sögur fara af og gat með þeim breytt misheppnuðum kvöldum og lélegum partýum í allsherjar gleði og gaman. Hún hafði áhuga á öllu sem manni mögulega datt í hug að segja henni frá og var alltaf til í að koma með þegar eitthvað stóð til. Fyrst og fremst var hún alltaf bara hún sjálf og einmitt þannig var hún svo frábær.

 

april2 038

 

Þegar við hittumst síðast um miðjan ágúst skoðuðum við íbúðir á netinu enda ég í þeirri stöðu að vanta eina slíka. Hún sá allsstaðar lausnir, hvar væri hægt að skella upp vegg eða breyta og bæta þannig að útkoman yrði sem best. Hún heillaðist að sjálfsögðu mest af íbúðinni sem var með fallegasta útsýnið og sagðist ætla að koma í heimsókn til mín þangað.

 

marsapril2006 b

 

Sem betur fer er ekki hægt að þurrka út þau áhrif sem góðar manneskjur hafa á mann og þar af leiðandi er María enn og verður alltaf ein af mínum helstu fyrirmyndum í lífinu.

 

IMG_0587

 

Árleysi alda

Það er auðvitað sígilt að gera bóka-óskalista fyrir jólin. Svona eftir að hafa grúskað í bókunum hér og þar… í gamla daga bara í bókabúðum, en núna ekki síður þegar maður skreppur út í Bónus að kaupa mjólk. Allsstaðar bækur.

Ég fer samt óvenjulega oft í bókabúðir í desember, svona til að kynnast bókunum aðeins betur í réttu umhverfi. Í bókabúðarferðunum fyrir þessi jól var ég undarlega oft farin að fletta lítilli ljóðabók. Mér finnst ekkert sérstaklega gaman að lesa ljóðabækur, er meira fyrir svona eitt og eitt ljóð sem ég rekst á af tilviljun. Kannski er þetta undantekning og kannski er þetta upphaf á ljóðagleði en Árleysi alda eftir Bjarka Karlsson hafði þetta mikla aðdráttarafl og fór þess vegna á óskalistann minn. Og hún var í fyrsta pakkanum – sjálfum aðfangadags-morguns-pakkanum.

Hún mun líka vera fyrsta bókin sem ég les árið 2014 þó ég hafi vissulega verið búin að lesa hluta af henni fyrir áramót. Ljóðin eru ekki bara vel gerð heldur oft ansi fyndin. Mér finnst sú hugmynd að nota stíl þekktra skálda til að koma sama atburðinum á framfæri aftur og aftur góð. Það er allavega orðið nokkuð ljóst eftir þennan lestur að allir eru sammála um að afi fór og náði í sykur og brauð svo enginn ætti að svelta. Árleysi alda er góð lestrar-byrjun á árinu og hér með lýkur líka færsluleysi á blogginu.

Aðventa

Sú tillaga var samþykkt einróma af sjálfri mér að framlengja aðventuna þetta árið og hófst hún í lok ágúst. Það er auðvitað alvitað að haustið er hin eina sanna árstíð og gleðin magnast svo smátt og smátt þangað til hún nær hámarki í desember. Frá ágústmánuði hef ég masterað word-skjal með jólagjafaskipulagi og nostrað við hverja einustu gjöf. Þannig er bæði fullnægt skipulagsþráhyggju minni og einbeittum vilja mínum til að gefa hverjum og einum gjöf sem ég er virkilega ánægð með.

Á umræddan jólagjafalista vantar nú einungis örfáar gjafir sem auðvelt er að finna en eitthvað verður nú að vera eftir svo gjafagleðin fái líka að njóta sín í desember. Auk þess fór ég hamförum í dagatölum þetta árið og mun ég bera ábyrgð á því að svona um það bil 24 hendur opni dagatalsglugga eða pakka á hverjum morgni þessa dagana. Sjálf á ég ekkert dagatal en bíð spennt eftir skilaboðum á hverjum morgni um niðurstöður úr annarra manna dagatölum.

Kitchbjört hefur aðeins fengið að vinna en ekkert of mikið samt, ég stunda ekki hrærivélaþrælkun yfir hátíðarnar. Skemmtilegast af öllu er auðvitað að upplifa aðventuna með einkasyninum sem var búinn að læra jólasveinana í réttri röð strax í ágúst og sannaði þar með móðerni sitt. Nú er hann mataður á hefðum hvern einasta dag svo ekkert fari nú framhjá honum í þeim efnum, jólalögin komin á hreint og byrjað að fræða hann um helstu rútínur enda hefur hann blessunarlega erft vanafestuna frá mér eins og flest annað (tja.. nema útlitið auðvitað – uuu jú samt augun og spékoppinn sko ;)).

Aðventan er draumur fyrir vanafastar og hefðasjúkar manneskjur og enn betri fyrir þá sem eru svo heppnir að eiga fróðleiksfús jólabörn.

Memory Lane

Ég er safnari í eðli mínu, það hefur líklega ekki farið framhjá neinum sem kannast eitthvað við mig (enda safna ég líka voðalega kláru fólki í kringum mig). Ég er ennþá að koma sjálfri mér á óvart á þessu sviði, ótrúlegt en satt! Söfnunaráráttan felst kannski ekki endilega í því að eiga þessi týpísku söfn af hlutum þó vissulega leynist svoleiðis inn á milli 😉 Þetta hefur frekar lýst sér í því að geta ekki gert nokkrum hlut það að enda tilveru sína í ruslinu – því það gæti alltaf verið að ég þyrfti að nota hann aftur.

Það er eitt að sanka hlutum að sér þegar maður er krakki og að passa svo upp á allt sem tengist barninu manns. En ég hef verið í áhugaverðu verkefni undanfarið. Ég uppgötvaði tímavél sem flutti mig á frekar vafasaman stað… mína eigin gelgju. Árið 2002 gerðist ég háskólastúdína, flutti til Reykjavíkur og tróð unglingsárunum inn í myndarlegan fataskáp á æskuheimilinu. Hann hefur varla verið opnaður síðan þrátt fyrir vingjarnlegar ábendingar fasteignareigendanna um að þetta pláss gæti vissulega nýst í eitthvað annað.

Ég hef undanfarin ár orðið aðeins óhræddari við ruslaskrímslið og sendi hluti bara í spennandi ævintýri á öskuhaugunum frekar en að láta þá deyja úr leiðindum inni í skáp. En mæ ó mæ. Hvað það er kjánalegt, heillandi, spennandi og skrýtið að hitta gelgju-sjálfið sitt aftur. Það var svolítið erfitt að henda storknuðum naglalökkum í fáránlegum litum, duft-glimmer-augnskuggum, pappaöskjum utan af uppáhaldsilmvatninu, veggfóðri í formi Leonardo DiCaprio, eldheitum ástarbréfum og öðru „sambærilegu“ smáræði. Það var líka skrýtið að lesa um áhyggjur sínar fyrir rúmum 10 árum og sjá hvað þær voru ómerkilegar en virtust samt hafa ætlað að láta heiminn snúast á hvolf í þeim aðstæðum sem þá voru ríkjandi!

Afraksturinn so far eru sjö troðfullir pokar af hlutum sem ætla að skreppa í ruslahaugafrí. Svo er líka til staðar lítill kassi sem inniheldur það sem sannur safnari getur bara ekki látið fara frá sér. Sumir menn og málefni, viðburðir og upplifanir eru einfaldlega þess eðlis að það getur verið gott að eiga ummerki þeirra ofan í kassa… í rituðu máli, myndum eða í formi undarlegra hluta sem í öðru samhengi hafa enga þýðingu. Mikið finnst safnaranum nú gott að eiga einmitt þennan kassa 🙂

A golden star day

Ég fékk svolitla útrás fyrir áðurnefnda Skerjagarðsnostalgíu síðustu helgi. Ég brunaði í húsmæðraorlof í alveg hálfan dag, enginn smá lúxus maður 😉 Fyrst horfði ég á Katrínu vinna nokkra fótboltaleiki í Egilshöll og fékk svo systrastund með skrí-inu mínu. Við fórum í búðir eins og dömur eiga að gera en gleymdum reyndar að hugsa um smáatriði eins og opnunartíma svo þetta varð meira að spretthlaupi í tvær búðir áður en massívum rimlahliðum var rúllað yfir okkur. Afraksturinn varð vetrarhúfa svo nú vona ég að veðurfræðingarnir hætti með þetta það-verður-gott-veður-næstu-þrjá-mánuði rugl og komi með eitthvað alvöru dæmi fyrir mig og húfuna mína.

Nú svo var komið að þeirri stóru stund að keyra framhjá Skerjagarði og í fyrsta skipti síðan ég flutti út var greinilegt lífsmark í íbúðinni. Einhverjar dúllidúll gardínur, punt og lampar, ég veit ekki alveg hvernig íbúðin er að fíla það! Til að kóróna skólafílinginn hitti ég svo mínar yndislegu þjóðbrókar-vinkonur yfir ótrúlega fallegri og góðri haustsúpu a la Lilja. Mmmmm… Svona eiga laugardagar að vera!

Gaga úlala!

Ég elska október. Ég þreytist aldrei á að hrósa þessum fagra og hreina mánuði með ómþýða nafnið, ég skal með glöðu geði tala um október hvenær sem er. Ég hef þjáðst af nokkuð slæmu tilfelli af Skerjagarðssöknuði undanfarnar vikur, ég veit ekki af hverju en það gæti jafnvel verið haustið sem var jú alltaf skólatími. Það er kannski absúrd að sitja í húsfreyjuhægindaleðurstól sínum í einu horni 130 fermetra íbúðar og sakna 29 fermetra stúdíóíbúðar en hey, þeir sem kynntust Skerjagarði skilja hvað ég meina. Ég er jafnvel í stuði til að skella mér í eitt af pilsunum mínum og valhoppa eftir Aragötunni innan um laufblaðahrúgur og mæta í tíma þar sem ég á að vera búin að lesa fimmtán fræðigreinar en náði bara að lesa átta. Keyra svo á Runólfi mínum í Hlíðarnar og borða með Öddu, kaupa myntuís og hlæja að lélegum sjónvarpsþáttum. Ó. Já. Takk.

Ég held samt mínu striki og tekst á við áskoranir hversdagsleikans á Skipaskaga. Ég fangaði deyjandi geitung í gær, skellti yfir hann glasi eftir að hann gaf sjálfum sér dass af steikingu í einni halógenperunni í eldhúsinu. Ég er mjög laus við geitungahræðslu en mér finnst samt alveg óþarfi að þeir séu að upplifa sínar hinstu stundir við hliðina á mér, þeir gætu viljað eyða broddinum í eitthvað sérstakt, hafa smá tilgang með lífinu. En þegar ég var búin að hvolfa yfir hann glasinu fór ég að vorkenna honum. Þetta hefur alla mína ævi verið mitt helsta vandamál, ég vorkenni og vorkenni og vorkenni út í hið óendanlega, öllu og öllum. Ég get í orðanna fyllstu merkingu ekki gert flugu mein. Á sumar lokaði ég óvart á hlaupandi kónguló í vinnunni og mér leið illa allan daginn, hugsandi um hana kramda útaf einhverjum risavöxnum klaufa. Og ég sem er hrædd við kóngulær! En þar sem ég horfði á geitunginn í glasinu áttaði ég mig á því að hann væri reyndar að deyja sama hvar hann væri geymdur og tók einu rökréttu ákvörðunina í stöðunni. Ég gaf honum sykurmola. Og með þann fjársjóð sér við hlið lauk hann jarðvist sinni í gærkvöldi. En lífið heldur áfram og í dag var annar geitungur mættur til að skemmta mér, sem betur fer!

Úje!

Miðað við allan hasarinn á þessari síðu mætti halda að líf mitt snerist um að sitja á stól og horfa á hvítan vegg. Ástandið er sem betur fer ekki alveg svo slæmt en ég get ekki neitað því að á föstudagskvöldi ákvað ég að skora á sjálfa mig og athuga hvort ég myndi hvernig ætti að blogga. Það gefur kannski nokkuð góða mynd af því hversu dugleg ég er að sprella eitthvað sniðugt á kvöldin. Hið ótrúlega gerðist, ég mundi slóðina, notendanafnið og lykilorðið og þar með er helginni bjargað 😉

Það er alltaf gott að hafa afsökun fyrir þreytu sinni og nú held ég mig við þá staðreynd að fyrir ekki svo löngu gekk ég um í vinkli og gat ekki sinnt hversdagslegustu hlutum vegna þursabits. Ég sé alltaf fyrir mér þursinn úr gömlu Albin bókinni sem var til heima, hann hefur væntanlega bitið mig í svefni. Svona farlama dagar hafa þann kost að þegar manni líður aftur vel er allt svo frábært, frábært að geta klætt sig í sokka og frábært að geta teygt sig svo ég tali nú ekki um að geta lyft Hrafnkelinum hátt í loft. Ofan á vímuna af öllum verkjalyfjunum bættist semsagt almenn gleðivíma yfir frábærleika heimsins.

Nú hef ég sannað að ég kann þetta ennþá og þá er ekki hægt að treysta á að ég geri þetta ekki aftur!

Kitl í maga

Ég held að október líði alltaf hraðar en aðrir mánuðir, einhvern tíma mun ég sanna þetta vísindalega! Október er bestur að svo mörgu leyti, kvöldin verða alveg dimm, loftið er svo kalt og hreint, haustlitir og kósýheit ríkjandi og svo hljómar orðið október bara svo vel. Ég er farin að hlakka til jólanna. Það er nauðsynlegt að hafa alltaf eitthvað til að hlakka til og því fleira sem vekur tilhlökkun, því hamingjusamari er ég. Ég er of mikill skipuleggjari í mér til að geta alltaf bara lifað í nú-inu eins og á að vera svo hollt og gott. Að hlakka til hefur alltaf verið mín sérgrein og ég var ekki stór þegar ég áttaði mig á því að tveir bestu dagarnir á árinu væru Þorláksmessa og dagurinn fyrir afmælið mitt, tilhlökkunin getur nefnilega haft enn meiri sjarma en sjálfur atburðurinn sem hlakkað er til!

Meðal þeirra viðburða sem ég hef orðið hvað trylltust yfir af tilhlökkun eru ferðirnar sem voru farnar í tívolíið í Hveragerði þegar ég var lítil. Ég hef mjög líklega verið nálægt því að gera útaf við mína nánustu fjölskyldu vegna yfirspennings en ég man svosem ekki eftir þeirri hlið þar sem ég hafði um annað að hugsa 😉 Tívolíið var í mínum huga einfaldlega það allra frábærasta sem til var í heiminum. Leiðin þangað virtist endalaus, fyrst allur Hvalfjörðurinn og þá var samt eftir hálftími í viðbót! Ég man eftir birtunni þar inni, lyktinni, hljóðunum og öllum þessum spennandi tækjum. Og klístrað candyfloss og tombóla með helling af núllum. Á fyrstu tívolíferðinni minni vann ég víst stóra ísbjörninn minn en ég man ekkert eftir þeirri ferð… svindl þar sem það er það eina sem ég hef unnið 😉 Ég var svo heppin að þetta tívolí var starfrækt einmitt þegar ég var á þeim aldri að elska það. Því var lokað áður en ég fékk tækifæri til að finnast það orðið of barnalegt, leiðinlegt eða úrelt. Það fær þess vegna alltaf að vera hið eina sanna tívolí í mínum huga og ég fæ kitl í magann bara af því að hugsa um það!

hjona

Á myndinni sést tívolí-ísbjörninn í öllu sínu veldi… sem og ótrúlegur liðleiki minn á árum áður og síðast en ekki síst fallega rúmteppið sem mamma og pabbi áttu. Good times 🙂

Vík burt!

Ég mótmæli veikindum. Sérstaklega þegar maður þarf að skila stórri stórri stórri ritgerð eftir ekki svo marga daga.

Mig grunaði reyndar H1N1 í fyrradag þegar Guðmundur veiktist, ýmislegt passaði. Hann byrjaði að fá smá nefrennsli og var svo allt í einu með háan hita, vældi og stundi af sársauka og gat varla haldið sjálfum sér uppi. Flensan kemur víst svona snögglega með háum hita og vægum kvefeinkennum. Um svipað leyti fór mér sjálfri að líða illa. Ég ákvað að bíða þangað til í gær með að hringja í lækni og sjá hvernig málin þróuðust. Mér hefur verið að versna en mér sýnist og ég vona að Guðmundi sé að batna. Hitinn var lægri í kvöld og hann var hressari í dag. Ég hins vegar hef ekki fengið neinn hita (fæ reyndar eiginlega aldrei hita) sem bendir til þess að þetta sé bara venjuleg pest. Og þar af leiðandi talaði ég ekki við lækni. Mér gæti ekki verið meira sama þó ég fengi þessa inflúensu en ég er skíthrædd við að barnið fái hana. Eins og reyndar með allt, ég er alltaf súper áhyggjufull þegar eitthvað er að angra hann, sama hversu lítið það er.

Það lítur semsagt út fyrir að við séum bara með saklausa litla pest en úff hvað svona vesen getur truflað mann. Ég reyni að sitja við tölvuna og skrifa en það er eins og einhver sé að sarga með rakvélablöðum í hálsinn og eyrun, hjartslátturinn slær takt í hausnum á mér og ég hnerra endalaust. Fyrir utan að auðvitað langar mig að sinna Guðmundi 100% þegar honum líður illa. Kvart og kvein. Ég ætlaði að framleiða fleiri fleiri blaðsíður í ritgerðina þessa helgi en so far eru þær þrjár. Reyni áfram.

Gleðilega menningarnótt, ég kíki kannski á næsta ári 😉

Uppáhalds…

Ég á mér uppáhalds blogg. Ég var eiginlega að fatta það áðan. Ég les næstum aldrei blogg lengur enda nenna fáir að blogga. Ég áttaði mig bara á því að ég enda ítrekað inni á þessari síðu, þó ég ætli mér það ekkert sérstaklega. Og ég þekki manneskjuna nákvæmlega ekki neitt, hef ekki einu sinni séð hana. Og hvað þarf til að ég verði aðdáandi? Á þessu tilfelli eru það nokkur mismunandi atriði sem gera þetta greinilega hina fullkomnu blöndu: skemmtilegar pælingar – alls ekki alltaf eitthvað sem ég er sammála en í þeim tilvikum sem ég hristi hausinn yfir því sem verið er að tala um þá brosi ég samt alltaf pínulítið líka. Hrikalega girnilegar myndir af mat. Flottar ljósmyndir. Alltaf eitthvað sem kemur mér á óvart. Hröð uppfærsla. Og hér með lýkur greiningu á bloggfýsnum mínum.