í dag heyrum við sjálfsagt í einhverjum býsnast yfir þeim erlendu áhrifum sem flæða yfir íslenskt samfélag. Þeir sem þenja sig vegna þessa mættu kannski benda okkur hinum á þá „íslensku“ siði og hátíðisdaga sem ekki eru fengnir erlendis frá. Þá verður fátt um svör. En í dag er sem sagt Valentínusardagurinn og gæti ég trúað að flestir héldu að dagurinn sé tiltölulega nýr í heimssögunni og amerískur markaðssetningardagur að uppruna. Aðrir giska kannski á að dagurinn eigi rætur sínar að rekja til kaþólsku kirkjunnar. Svo er hins vegar ekki. Að öllum líkindum má rekja daginn til Grikkja eða Rómverja sem dýrkuðu frjósemina um þetta leyti ársins. Lupercalia er t.d. rómversk hátíð haldin 15. febrúar ár hvert sem líklega er þekktust í dag fyrir unga fólkið sem hljóp nakið um götur borga. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvers vegna sá siður lagðist af.Â
Valentínusardagurinn í ár gæti samt orðið sérstakur þar sem verð á rósum er mjög hátt þessa stundina. Það er auðvitað alltaf sérstakt að Valentínusar-rósirnar eru ræktaðar eru á þeim tíma ársins er sólin er hvað lægst á lofti á norðurhveli jarðar. Þar af leiðandi þarf meiri orku til að framleiða hverja rós en ella. Við það bætist að ástandið í Kenýa sem er helsti útflytjandi rósa í heiminum er ekki gott um þessar mundir. Um 500 þúsund manns í Kenýa byggja lífsafkomu sína á blómaræktinni þar sem Valentínusardagurinn er stóri dagurinn. Rétt er að hafa í huga að margir verða að sætta sig við laun sem engan veginn teljast sanngjörn. Sem betur fer eru Vesturlandabúar að átta sig betur og betur á þeirri staðreynd og markaðurinn fyrir Fairtrade blóm stækkar stöðugt. Nú veit ég hreinlega ekki hvort hægt sé að kaupa Fairtrade rósir á íslandi en það sakar ekki að spyrjast fyrir um það. Síðan er auðvitað hægt að kaupa íslenska framleiðslu.