Af rappi

Ég verð að játa að ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég uppgötvaði að fyrsta breiðskífa Eminem er ekki heima hjá mér á Öldugötunni heldur líklegast í kassa niðri í geymslu hjá mömmu. Það er rétt, ég sé enga skömm í að játa að ég fíla fyrstu plötu Eminem, þó ekki nema sé nostalgíunnar vegna.

Sumir menn eru hinsvegar óforbetranlegir í sinni Koяrnnostalgíu eins og ég hef oft bent þeim á. Þegar ég var unglingur hafði ég raunar talsverðar áhyggjur af markaðsvæðingu hins dysfúnksjónal [sic] listamanns sem var misnotaður kynferðislega og vann á líkhúsi (sér til ánægju). Það þótti samt töff.

Nú er ég ekki að segja að frásagnir Eminem af föður sem myrti barnsmóður sína til að fá að hitta dóttur sína væru mikið skárri, en á einhvern hátt var það nýstárlegt á Íslandi á þeim tíma – eitthvað sem maður hafði aldrei kynnst áður. Eftir Slim Shady LP hef ég þó ekkert getað fílað með Eminem, utan einskífunnar Stan þar sem hann fékk lánað stef af plötunni No Angel með hinni ofurkrúttlegu Dido, sem hún gaf út þvert ofaní sérhvert yeah right heimsins. Eins klisjukennt og það kann að hljóma – eins klisjukenndar og klisjukenndir eru.

Það var nefnilega gott lag, mun betra en orgínallinn, ólíkt öðrum slíkum samstarfsverkefnum rappara og krúttpoppara. Enda var umrætt stef aðeins inngangur að orgínalnum sem sökkaði að flestu öðru leyti. Dæmi um hið gagnstæða væri þá Say What You Want með Method Man og Texas, sem ég er að hugsa um að sækja mér á netið núna uppá nostalgíu. Orgínallinn var talsvert betri, en honum fylgir engin nostalgía.

Annað lag sem hefur fylgt mér lengi er samstarfsverkefni Busta Rhymes og annars náunga sem ég kann ekki að nefna. Minnir að lagið heiti Real Hot. Ef einhver getur reddað mér því yrði það vel þegið, því ég finn það hvergi á netinu. Armt er það, netið.

Í minningu

Skrifað þann 22. ágúst

Hvaða klisja er yndislegri en hrifnæmi háskólastúdentinn sem situr við fjórtánda kaffibollann að kvöldi til og les Nietzsche? Hann þarf ekki kaffið, það bara tilheyrir. Nietzsche á ekki að lesa fyrir fíluna fyrr en í nóvember, en hver getur beðið þegar hægt er að setjast á eintal við eilífðina N Ú N A ?

Ég var þessi karakter fyrsta haustið mitt í Háskóla Íslands, þessi sem mætti fyrstur í fíluna, las allt ítarefni (Nietzsche fyrstan), notaði frasa á við a priori alltaf þegar ég gat og gagnrýndi veðmál Pascals einsog ég væri eini maðurinn sem nokkru sinni hefði séð í gegnum það. Hefði íslenskan ekki heillað mest hefði heimspeki orðið fyrir valinu; þegar ég var ekki að kynna mér Clifford og James sat ég inni á Þjóðarbókhlöðu og lúslas Handbók um íslenskan framburð uns ég kunni hana utanbókar (og varði svo næstu árum í að leiðrétta framburð fólks).

Þetta er veiki sem heltekur mann og sleppir ekki svo glatt; hún hefst með þekkingarþrá en er fyrr en varir orðin að lífsstíl, sér í lagi fari maður að njóta einkennanna jafnmikið og sjúkdómsins (einkenni geta verið: leti við rakstur, aukin kaffidrykkja, langar ræður um póstmódernisma, tilgerðarlegar tilvitnanir í spekinga: „sagði ekki Spinoza, að …“). Ég hef gerst sekur um flest þetta og það verður partur af gamaninu að lifa sig inn í hlutverkið. Það er líka nauðsynlegt að hafa húmor fyrir náminu og sjálfum sér því umfram allt er þetta drulluerfitt. B.A.-nám er ógeðslega erfitt. Framhaldsnám ekki síður. Það þarf seiglu til að halda áfram hvað sem tautar og raular. Maður gerir það af því að maður elskar það. Það sem fæst að launum er líka ómetanlegt (sem er líka eins gott því ekki fær maður neina vinnu út á menntunina).

Ég ætla ekki að eigna honum einn eða nokkurn þessara eiginleika, manninum sem mig langar að minnast. Hann þekkti ég ekki svo vel. Því finnst mér ég varla eiga rétt á því hvað ég hef verið dapur síðan ég frétti að hann væri dáinn, þó að ég geti vitanlega ekkert gert í því þótt mér líði þannig.

En, hann kom mér fyrir sjónir sem félagi í þekkingarmaníunni: annað eintak sem heldur áfram sama hvað, jafnaldri minn og samstúdent sem haldinn var sömu veikinni. Hann var raunar alvarlega veikur á annan hátt, en hann virtist ekki ætla að láta það stöðva sig þótt veikindin hömluðu honum allverulega. Leiðir okkar lágu sífellt oftar saman eftir því sem á leið veturinn og – ef til vill ekki að furða í fámenninu – hittumst við nálega daglega niðri í Háskóla í sumar. Alltaf settist hann á spjall við mig ef hann fann mig í Stúdentakjallaranum eða á Háskólatorgi. Ég viðurkenni að mér þótti erfitt að tala við hann, það gerðu veikindi hans, en mér líkaði fjarska vel við hann. Hann var góður strákur.

Ég hef stundum velt því fyrir mér, fengi ég að loknu lífinu að velja eitt af tvennu: að fá þegar að komast í allan sannleika um alla hluti, eða hafa eilífðina til rannsókna en aldrei fá úr neinu endanlega skorið, þá veldi ég síðari kostinn. Ég hef líka hugsað með mér að hvernig sem annars um mig fer, þá vilji ég fá að halda áfram þekkingarleitinni til síðasta dags. Kannski er það einmitt þetta sem fær mest á mig þegar ég hugsa um kunningja minn úr Háskólanum: hann vissi að hver dagur gæti orðið sinn síðasti, og hvernig sem honum annars farnaðist þá bar viðleitnin hann samt hvern einasta dag út í Háskóla. Þar sá ég hann fyrst og þar sá ég hann síðast. Og ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við mig nú þegar ég veit að ég mun aldrei sjá hann aftur, en á samt alltaf von á því að hann komi og setjist hjá mér. Hitt veit ég að ég er glaður að hafa þekkt hann, þótt ekki hafi ég þekkt hann vel, og svo mikið er víst að mér finnst heimurinn fátækari fyrir það að hann er horfinn.

Ég þarf ekki að vona, því ég veit í allri einlægni að heimspekingsins Gunnars Júlíusar Guðmundssonar verður lengi minnst.

Atlantis

Ekki man ég hver þrætti fyrir tilvist Atlantis við mig um daginn, en hér stendur mín meining nokkuð svört á hvítu. Það er einfaldlega svo að flestir fræðimenn eru sammála um að fyrirbærið hafi verið symbólískur uppspuni Platóns, og jafnframt er það sú skýring sem er haldbærust miðað við heimildir. Að ógleymdu því að flest það nýaldarlið sem heldur uppi vörnum fyrir Atlantis er víst með að kunna ritsafn Erichs von Däniken utanbókar.

Svo er alltaf goðsögnin innan hinnar sönnu goðsögu, Trójuhesturinn svo dæmi sé tekið. Ódysseifur hefur þurft að vera fjandi klár til að fá jafn fáránlega hugmynd. Og eins mikið og ég gleðst yfir því að Schliemann hafi fundið brunarústir Tróju og þarmeð staðfest goðsögnina að einhverju leyti, hlýtur að bera að varast alla yfirlýsingagleði; tréhrossin þurfa að sitja á hakanum. Knossos og Bergþórshvoll teljast staðfestar minjar, en það hlýtur á hinn bóginn að teljast afar vafasamt að minjar á Santorini séu leifar Atlantis eins og sumir vilja halda fram. Hafa hinir örvilnuðustu áhugamenn reynt að draga upp vafasöm tengsl milli sprengigossins þar og Rauðahafssögu Gamla testamentisins, í hvaða tilgangi nákvæmlega veit ég ekki.

Í þessu sambandi er mér minnisstæð saga af því þegar landnámsbærinn við Aðalstræti var grafinn upp. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur stýrði uppgreftrinum, en sonur hans er mér kunnugur. Að hans sögn mun hann hafa sagt við fjölmiðla, áður en þeir tóku hann formlega tali, að það kæmi ekki til greina að hann svaraði neinum spurningum um Ingólf Arnarson. Þegar fréttamaðurinn svo spurði hvort verið gæti að þar væri hús Ingólfs svaraði hann um hæl: Hvaða Ingólfur? Við lá að Velvakandi yrði að sértímariti í kjölfarið – vissi sjálfur fornleifafræðingurinn ekki hver Ingólfur Arnarson var?

Það er nefnilega ekki síst fjölmiðlanna vegna að rétt er að vera á varðbergi gagnvart svona sögusögnum. Einmitt þess vegna spurði ég sjálfan mig, þegar ég las frétt þess efnis um daginn að grafhýsi Heródusar mikla hefði fundist við Jerúsalem, hvort hún hefði þá fundist í vikunni eða hvað? Auðvitað hef ég ekki hugmynd um hversu miklar rannsóknir höfðu farið fram þegar þetta var tilkynnt, en ef ísraelskir fjölmiðlar eru jafn heimtufrekir og íslenskir, þá var allt eins líklegt að um gott gisk hefði verið að ræða. Raunar hefur Hebreski háskólinn nú staðfest fundinn.

En þrátt fyrir alla staðfesta fundi er þeim mun meiri ástæða til að vera var um sig og éta ekki allt hrátt upp eftir fjölmiðlum án nokkurrar umhugsunar. Menn skyldu vera skeptískir í hvert einasta sinn sem Anastasía Rómanoff dúkkar upp í Bandaríkjunum eða hengigarðar Babilóníu finnast meðan Kristur birtist á hundsrassi austur í Karpata. Það er nefnilega ekki vinnandi vegur að vita hvenær óskhyggjan ræður ein för umfram vísindaleg vinnubrögð, að hluta til eða í heild. Að evangelískum hundsrössum ólöstuðum.

Klukkan á veggnum

Stundum kemst maður í tæri við eitthvað sem er svo miklu stærra en maður sjálfur. Telur svo mínúturnar, loks sekúndurnar og leyfir því loks að ríða yfir. Þótt í öllu falli gerist það án leyfis.

Það er um margt að hugsa þessa dagana.

Af dægradvöl ungmenna

Sumum finnst að það ætti helst að segja þessum unglingum að sjoppur séu ekki félagsmiðstöðvar. Mig grunar að það sé rangt í tvennum skilningi.

1. Unglingar eru lengur í sjoppunni en í skólanum einmitt af því að sjoppur eru ekki félagsmiðstöðvar. Ef barnið þitt sækir félagsmiðstöð eru líkur til að það sé plebbi.

2. Sjoppur eru bara samt félagsmiðstöðvar, það sést á útkomunni fremur en markmiðinu. Það stangast í engu á við argúment 1. Auk þess er áratugahefð fyrir þessu. Svo skal enginn segja mér að Smáralindin sé ekki stærsta frístundaheimili á Íslandi.