Fyrir seinni heimsstyrjöld var Dr. Adam Rutherford vinsæll maður hér á landi. Hann hafði rannsakað pýramídann mikla við Giza og taldi að hann hefði að geyma mikla spádóma. Það sem vakti þó mesta athygli íslendinga voru kenningar hans um að íslenska þjóðin væri komin af Benjamítum, einni af týndum ættkvíslum hinna fornu ísraela. Verndarar þeirra voru m.a. þeir sömu og finna má í íslenska skjaldamerkinu.
Nú er ítalinn Giancarlo Gianazza kominn í fréttirnar á Stöð 2 þar sem hann telur sig hafa lesið út úr málverkum Botticelli og Leonardo DaVinci að finna megi hinn heilaga gral í leynilegri hvelfingu við Kjalveg. Ég leyfi mér að efast um að musterisriddararnir hafi á ófriðartíma í Evrópu flutt dýrmæta gripi til íslands þar sem ríkti „tímaskeið friðar“ sem seinna fékk nafnið Sturlungaöld.