Þar sem ég kemst ekki á þorrablót íslenskra þjóðfræðinema í ár þurfti ég að leita annað til þess að verða mér úti um góðan mat og skemmtunina sem honum fylgir. Ég fór því á þorrablót íslendingafélagsins í írósum í gær og kom í ljós að það reyndist bara vera hin besta skemmtun. Á blótið fór ég í góðum hópi íslendinga ásamt einum Færeying og Dana. Meðleigjendur mínir voru eitthvað hálf skeptískir á að maturinn myndi bragðast eins vel og ég hafði lýst honum og sátu því eftir heima. Hluti þeirra hefur reyndar lofað mér að smakka hákarl ef ég get orðið mér úti um hann. En maturinn í gær var betri en ég hafði lýst honum og þorað að gera mér í hugalund enda kannski ekki skrýtið þegar kokkurinn er Borgnesingur og meirihluti undirbúningsnefndarinnar einnig. Reyndar hafði ég áhyggjur af því hvort Borgarnes væri mannlaust í gær, svo marga Borgnesinga hitti ég.
Blótið gekk nokkuð eðlilega fyrir sig, matur, veislustjóri, happadrætti og ball. Nokkrir vinninganna í happadrættinu voru sérstaklega skemmtilegir. Þetta er t.d. í fyrsta sinn sem ég sé fólk hamingjusamt með að vinna Gunnars mayonnaise eða Ora fiskibollur í happadrætti. Að sjálfsögðu voru fleiri vinningar í boði svo sem Undri tjöruhreinsir, íslenskt áfengi og ferðavinningar. Þrátt fyrir aftakaveður á íslandi komust Edda Björgvins og í móti sól komust til Danmerkur. Mér skilst reyndar að þar hafi litlu mátt muna. En kvöldið var skemmtilegt, reyndar eins og dvölin mín hér til þessa. Verst að ég gleymdi Tupperware boxinu heima því nú langar mig í meira slátur.