Það er komið að kosningum til Stúdentaráðs enn einu sinni. Ólíkt síðustu tveimur árum þar sem ég var sjálfur í hringiðu sirkussins hef ég ekki tekið þátt í honum í ár og lítið fylgst með baráttunni. Því verður ekki neitað að það var nokkuð sérstakt að fara í desemberprófin vitandi það að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af framboðsmálum að þeim loknum. Og viti menn. Ég er bara nokkuð sáttur með hvíldina frá stúdentapólitíkinni og hef nánast ekkert skipt mér af henni síðasta árið. En þar sem kosningarnar sem standa yfir í dag og á morgun til Stúdentaráðs eru afskaplega mikilvægar finn ég mig knúinn til þess að skrifa smá um þær.
Ólíkt undanförnum árum er Háskólalistinn ekki í framboði. Röskva og Vaka bítast því um hituna án þriðja framboðsins. En hvað skal gera þegar enginn er Háskólalistinn? Það eru fjórir möguleikar í boði.
1. Sleppa því að mæta á kjörstað. Með þessum kosti get ég ekki mælt. Það skiptir gífurlegu máli hverjir eru í forsvari fyrir stúdenta næsta árið. Ekki láta þá sem mæta á kjörstað ákveða það fyrir þig hverjir það verða.
2. Skila auðu. Það að mæta á kjörstað og skila auðu er afstaða í sjálfu sér. Þannig getur þú andmælt ríkjandi fyrirkomulagi á Stúdentaráði sem vissulega er furðulegt og bitnar helst á stúdentum sjálfum. Á móti kemur að þú lætur aðra um að kjósa fyrir þig forystusveitina þína næsta árið.
3. Kjósa Vöku. Hið gamla framboð hægri manna. Framboðið segist þó vera óháð pólitískum straumum og stefnum en er í alþjóðlegum samtökum hægrisinnaðra ungliðahreyfinga og fær stuðningsgreinar birtar á hægrisinnuðum vefritum. Hefur tekið upp stefnu fyrri leiðtoga síns og vill ekki að Hí sjái um rekstur bygginga skólans. Get alls ekki mælt með þessum kosti. Líklega hefði ég allt aðra afstöðu til Vöku ef fylkingin kæmi hreint fram og viðurkenndi hvar hún stendur í flokkapólitíska landslaginu.
4. Kjósa Röskvu. Rétt eins og Vaka er Röskva pólitískt afl. Munurinn á þeim systrum er hins vegar sá að sú síðarnefnda er hreinskilin og fer ekki í neinar grafgötur með afstöðu sína. Þá er það ljóst að Röskva fór ekki vel með vald sitt í Stúdentaráði þegar kom að mannaráðningum síðasta árið. Málið er bara að Vaka hefði gert það nákvæmlega sama og ráðið sitt fólk í lausar stöður.
Eftir nokkra yfirlegu hef ég komist að því að líklega er Röskva skásti kosturinn í kosningunum í ár. Annað hvort komast laumu hægrimenn til valda eða þá að Röskva heldur sínu. Það skal þó tekið fram að ég tel það miður að enn sé kosið á milli pólitískra fylkinga til Stúdentaráðs. Innan beggja fylkinga eru einstaklingar sem ég vildi gjarnan sjá í sameinuðu stúdentaráði. Sameinað Stúdentaráð Háskóla íslands er hins vegar aðeins draumur sem verður líklega ekki að veruleika á næstunni og rætist alls ekki á meðan systurnar eru aðeins tvær í framboði.