Það hvessti smá hér í Mosó þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og VG ákvað að fara út í framkvæmdir við Helgafellsbraut þrátt fyrir ítrekuð loforð græna flokksins fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar um að slíkt yrði alls ekki gert kæmist flokkurinn í meirihluta. í fundargerð bæjarstjórnar frá því á miðvikudag les ég eftirfarandi bókun:
Lögð var fram eftirfarandi bókun frá Marteini Magnússyni, Jónasi Sigurðssyni og Hönnu Bjartmars: “Við undirritaðir bæjarfulltrúar hörmum það að forseti bæjarstjórnar Karl Tómasson hafi ekki þegið boð okkar um að leggja fram afsökunarbeiðni vegna framkomu sinnar úr forsetastóli á 473. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 29. ágúst síðastliðinn. Með ummælum sínum úr forsetastóli brást hann hlutverki sínu. Ósk um formlega afsökunarbeiðni var sett fram svo trúnaður og virðing geti áfram ríkt á milli forseta bæjarstjórnar og allra bæjarfulltrúa.â€
Forsaga málsins ku vera sú að forseti bæjarstjórnar ofbauð viðstöddum með framkomu sinni á 473. fundi bæjarstjórnar. Þar á hann að hafa farið slíkum orðum um minnihluta bæjarstjórnar og frjáls félagasamtök í bænum að ekki er hafandi eftir. Viðstöddum var vægast sagt ofboðið. Verst var þó að þetta gerði hann í þegar búið var að loka mælendaskrá (hann var síðastur á mælendaskrá) og enginn fulltrúi minnihlutans gat svarað fyrir sig. Þar með fór hann heldur betur á svig við eðlileg fundarsköp. Við upphaf 474. fundar var honum boðið að biðjast afsökunar á orðum sínum og málið yrði þá látið niður falla. Hann var hins vegar ekki tilbúinn að verða við því og sáu þrír bæjarfulltrúar sér ekki annað fært en að setja fram ofangreinda bókun.