Ég er miðjumaður utan af landi sem aðhyllist félagshyggju í bland við frjálslynt markaðshagskerfi. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking gætu myndað hægrisinnaðri ríkisstjórn en við höfum áður séð á íslandi, stjórn sem gegnur gegn þeim gildum sem ég aðhyllist. Sjálfstæðisflokkurinn gæti náð í gegn málum sem Framsókn hefði aldrei tekið í mál að samþykkja. Þá gæti galin landbúnaðarstefna Samfylkingarinnar komist í framkvæmd. Nú ætla ég ekki að vera svartsýnn en ég hef áhyggjur af nýrri ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar ef af verður.
Mér heyrist á óbreyttum kjósendum flokkanna að þar séu ekki allir par sáttir við þennan leik, sér í lagi stuðningsmenn Samfylkingarinnar. Þessi staða er þó eitthvað sem kjósendur hefðu átt að hugsa út í fyrir kosningar. Ingibjörg laug því þegar hún sagðist ætla vera borgarstjóri út síðasta kjörtímabil R-listans. Hún laug því líka þegar hún sagðist vilja mynda vinstri stjórn eftir þessar kosningar. Ég hélt því fram fyrir kosningar að markmið hennar væri að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki og er þess full viss að þreifingar milli flokkanna hafi hafist í vetur. Það sá maður á því hvernig öllu púðrinu var eytt á Framsókn í kosningabaráttunni á meðan Sjálfstæðisflokknum var hlíft.
Það er alltaf að hlutverk stjórnmálaflokka að leita leiða til að koma stefnu sinni í framkvæmd. Engu að síður lýstu Framsóknarmenn því yfir í kosningabaráttunni að fengi flokkurinn slæma útkomu í kosningunum færi hann ekki í ríkisstjórn. Það varð úr eins og tilkynnt var í dag. Hinir tveir flokkarnir í stjórnarandstöðu þjást af hluta báðir af ákveðnu framsóknarhatri. Linni því gæti náðst ágætis samvinna í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem hefur mikinn þingmeirihluta.
Einu velti ég þó fyrir mér eftir atburði dagsins. Ef hægt er að kaupa ákveðið magn af útstrikunum með nokkrum heilsíðu auglýsingum fyrir kosningar í dagblöðum, er þá hægt að panta sér ríkisstjórn með því að gefa út aukablað af DV í 100 þúsund eitökum með „réttum“ skilaboðum til kjósenda og dreifa því frítt í hús? Hvað ætli auðmennirnir séu svo tilbúnir að borga fyrir lagafrumvörpin sem koma frá óska ríkisstjórninni?