Eitthvað virðist það fara í taugarnar á formanni Samfylkingarinnar er fréttamenn vinna vinnuna sína og veita stjórnmálamönnum aðhald. Hún sýndi til dæmis á fádæma hroka í fréttatíma Stöðvar 2 í gær þar sem fréttamaður vogaði sér að spyrja hana hvort hún ætlaði að beita sér fyrir breytingum á lögum um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra á yfirstandandi þingi. Nú er ég eiginlega farinn að hallast að því að takmarkaður áhugi sé innan stjórnarflokkanna til þess að breyta lögunum. Það kæmi mér allavega ekki á óvart að Samfylkingin reyndi að draga lappirnar í málinu fram yfir 24. maí nk. Þá hefur núverandi ríkisstjórn setið í eitt ár og þeir ráðherrar sem nýir komu inn í stjórnina, þ.á.m. Ingibjörg Sólrún sjálf öðlast rétt til eftirlauna samkvæmt lögunum. Það er nefnilega þannig að ráðherra þarf að hafa setið í eitt ár til þess. Munum eftir þessu ætli einhver sér að halda upp á afmæli stjórnarinnar.