Ég fékk ósk mína uppfyllta í dag. í Reykjavík, nánar tiltekið á Laugardalsvelli sat ég á fremsta bekk og horfði á Aston Villa skora fjögur mörk gegn FH-ingum. Frá því ég var átta ára hefur mig langað til að sjá liðið mitt spila og bjóst ég svo sem ekki við því að það myndi gerast á íslandi. Leikur Villa liðsins var svo sem ekki neitt sérstakur. Þar sem Barry spilaði með fer hann líklega ekki til Liverpool og fögnum við því. Hann var heldur slakur í leiknum eins og reyndar flestir leikmenn Villa sem keyrðu yfir Hafnfirðinga án þess að þurfa hafa mikið fyrir því.
Við sem mættum í Villa treyjum í stúkuna vorum í miklum minnihluta. Það hefur hingað til ekki verið neitt sérstaklega vinsælt að halda með Aston Villa og hafa smáklúbbar eins og Manchester United, Liverpool, Arsenal og Chelsea heillað landann meira. Miðað við spilamennskuna sem Villa sýndi í kvöld er ég ekki viss um að aðdáendurnir hópist að liðinu og að við sem styðjum klúbbinn verðum áfram í minnihluta meðal íslenskra knattspyrnuáhugamanna. En aldrei að segja aldrei. Einn daginn gæti maður verið kominn í meirihluta án þess að vita af.