Jæja, þá er komið að hinu árlega jólaundirbúningsnöldri mínu sem er að þessu sinni einni og hálfri viku fyrr á ferðinni en í fyrra. Starfsfólk verslana hamast nú við að skreyta þannig að allt skraut verði alveg örugglega komið upp fyrir jól, út um allan bæ er verið að koma upp jólatrjám, jólavörurnar eru komnar í verslanir, jólakókómjólkin fæst nú í Háskólanum, jólagjafaóskalistar eru farnir að berast í Mosfellsbæinn og Rás 2 spilaði fyrsta jólalagið í gær.
Persónulega finnst mér markaðsöflin í samfélaginu vera farin að misnota jólin hálfpartinn þegar auglýsingaherferðir og markaðsstarf hefst jafn snemma og raun ber vitni. Það er í mannlegu eðli að halda hátíðir, fagna og gleðjast saman. Við skulum líka gera það og minnast þess að jólin eru ekki árstíð heldur einmitt hátíð, ekki í næstu viku heldur í seinni hluta desember, nánar tiltekið eftir 50 daga! Norskir skoðanabræður og -systur stofnuðu fyrir nokkrum árum samtökin Gi oss jula tilbake. Kannski er þörf á sambærilegum samtökum hérlendis?
Ykkar einlægur,
Eggert Grinch