Þá eru kosningar í Danmörku að baki þar sem stjórnin hélt velli og Venstre, systurflokkur Framsóknarflokksins hélt velli sem stærsti flokkurinn á þingi. Talsvert hefur verið gert úr fylgistapi Radikale Venstre sem er annar systurflokkur Framsóknar. Mér finnst vera gert meira úr því en ástæða er til og eru nokkrar ástæður þar að baki. í fyrsta lagi fékk flokkurinn óvenju mikið fylgi 2005 út á stefnu ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum. Flokkurinn er núna í sínu „eðlilega“ fylgi. Þá er flokkurinn með nýjan leiðtoga sem kannski hefði þurft aðeins lengri tíma til að kynna sig auk þess sem Naser Khader gekk úr flokknum fyrr á þessu ári og stofnaði Nýja bandalagið. Sá flokkur náði ekki þeirri stöðu sem margir höfðu spáð, þ.e. að geta haft áhrif á ríkisstjórnarmyndun.
Sem forfallinn kosningafíkill hef ég reynt eftir fremsta megni að fylgjast með baráttunni úr fjarlægð og held að Danir hafi gert rétt með því að kjósa áframhaldandi borgaralega stjórn. Stjórnarandstaða sem að mestu samanstendur af vinstri flokkum virtist ósamstíga og koma sér saman um fátt annað en að láta Anders Fogh fara í taugarnar á sér.
Líkt og í norsku sveitastjórnarkosningunum í haust fór áhugaverður hluti baráttunnar fram á Facebook. Þar kepptust stjórnmálamenn um að eiga sem flesta vini. í stuttu máli sigraði Anders Fogh Rasmussen (Venstre) þá baráttu með 3834 vini. Helle Thorning-Schmidt (Jafnaðarmannaflokknum) á 3741 vin, Villy Sí¸yndal (Sósíalíska Þjóðarflokknum) 1755 stykki og loks á Margrethe Vestager (Radikale Venstre) 558 vini.