Sé hægt að skilgreina allt út frá andstæðu sinni má segja sem svo að ef til sé dyggð er til löstur. Dyggðin er eins og svo oft áður mitt á milli tveggja öfga. Umburðarlyndi er þannig dyggð, mitt á milli umburðarleysis og þýlyndis. Hér stendur ekki til að fara ýfa upp deilur sem búið er að salta en sú spurning hefur leitað á mig í vetur hvort íslenskt þjóðfélag þjáist af alvarlegum skorti á umburðarlyndi. Þetta segi ég eftir að hafa fylgst með umræðum vetrarins í samfélaginu og bloggheimum t.d. um femínisma, trúmál og ákveðna stjórnmálamenn og -flokka. Mörg umræðan fer fram á málefnalegum nótum en svörtu sauðirnir skyggja á og finnst mér þeim vera að fjölga sem sýna af sér fullkominn skort á skilningi gagnvart skoðunum náungans og hafa uppi ónærgætin gífuryrði.
Það kann reyndar vel að vera að með tilkomu Moggabloggsins hafi þessi hópur fólks orðið meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Það er í dag helsti vettvangur kaffihúsaspekinga og minnipokanöldrara landsins. Margir sem skrifuðu á málefnin.com tóku upp á því að blogga þar enda þráðu þeir fátt meir en athyglina. Ein leið til að ná athygli virðist vera að hafa uppi gífuryrði í öllum málum. Á síðustu mánuðum hafa stjórnendur Moggabloggsins síðan reynt að hvetja fólk til að nota bloggið sem umræðuvettvang. Bloggmenningin á íslandi er hins vegar svo ósiðmenntuð að enn skrifa menn undir dulnefni til þess að geta att náungann við hlið sér auri. Það er því ekki nema von að loka þurfi bloggsíðum fyrir athugasemdum sem er miður.
Sem betur fer erum við ekki öll steypt í sama mótið. Við fæðumst í öllum stærðum og gerðum og verðum að sætta okkur við það að einhver sé öðruvísi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þeir sem eru öðruvísi, þeir sem hafa aðrar skoðanir en við eiga skilið að við sýnum þeim skilning. Við hlustum þó við séum ekki sammála. Oft er niðurstaðan að sýnin á lífið er ólík. Þá sættum við okkur við það og höldum okkar striki. Þeir sem geta ekki umborið þá staðreynd að einhver sé ekki sammála þeim ættu að skoða sinn gang. Það er sæmd af því að sætta sig við að við fáum ekki öllu breytt.
Við þurfum að bera virðingu fyrir þeim rétti fólks að geta myndað sér sjálfstæða skoðun á eigin forsendum. Frumforsenda þess að einstaklingurinn myndi sér sjálfstæða skoðun er málefnaleg umræða. Ekki gagnrýna ómálefnalega, kvarta eða dæma aðra bara fyrir það eitt að vera öðruvísi. Horfum fram hjá því sem okkur geðjast ekki að í fari annarra með góðvild og kærleika í huga. Þá munum við verða hæfari til að takast á við erfiðar aðstæður, vaxa og þroskast. Þá munu fleiri taka mark á okkur.
Sumir eru þannig gerðir að ekkert má vera á skjön við þeirra væntingar og vilja. Umburðarlyndi felst einnig í því að hlusta á málefnalega gagnrýni annarra. Engar skoðannir eru svo heilagar að ekki megi hreyfa við þeim. „Sá sem ekki þorir að efast verður sjálfsagt aldrei annað en þröngsýnn kreddumaður. Sá sem aldrei þorir að trúa neinu verður líklega stefnulaus vingull sem kemur fáu góðu til leiðar.“ þannig komst Atli Harðarson, stærðfræðikennarinn minn úr fjölbraut eitt sinn að orði. Sumir eru trúaðir á meðan aðrir efast og þurfum við að sætta okkur við þá staðreynd hvort sem okkur líkar betur eða verr.
í–ll þurfum við að temja okkur umburðarlyndi enda er hvort tveggja umburðarleysi og þýlindi umheiminum skaðlegir öfgar. Milljónir manna í heiminum þjást dag hvern vegna þessa og eru birtingarmyndirnar óheflað ofbeldi, þjáningar og dauði. Óttinn er uppspretta fordóma og umburðarleysis og ætti það því ekki að finnast í menntuðu og upplýstu samfélagi eins okkar. Til þess að losna við þennan fjanda úr íslensku samfélagi þarf fræðslu. Nám í umburðarlyndi hefst á unga aldri og gegna foreldrar þar mikilvægu hlutverki sem uppalendur. Þar er ekki nóg að tala um hlutina heldur þurfum við að sýna það með aðgerðum okkar og viðhorfum.
Mikilvægast er þó að muna að ræktun umburðarlyndis hefst í garðinum heima. Temjum okkur þá dyggð og berum virðingu fyrir skoðunum annarra í málefnalegum umræðum.