í nokkur ár starfaði ég í Kaupfélagi Borgfirðinga á sumrin og með skóla. Eftir að ég hætti í Kaupfélaginu starfaði ég um helgar eitt sumar í Bónus. Þegar Kaupfélagið rak enn verslun í sínu nafni voru til heittrúaðir samvinnumenn og konur sem ekki stigu fæti inn í Bónus (eða sögðust ekki gera það). Aðrir vildu einfaldlega ekki versla við utanbæjarfólk. Sumarið sem ég vann í Bónus var verslun Kaupfélagsins orðin hluti af Samkaupum. Mér þótti það skondið að sjá nokkra fyrrum heittrúaða „heimamenn“ læðast meðfram veggjum þegar inn í Bónus var komið. Skemmtilegri þóttu mér þó viðbrögðin þegar þetta fólk sá mig í bol merktum Bónus, samvinnumannin sjálfan. Ég hef ekki trú á því að margir Borgnesingar hugsi svona í dag. Ótrúlegt hvað svona samfélagsbreytingar taka stuttan tíma.
En eðli málsins samkvæmt voru starfshættirnir í þessum tveimur verslunum mjög ólíkir. í–nnur verslunin var lágvöruverslun á meðan hin gaf sig út fyrir að vera með fjölbreytt vöruúrval og þjónustu. Kaupfélagið reyndi þó eftir megni að halda í við lágvöruverðsverslanirnar og tókst það á köflum ágætlega. Einhvern föstudaginn tók t.d. Bónus upp á því að auglýsa í öllum blöðum tveggja lítra kók á að mig minnir 89 kr. Kaupfélagið setti þá auglýsingu í útvarpið og bauð kókið á að mig minnir tíu eða tuttugu krónum lægra verði. Fyrir Kaupfélagið var þetta ekki svo mikið mál þar sem aðeins var um að ræða eitt eða tvö bretti sem voru í boði. Bónus þurfti hins vegar að lækka verðið hjá sér í öllum verslunum niður fyrir litlu verslunina í Borgarnesi.
Ég hef ekki hugmynd um hvort eitthvað sé rétt í þeim fjölmörgu sögum sem ganga í verslunargeiranum af starfsháttum Bónus. Eitt kom mér þó á óvart þegar ég vann í Bónus, þ.e. verðbreytingar sem áttu sér stað á laugardagsmorgnum, oftast þá hækkanir. Mér fannst það í sjálfu sér ekki neitt óeðlilegt að verðið skyldi hækka, en tímasetningin þótti mér athyglisverð. Þangað til í gær hafði ég lítið pælt í þessu en kannski hef ég fengið nú fengið skýringu á því hvers vegna verðbreytingar voru keyrðar í gegn á laugardagsmorgnum.