Ekki vissi ég fyrr en um helgina að til væri Evrópumót í hafnabolta. Að spila hafnabolta í Evrópu er örugglega svipað því að spila handbolta í Ameríku. En eftir að hafa dottið inn á beina útsendingu frá mótinu á Eurosport komst ég að því að Holland og ítalía eru bestu hafnaboltaþjóðir álfunnar í gegn um tíðina. ítölum gekk reyndar illa í ár og lentu í 4. sæti. Það hefur aðeins tvisvar sinnum komið fyrir að aðrar þjóðir hafi slysast til að vinna mótið, Belgía og Spánn. Síðast gerðist það fyrir 40 árum. Ég sá brot úr leik Svía og Spánverja á sunnudaginn. Svíar eru bestir Norðurlandaþjóða í hafnabolta og enduðu í 6. sæti á mótinu. Norðmenn hafa líka lið en eru mjög lélegir og komust ekki í úrslitakeppnina. Er þetta ekki íþrótt sem íslendingar gætu farið að æfa og jafnvel komist í úrslitakeppni stórmóts (þá er ég meina ólympíuleika þar sem Evrópukeppni telst varla stórmót)?