Ég fór í dag á framboðsfund í fjölbraut á Skaganum. Þetta var fyrsti sameiginlegi framboðsfundurinn í Norðvesturkjördæmi og fannst mér margt mjög spennandi koma fram sem ég get smjattað á hér að einhverju leiti.
Kannski best að byrja á persónum og leikendum. Byrjum á stjórnarandstöðunni. Samfylkinguna túlkaði Guðbjartur Hannesson, fyrir hönd VG mætti Jón Bjarnason og Kristinn H. ákvað að vera Frjálslyndur í dag. Merkilegt nokk en fyrir 10 árum voru þessir menn allir saman í flokki. Sjálfstæðisflokkurinn sendi Sturlu Böðvarsson. Við þessa menn þurfti Valdimar Sigurjónsson að etja kappi og stóð sig mjög vel. Svör hans voru stutt og hnitmiðuð á meðan gömlu mennirnir töluðu út í hið óendanlega. Þannig gerir maður ekki á stjórnmálafundi í framhaldsskóla.
Kristinn lagði mesta áherslu á hvað margt væri ömurlegt hér á landi og að ríkisstjórnin hefði ekki forgangsraðað rétt. Nú veit ég ekki betur en að Kristinn hafi stutt flest stjórnarfrumvörp og þar á meðal fjárlagafrumvörp síðustu ára og greitt atkvæði gegn því sem hann berst nú fyrir. Það sér hver maður að hann er kominn í ansi óþægilega stöðu.
Sturla talaði um forystu Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum á síðustu áratugum og fór ansi langt í þeirri samtengingu. Hann hefur því bæst á græna lista Moggans yfir Sjálfstæðismenn sem hafa fjallað um umhverfismál „í ræðu og riti á síðustu mánuðum†eins og blaðið orðaði svo skemmtilega með með grænum fálka.
Það var flissað þegar Jón Bjarna var kynntur og fundarstjórinn þurfti að spyrja hvaða flokk hann tilheyrði aftur. Hann talaði um stofnun Háskóla á Akranesi en ég tapaði mjög fljótt þræðinum eftir að hann byrjaði að tala. Jón var kjarnyrtari í lokaorðunum sem voru bara nokkuð góð hjá honum.
Guðbjartur lagði áherslu á að Samfylkingin hafi ekki stutt stóriðjuuppbyggingu á síðustu árum, það væri verk ríkisstjórnarinnar. Vilji Samfylkingin ekki kannast við þá uppbyggingu sem farið hefur fram á Grundartanga og í kjölfarið á Akranesi og Borgarnesi þá er það bara þeirra mál (eða kannski vilja þeir bara kannast við sumt en sleppa öðru).
Þá er það Valdimar. Ég ætla núna að bregða mér í hlutverk hins óháða fréttamanns. Valdimar var stórgóður. Hann fjallaði um mennta-, íþrótta- og æskulýðsmál og nauðsyn þess að auka menntunarstig þjóðarinnar. Þá kom hann inn á mikilvægi þess að hlusta á ungt fólk og benti á að Framsókn ætti þrjá yngstu þingmenn þjóðarinnar.
Spurningarnar sem komu úr sal voru samt eiginlega það besta við fundinn. Sturla náði einhvern veginn að kenna Steingrími J. um gjaldtöku í Hvalfjarðagöngunum á enda hafi hann verið samgönguráðherra þegar göngin komu fyrst til umræðu. Engu að síður sagði hann vera fylgjandi því að fella niður gjaldið í göngin. Það hefur hann ekki sagt áður og hljóta að teljast tíðindi.
Spurt var hvers vegna Kristinn hafi gengið úr Framsóknarflokknum þar sem hann væri kominn of langt til hægri en gengið í flokk sem er enn lengra til hægri. Því svaraði Kristinn að hann hefði ekki áhuga á að tala um hægri eða vinstri þegar hann skilgreinir pólitíska landslagið. Þar hafið þið það. Eitthvað finnst mér þetta samt stinga í stúf við fyrri yfirlýsingar hans.
Þá voru stuttar umræður um bílprófsaldurinn. Valdimar kom réttilega inn á að það hefði mikil áhrif á ungt fólk á landsbyggðinni verði aldurinn hækkaður í 18 ár eins og umræður hafa verið uppi um. Það var auðvitað rætt um ýmislegt fleira í dag eins og landbúnað, starfsnámsbrautir, umhverfismál o.fl. En þetta var ágætur fundur þar sem mér fannst enginn af andstæðingunum skara fram úr.