Ég er ánægður með hvernig Gettu betur fer af stað í ár. Sú breyting að stokka upp víxlspurningarnar þannig að ekki komi tvær spurningar um sama efni í röð kemur vel út. Spurningarnar eru ekki of þungar nema þegar spurt er um sítt að aftan tímabilið sem ekki er hægt að ætlast til að nemendur þekki jafn vel og Davíð Þór. Sigmar tafsar enn á sumum spurningunum en það er bara eins og við er að búast í fyrstu keppnum.
Sterku liðin hvíla flest í fyrstu umferð. Liðin sem núna hafa keppt eru fæst líkleg til að gera neinar rósir. MK virðist vera með ágætt lið eins og oft áður. Mí skoraði líka hátt en líklegasta skýringin á því er lélegt stigaskor andstæðinganna, Iðnskólinn í Hafnarfirði jafnaði líklega stigamet í keppninni í þeirri viðureign, náði aðeins tveimur stigum. Mér leið hálf illa að hlusta á Hafnfirðingana sitja þarna og geta ekki svarað nema tveimur spurningum. Borgó keppir í kvöld. Það kæmi mér ekki á óvart að þar væri á ferðinni sterkasta liðið í 1. umferð.