Ögn um málfar

Í Morgunblaðinu í dag birtist pistill eftir Guðmund Egil Árnason sem ber heitið Misskilningur í íslenskri menningu, sem er einmitt sérstakt áhugamál hjá mér. Að mörgu leyti er pistillinn ágætis áminning um þann tvískinnung sem felst í óhóflegri málvernd, einsog þeirri sem stunduð er af „íslenskum menningarstofnunum“, einsog hann kemst að orði. Þar nefnir hann sérstaklega Mannanafnanefnd og raunar menntakerfið í heild sinni, sem er kannski eilítið bratt hjá honum.

Tvennt hnaut ég sérstaklega um í pistlinum. Guðmundur Egill segir á einum stað:

Mjög fáir Íslendingar gera sér grein fyrir því að íslenska er hvað skilning varðar (for all cognitive purposes) jafnólík forn-íslensku og sænska. Sama stafróf var ekki notað og gjörsamlega allt annað hljóðkerfi. Ördæmi: Í íslensku voru tvö æ, sem voru löng sérhljóð í stað tvíhljóðans sem við notum í dag, tvö ö, sem að vísu voru önghljóð en hljómuðu eins og o annars vegar og danskt Ø hins vegar og svona mætti lengi telja án þess að lesendur skildu nokkuð. Né skildu lesendur nokkuð ef þeir læsu alvöru-forníslensku eða hlustuðu á forníslenska hljóðbók en ekki námsbækur skólanna. Þær gefa mjög blekkjandi mynd af fornri íslensku.

Ég hefði haldið að útgáfa fornrita hefði það einmitt að markmiði að færa þau nær nútímalesendum, ekki að gefa neina sérstaka mynd af forníslensku. Að sama skapi þykir mér hæpin ályktun að íslenska sé jafn ólík forníslensku og sænska. Það þýddi að í íslensku og sænsku hefðu sömu eða hliðstæðar hljóðbreytingar átt sér stað þegar staðreyndin er sú að í íslensku voru breytingarnar ekki nærri eins róttækar. En ég vil aðallega ræða þá fullyrðingu að venjulegur lesandi geti ekki skilið skrifaða forníslensku.

Sjálfum þykir mér ýmist of mikið eða of lítið gert úr þeim mun sem Guðmundur Egill talar um. Því er stundum haldið fram að Íslendingar geti lesið handritin, sem er satt upp að því marki að til eru Íslendingar sem geta það, enginn þó án þjálfunar svo ég viti. Þá er hinum öfgunum stundum haldið fram að tungumál handritanna sé það ólíkt nútímaíslensku að í raun sé það ekki sama tungumál. Það er hárrétt hjá Guðmundi Agli að að forníslenska er gjörólík nútímaíslensku að framburði og að stafsetningin var um margt ólík, en vandamálið er ekki alfarið bundið við málfar.

Ein helsta ástæða þess hversu torsótt það getur verið að lesa handritin er að þau eru illlæsileg sökum aldurs og meðferðar. Þá eru þau uppfull af torskildum skammstöfunum sem var beitt til að spara pláss á bókfellinu. Málfar og stafsetning verður fyrst helsti múrinn þegar handritið hefur verið gefið út stafrétt, en jafnvel það ætti ekki að vera neinum neinn óyfirstíganlegur múr þótt margt hafi breyst. Sjálfum þætti mér réttara að segja að munurinn á forníslensku og nútímaíslensku sé umtalsverður, en engan veginn eins afgerandi og Guðmundur gefur í skyn.

Þá segir hann strax í kjölfarið:

Þegar ný orð koma úr ensku eða mönnum dettur sjálfum eitthvert orð í hug þurfa þeir að bíða eftir næstu orðabók frá Merði Árnasyni til þess að hann geti sagt okkur hvort orðið sé nothæft eða ekki í blöðum landsins. Það er eins gott að maður stelist fyrir aftan hann í bíó þá og hvísli því að honum, ef maður vill fá leyfi til að nota það á opinberum vettvangi

Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Fólk hefur vissulega einhverja undarlega tröllatrú á orðabókum, en Íslensk orðabók er ekki kanóna einnar eða annarrar stofnunar, nema veri það ritstjórans sjálfs. Orðabækur eru ekki fræðirit heldur eru þær háðar duttlungum ritstjóra hverju sinni. Í íslenskudeildinni var gefið dæmi af ritstjóra Íslenskrar orðabókar sem fjarlægði orðið ‘valsari’ frá fyrri útgáfu en bætti inn ‘kr-ingur’ í staðinn. Þó að Mörður hafi viljað hafa ‘sjitt’ í orðabókinni sinni þýðir það ekki að það sé skyndilega orðin íslenska, og það þótt hann hefði sleppt því þýddi það ekki heldur að það væri það ekki. Ekki frekar en valsari hætti að vera íslenska þegar það var fjarlægt úr orðabókinni.

Tungumálið er það sem fólk talar og það er það lengsta sem nokkur kanóna nær. Mörður ræður ekki hvernig fólk talar, það gerir fólk sjálft, enda þótt til sé einstaka fasisti sem heldur öðru fram. Þess vegna býðst Guðmundi Agli að beita hvaða slangri sem hann vill án þess það sé neitt óíslenskara en hvað annað. Enda ef fólk sletti ekki þyrfti enga Merði til að skemma daginn fyrir Eiði Guðnasyni og hans nótum. Útgefnum skoðunum Marðar á því hvað sé íslenska þarf á hinn bóginn ekki að taka neitt alvarlegar en manni sjálfum sýnist.

Leiðarvísir um Borgarbókasafn

Í rúm fjögur ár hef ég starfað á Borgarbókasafni og allan þann tíma hef ég ítrekað hjálpað sama fólki sem virðist fyrirmunað að læra jafn einfaldan hlut og að finna safngögn. Þess vegna langar mig til að skýra flokkunarkerfi Borgarbókasafns í fáum orðum. Það er hið svokallaða danska Deweykerfi.

Fyrsta reglan er að það þarf ekki að læra á flokkunarkerfið sjálft, aðeins hvernig bókunum er raðað. Það þarf semsé ekki að muna að 850 eru fornsögurnar og að 136-168 er kukl/sjálfshjálp. Það þarf bara að muna númerið og finna það. Önnur reglan er að kerfið er til staðar til að einfalda þér leitina, ekki til að flækja hana.

Með þetta í huga má hefjast handa við að skýra kerfið en það er tvíþætt – í Sólheimasafni er það að vísu þríþætt. Fyrst er það flokkurinn, þriggja stafa tala frá 000 upp í 999. Flokkum er raðað í talnaröð frá öðrum enda safnsins til hins. Þá er það höfundur og titill. Höfundum er raðað innan flokkanna eftir stafrófsröð og titlum er raðað í stafrófsröð eftir höfundum. Þannig kemur 994 Þór Ísl (Íslenzkur aðall) á undan 994 Þór Ofv (Ofvitinn), og 994 Þór Ásg (Þórður Kakali eftir Ásgeir Jakobsson) kemur þar á eftir, af því stafrófsröð efri línu yfirskipar þá neðri. Og nei, bókum er aldrei raðað í útgáfuröð.

Þriðji þátturinn sem er einskorðaður við Sólheimasafn er ef bækur eru merktar 4to eða 4° (lesist: kvartó). Það merkir að bækurnar eru af tilteknum stærðarflokki sem hentar ekki venjulegum hillum og því eru þær hafðar sér.

Utan kerfis standa svo skáldverk á íslensku – bæði þýdd og frumsamin. Þeim er aðeins raðað eftir stafrófi. Um stafrófsröð höfunda gildir almennt sú regla að íslenskum höfundum er raðað eftir fornafni en erlendum eftir eftirnafni (þá ber að hafa í huga að Kínverjar bera flestir en þó ekki allir ættarnafn sitt á undan eiginnafni). Skáldsögum á erlendum málum er hinsvegar raðað eftir flokki á undan stafrófi (sem er flokkur fyrir viðkomandi tungumál, t.d. 830 fyrir bækur á ensku, og sama gildir um mynddiska). Þær eru þó oft hafðar í sérhillu utan hefðbundinnar röðunar, t.d. á eftir íslenskum skáldsögum.

Þetta er nú allur galdurinn. Eina sem maður þarf er að kunna að telja og þekkja stafrófið. Flokkarnir byrja á einum enda safnsins og enda hinumegin, og ýmist á undan eða eftir flokkunum eru skáldritin geymd. Þá eru mynddiskar einnig hafðir sér og um röðun þeirra gildir sama og um röðun flokkabóka (þ.e.a.s. bókin The Secret hefur sama flokkunarnúmer og mynddiskurinn og sama gildir um bækur og myndir Davids Attenborough). Eina sem þarf að gera ef manni líst ekki á að leita blindandi í (yfirleitt) litlum myndbandadeildum safnanna er að slá upp viðkomandi titli í leitartölvu og finna númerið. Rest ætti alveg að koma af sjálfu sér.

Það er ekkert að því að biðja um hjálp, ég segi það ekki. En mér finnst alveg sjálfsagt mál að daglegir gestir á bókasöfnin læri þó inn á þetta tiltölulega einfalda kerfi. Önnur kerfi, t.d. það á Landsbókasafni, er hefðbundið Deweykerfi þar sem allt er merkt eftir flokkum. Bæði kerfi hafa sína kosti og galla en okkar kerfi er í það allra minnsta nógu einfalt til að hver sem er ætti að geta lært að nota það á kortéri. Þjálfunin sem nýir bókaverðir fá er altént ekki meiri en sú sem þú fengir ef þú gengir upp að næsta starfsmanni og bæðir um aðstoð við að læra á flokkunarkerfið.

Ný bók eftir Þórberg komin út

Það hlýtur að teljast til nokkurra útgáfutíðinda að út komi ný bók eftir Þórberg Þórðarsson! Áskrifendur í Klassíska kiljuklúbbnum munu fyrstir manna berja augum rit sem fengið hefur titilinn Meistarar og lærisveinar en bókin sú er byggð á „stóra handritinu“ hans Þórbergs sem er að líkindum uppkast að þriðja bindi skáldævisögu hans. Verkið er skrifað seint á fjórða áratugnum í kjölfar Íslenzks aðals og Ofvitans en þar tekur Þórbergur upp þráðinn þar sem Ofvitanum sleppir og segir frá sjálfum sér allt fram til ársins 1925.

Bókinni verður dreift til áskrifenda á allra næstu dögum en er væntanleg í bókaverslanir í byrjun ágúst.

Arngrímur Vídalín bjó handritið til prentunar en Soffía Auður Birgisdóttir ritar formála.

Ögn meir um kúltúr, án teljandi sjokks þó

Að sama skapi og þegar ég segi að Þjóðverjar séu upp til hópa grútleiðinleg þjóð þá hef ég í raun réttri aldrei orðið fyrir kúltúrsjokki í Danmörku. Eiginlega hef ég aldrei orðið fyrir neinu raunverulegu kúltúrsjokki neinstaðar. Mest framandi land sem ég hef komið til er Marokkó en það var öðruvísi á spennandi hátt.

Vissulega sló þar mig kona í andlitið fyrir þær sakir einar að halda á myndavél, og í kjölfarið reyndi hún að rífa hlýrabol utanaf einni stelpunni í ferðinni, að ég vænti til að sýna fram á hversu mikil skækja hún væri fyrir að klæða sig svona lauslega. Þar hjó maður líka höfuð af lifandi kjúkling úti á götu og hrækti á eftir mér.

Ferðamönnum Úrvals útsýnar var að minnsta kosti á þeim tíma bannað að versla við fólkið, svo gremjan vænti ég var sprottin þaðan. Þá voru þar einnig hermenn frá ýmsum afríkuríkjum sem stóðu vörð eftir endilangri verslunargötunni sem lá beint að höll konungs sem þá var þar staddur í Tetuan. En kúltúrsjokk var það þó ekki; eiginlega kom fátt á óvart. Og það er varla talandi um kúltúrsjokk nema maður búi í viðkomandi landi til lengri tíma og eigi erfitt með að aðlagast að því marki að maður hvorki skilur né kann við sið heimamanna.

Ég set þess vegna alla fyrirvara á síðustu bloggfærslu; henni var á engan hátt ætlað að vera greinandi, djúp eða alvarleg. Það eina sem er ófyndnara en lélegur brandari er þegar maður segir „djók“ en stundum er betra að bara segja það svo fólk haldi ekki að maður sé fífl.

Eitt er þó það sem mér þykir framandlegt við Danmörku, ekki á þann hátt þó að ég skilji það ekki eða þyki það beinlínis til skammar, en það er munurinn milli Danmerkur – og sjálfsagt annarra Norðurlanda – og Íslands, þegar kemur að sambandi barna við fullorðinsheiminn. Allmargir vinir mínir á Íslandi eiga börn og kæmi ekki til hugar að opna bjór meðan barnið er vakandi, hvað þá heldur taka börnin með á djammið.

Í Danmörku hef ég þó þrisvar og jafnvel oftar verið í partíi þarsem börn voru lifandi partur af herlegheitunum. Og drukkið fullorðið fólk hefur leikið sér við börnin, milli þess sem það fer út á svalir og kveikir sér í hasspípu, og staupar sig svo á ákavíti og bjór. Fyrr en síðar sofnar barnið meðan foreldrarnir halda áfram að drekka sig fulla. Þetta þykir alls ekkert tiltökumál í Danmörku, og ekki vil ég beinlínis gagnrýna það heldur, þótt áreiðanlega sé ekkert til sem heitir sniðugt við þetta. En fólk sem þar eignast börn og hefur engan til eða vill ekki að neinn passi þau fyrir sig meðan það fer út á lífið, þannig kemur það félagslífinu að.

Svo ef talandi væri um kúltúrsjokk yfirhöfuð þá væri það líklega þetta. En meðan ég hvorki stend skilningslaus gagnvart því né er sérlega sjokkeraður, þá flokkast það heldur ekki með. Þá er rétt að taka fram að þetta er ekki tilraun til að analýsera neitt. Ég nota bloggið langtum meira bara til að hugsa upphátt.

Kúltúrsjokk

Fyrirsögnin er kannski fullyfirdrifin miðað við tilefni en þó er vel hægt að upplifa kúltúrsjokk í Danmörku. Stærsta kúltúrsjokkið, sem kann að koma lesendum þessarar síðu á óvart, var að fólk vílaði ekki fyrir sér að snýta sér lon og don undir miðjum fyrirlestri. Í fyrstu þótti mér ógeðfellt að ekki aðeins Spánverjinn í hópnum heldur Danirnir líka snýttu sér í tíma og ótíma og tróðu svo pappírnum í vasann, en svo rann það upp fyrir mér að ef til vill væri það þrátt fyrir allt meiri kurteisi en að standa í sífellu upp til að fara fram að snýta sér.

Snýtihefðir meginlandsbúa voru mér meira kúltúrsjokk en þegar ónefndur aðili mætti í grillveislu með töskufylli af bareflum og reyndi að fá fleiri til lags við sig til að halda útí skóg til að lumbra á nasistum (við heldur dræmar undirtektir). Eða þegar ég tók strætó til Tilst og skyndilega voru bara búrkuklæddar konur eftir í vagninum. Eða sú staðreynd að þriðji hver maður virtist reykja heimaræktað kannabis að staðaldri – nokkuð sem ég varð engan veginn var við í fyrra. Og að þeir Hollendingar sem ég hitti höfðu aldrei heyrt um Icesave (ekki spyrja mig hvers vegna ég yfirhöfuð minntist á það).

Stærsta kúltúrsjokk þeirra sem í fyrsta sinn ferðast til útlanda er væntanlega hversu einsleitt mannkynið í raun og veru er þegar allt kemur til alls, og að sjá svo gegnum fingur sér með það litla sem er ólíkt milli hinna aðskildustu hluta heimsins. Þegar maður hefur áttað sig á þessu er auðvelt að sjá hversu smáar sumar þjóðir eru að vilja banna bænahald annarra en þeirra sem játast undir sama guð og sömu doktrínu, og amast við því að útlendingar opni matsölustaði í þeirra landi og selji sinn framandi mat þeirra hreinu og óspilltu börnum. Það er alltaf sjálfsyfirlýst miðja sem skilgreinir jaðarinn, sem gerir að verkum að án jaðarsins væru normin ekki til. Það hefur lítið breyst í þjóðarvitund margra síðan íslenskir Grænlendingar drápu skrælingja án umhugsunar, án þess að reyna að tala við þá, af því þeir voru öðruvísi. Hálfgerð skrímsli.

Ég á hinn bóginn er fyrir löngu búinn að átta mig á þessu, allt frá því ég bjó á Ítalíu, og er þess vegna þeirrar skoðunar að öllum börnum sé hollt að kynnast öðru landi innanfrá einhverntíma á uppvaxtarskeiðinu. Það eykur á víðsýni þeirra síðar meir. Þess vegna leyfi ég mér oft að einblína á það sem þó er öðruvísi, í þeirri trú að fólk átti sig á að mér er aldrei full alvara með mínum þjóðernislegu dilkadráttum (ég á stundum til að segja til dæmis að Þjóðverjar séu leiðinlegasta þjóð Evrópu – þótt auðvitað sé það ekki og geti ekki verið satt – þjóðir geta ekki verið leiðinlegar, frekar en þjóðir geta verið hryðjuverkamenn).

En í öllu falli er hæpið að ég taki mér þann sið til fyrirmyndar að snýta mér undir fyrirlestrum, eða slást við nasista en jafnframt gútera gettóvæðingu úthverfanna. Það er eitthvað algjörlega framandlegt við margt það skilningsleysi sem ég hef orðið vitni að í Danmörku gagnvart fólki af öðru menningarupplagi, þegar nasjónalistar hatast við yfirlýsta nasista einsog það sé í raun einhver gríðarlegur munur milli þeirra. Sumir hata gyðinga en aðrir hata múslima og sumir hata einfaldlega bara allt sem er dekkra en MacBook.

Þegar öllu er á botninn hvolft er fólk alstaðar meira eða minna eins þótt siðirnir séu ólíkir eftir hvar maður er staddur hverju sinni. Og þegar kemur að því að taka sér upp erlenda siði þá fellur evrópska dagdrykkjan mér öllu meir að skapi en margt það annað sem ég hef kynnst á ferðalögum mínum. Fyrr drekk ég bjór fyrir hádegi en snýta mér í kennslustofu, eða skipta mér af því hvaða þjóðernishópar berjast innbyrðis í Danmörku af gagnkvæmu skilningsleysi gagnvart öllu því sem talist getur sammannlegt.

Katanesdýrið

Ármanni til upplýsingar get ég fullyrt að ég sá Katanesdýrið liggja í makindum sínum á gólfi danskrar lestar, svo skömmu síðan sem í gær. Þarmeð hefur það fylgt í fótspor ýmissra þeirra sem flúið hafa kastljósið gegnum tíðina, svosem Elvis, Hoffa og Geirfinnur. Samkvæmt eðli horfinna hefur aldur ekkert með það að gera að fólk heldur áfram að sjá viðkomandi aðila á vappinu hér og þar; Elvis mun enn sjást að 50 árum liðnum. Að sama skapi sá ég Katanesdýrið og held fastur við minn keip.

Sumir kvörtuðu undan viðurvist Katanesdýrsins um borð í lestinni, bentu ýmist á að skrímsli væru ekki leyfð um borð í lestum (það er bannmerkið fyrir neðan reykingamerkið), eða sögðu að í það minnsta væri hægt að geyma skrímslið annarsstaðar en á miðjum ganginum þar sem nægt væri plássið. Samgangur manna og skrímsla heldur þannig áfram að vera hversdagslegt áhyggjuefni. Þá má benda á að umrædd skytta sem fengin var til að veiða Katanesdýrið var einmitt langafi Vésteins Valgarðssonar, samkvæmt því sem ég hef heyrt. Og skilst mér að Vésteinn sjálfur segi söguna best allra manna.

Annars í viðleitni til að skemma góðar sögur finnst mér lítið hafa verið athugað að þeir fyrstu til að beita fyrir sig Katanesdýrinu sem skálkaskjóli voru ungir smalar sem týndu sauðfé. En tímarnir breytast og skrímslin með. Ég væri í öllu falli til í að sjá unglinga nútímans reyna að beita fyrir sig skrímsli sem afsökun í vinnuskólanum.

Sögur úr Árósum

Hér er hópur skandinava í einhverslags dönskuskóla sem hefur farið nokkuð í taugarnar á mér undanfarna eina og hálfa viku. Dagskipunin virðist hafa verið að taka öll bæjarhjól Árósa strax á fyrsta degi og halda í þau. Þau standa hér í röðum á daginn og eru læst inni á næturnar og menn greinir á um hvort þessi gjörningur sé meira siðlaus en hann er lágkúrulegur.

Vinur vinar míns hérna, sannkallaður heimsborgari, fannst dauður hér á lóðinni einhversstaðar í morgun. Svo virðist vera sem hann hafi ætlað sér að fara heim en ekki komist lengra, svo þess í stað fékk hann að vakna við gólin í sænskum stelpum að tuða undan umgengninni eftir grillveislu gærkvöldsins. Síminn hans var horfinn og hjólið hans líka, svo hann tók umgengnina áreiðanlega ekkert sérlega nærri sér. Enda þótt óhjákvæmilega velti maður því fyrir sér hvernig sami maður plumaði sig í eilítið harðara landi.

Þegar við hin höfðum lifnað við á nýjan leik tókum við að sjálfsögðu til og var það auðgert. Valur Gunnarsson, einn góðkunnugur Árósafari, gerðist þá svo frakkur að kasta á þær kveðju síðar um daginn. Kvað ein þeirra hafa gargað á hann og spurt hvort hann væri þangað kominn til að biðjast afsökunar á umgengninni.

Svo það er nokkuð ljóst að sænska sameignarstefnan einsog hún er iðkuð hér við Risskov er ærið blandin eftir tilefni hverju sinni.

Sami Valur mun hafa hitt forna sígaunakonu við haf úti undir skógarrótum um miðja nótt og beiddist hún ásjár hans, enda er hann maður eigi pervisinn. Hafði hún á orði við hann að danskir karlmenn væru ræflar ólíkt honum, og að einhverjir durtar héldu sér fanginni í húsi inni í skóginum. Hann fór hikandi af stað með henni gegnum skóginn og elti hana að lundi þar sem sannarlega stóð hús, og kvaðst hún skyldu inn í hús að sækja töskuna sína, og hann yrði tilbúinn þar fyrir utan ef í harðbakkann slægi. Þar stóð hann tilbúinn að hringja á lögregluna, ekki alveg sama um kringumstæður, uns hann rak augun í skilti við húsið. Þar stóð að umrætt hús væri geðveikrahæli.

Þannig gerast ævintýrin enn.

Eiturkoppar og geltarfar

Eitrkoppr inn smærri dafnar í sturtuklefanum. Foreldrarnir láta þó ekki á sér bera.

Í dag fengum við hálfan frídag svo ég hélt glaður í bragði með strætó niður á Store Torv að heilsa uppá DanBolig, til að koma mér á biðlista á einkaleigumarkaði ef ske kynni að ég fengi ekki inni á görðum. Strætóbílstjórinn neitaði að hleypa mér út fyrr en einni stöð of seint, svo það var þónokkuð fokið í mig þegar ég arkaði gegnum rigninguna að húsinu þar sem ég hafði séð útstillingu frá þeim áður.

En þá var fyrirtækið ekki þar, heldur auglýsing sem vísaði á einhverja M. P. Bruunsgade. Fjórða manneskjan sem ég stoppaði gat vísað mér þangað svo ég gekk eftir endilöngu Strikinu að lestarstöðinni í mígandi rigningu og hægra megin við stöðina var M. P. Bruunsgade. Það vissi ég hinsvegar ekki þar sem ég fann ekki skilti svo ég spurði til vegar á túristakontór.

Þá fann ég NyBolig, þar sem smjörsleiktur apaköttur tók á móti mér en rak mig skjótt á dyr þegar hann komst að því að ég hafði ekki áhuga á að kaupa eitt af fínu einbýlishúsunum hans, með þeim orðum að ég skyldi kanna DanBolig. Aðeins lengra upp götuna lá DanBolig og þar mætti sami geltarfurinn, eða í það minnsta áþekkur þeim fyrri, og tók hann vel í að ég skyldi vera kominn inn á kontór til sín að kaupa mér hús. Þegar ég hafði útskýrt fyrir honum hvað ég vildi benti hann mér á NyBolig.

Að endingu tókst mér að veiða uppúr honum að til væri eitthvað sem héti Arbejdernes Andels Boligforening uppi á Langelandsgade. Sjálfsagt eru engir smurfróðar á svo öreigalegum kontór hugsaði ég, en hálfur uppí strætóinn hætti ég þó við að halda áfram þessari endaleysu og fór heim. Eftir allt vesenið reyndist að endingu einfaldast bara að gúgla þessu, en auðvitað datt mér það ekki í hug fyrr en ég hafði spurt þá ráðagóðu Bergdísi. Svona er ég nú gamaldags. En nú er ég að minnsta kosti 15 húsnæðisumsóknum ríkari.

Myndina á Niels M. Knudsen.

Eiturkoppar #2

Köngulóaparið hefur getið af sér pínulitla krúttikönguló sem kúrir nú í sturtuhorninu sem stóra parið dvaldist áður í. Stóra parið hefur hinsvegar flutt yfir klósettið og fylgist með öllum vessum sem ég læt frá mér þá leiðina.

Af öðru dýralífi hér, enda er ég svolítið skotinn í dýralífi almennt, má nefna héra sem ég sá skottast um í skógi hérna, dúfur sem eru álíka feitar og meðal tuborgdrekkandi verkamaður og geta þar af leiðandi ekki flogið, og svo ýmsir Danir, sem eru álíka feitir og meðal tuborgdrekkandi dúfur og geta þar af leiðandi ekki gengið. Broddgöltunum heyri ég í þótt ég sjái þá ekki.

Svo hef ég hitt hér nasjónalista og einn íhaldsmann sem datt íða með Geir Haarde einu sinni að eigin sögn. Það hljómar einsog að detta íða með excelskjali svo ekki öfunda ég hann neitt sérstaklega af því. Líklega er þessi síðastnefnda ein sjaldgæfasta dýrategundin sem ég hef séð hér í Danmörku til þessa. Lítið um íhald í háskólum hér einsog annarsstaðar.