Ég hafði það af að fara í útilegu í sumar. Aðfaranótt laugardags gisti ég í ísbyrgi í góðum hópi eins og lesendur minna reglulegu mánudagspistla ættu að vita. ísbyrgi er magnaður staður og skammast maður sín hálfpartinn fyrir það hversu sjaldan maður hefur komið þangað. Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi gefa manni hins vegar ástæðu til að heimsækja staðinn einu sinni á ári.
Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hlustaði á sama Whitney Houston lagið sem og norska eurovisionlagið á meðan ferðinni stóð. Fyrra lagið var fyrsta lagið á eina geisladisknum sem fannst í bílnum en það seinna virðist vera eina lagið sem Bylgjan spilar um helgar. Næst verður reynt að raða þannig í bílinn að fleiri diskar komist með þó það sé alveg spurning hver þurfi á tónlist að halda þegar maður hefur skemmtilega ferðafélaga eins og ég í þessari ferð.
Líklega heimsótti ég hinn eina sanna Staðarskála í síðasta sinn á föstudaginn þar sem nýr skáli opnar fljótlega nokkuð sunnan við þann gamla. Þá heimsótti ég Reðursafnið á Húsavík í gær og varð fyrir nokkrum vonbrigðum. Efniviðurinn er í sjálfu sér áhugaverður en miðlunina mætti bæta mikið. Líklega er skorti á fjármagni um að kenna að það hefur ekki verið gert.