Sex, sjö ára gaf ég út ljóðabók. Eins og sannur íslendingur orti ég um náttúruna, veðrið, dýrin og eitthvað fleira. Seinna gaf ég síðan út dýrabók ásamt bekkjarsystur minni í grunnskóla. Ljóðabókin er líklega týnd og tröllum gefin en dýrabókin á að vera til einhversstaðar. Fleiri bækur hef ég ekki gefið út enda hefur heimsóknum skáldskapargyðjunnar til mín fækkað mjög á síðustu árum. Af þessum tveimur metnaðarfullu útgáfum held ég að ljóðabókin sé hápunktur ferils míns. Ég man eitt ljóð og er það svohljóðandi (lag: Afi minn og amma mín).
Kosið er í kosningum,
hver fær næst að ráða?
Davíð eða Steingrímur,
kjósum bara báða.
Þetta er ort 1991 um Davíð Oddsson og Steingrím Hermannsson. Ég hef þroskast mikið síðan ég var sex ára enda alveg hættur að mælast til þess að fólk kjósi Sjálfstæðisflokkinn.