Þó ég sé stundum bjartsýnn þá bjóst ég ekki við því þegar ég vaknaði í gær að ég ætti eftir að lifa þann dag er fimm leikmenn Aston Villa væru valdir í enska landsliðshópinn í knattspyrnu. Aðeins Man Utd á jafn marga leikmenn í hópnum. Sjaldan hefur mér liðið jafn vel sem Villamanni eins og nú. Liðið er í 5. sæti í deildinni og í hörkubaráttu um síðasta sætið í meistaradeildinni. Þá eru innanborðs margir skemmtilegir og efnilegir ungir leikmenn eins og valið á landsliðshópnum sýnir. Helsta áhyggjuefnið er hversu fámennur hópurinn er. Það hefði ekki verið vitlaust að mínu mati að taka upp veskið í leikmannaglugganum sem lokaði í gær. En liðið er á réttri leið og það skiptir öllu máli.