Um helgina var talað og skrifað afskaplega vel um arfleið stjórnmálaleiðtoga sem aldrei tilheyrði Sjálfstæðisflokknum. Þetta fór afskaplega illa í hið „frjálsa“ og „óháða“ Morgunblað eins og sjá má á Staksteinum í dag.
Þjóðarsáttin var að sjálfsögðu ekki verk eins manns eða tveggja og held ég að enginn haldi öðru fram. Að henni komu margir aðilar m.a. samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélög og ekki síst bændur sem oft virðast gleymast í umræðunni um samningana 1990. Stór hluti þjóðfélagsins lagði í raun sitt að mörkum til þess að kippa þjóðinni upp úr vítahring óðaverðbólgu, gengisfellinga og óstöðugleika.
Birgir Guðmundsson, lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri kom inn á þátt Steingríms í þjóðarsáttinni á málþinginu í gær sem Mogginn vill gera lítið úr. Talaði hann um Steingrím sem brúarsmið sem kunni þá kúnst að byggja brýr milli manna og flokka. Honum tókst að byggja brú milli leiðtoga vinnuveitenda og launþega. Þá þurfti öflugan leiðtoga til þess að koma í gegn umdeildum pólitískum ákvörðunum sem voru forsenda sáttarinnar. Það tókst Steingrími. Steingrími tókst líka að eigna öðrum vel unnin verk og deila út hrósi til samstarfsmanna og andstæðinga, eitthvað sem margur stjórnmálamaðurinn hefur farið flatt á.
Margir Sjálfstæðismenn hafa löngum gert lítið úr þjóðarsáttinni þrátt fyrir að öflugur hópur innan flokksins hafi átt þátt í henni. ístæðan er líklega sú að á þessum tíma sat ríkisstjórn vinstri- og miðjuflokka undir forystu Framsóknarflokksins. Þannig studdi Sjálfstæðisflokkurinn ekki bráðabirgðalög sem sett voru á launahækkanir til félagsmanna BHMR. Svo fór að félagar þar fengu á endanum sömu launahækkanir og aðrir en vildu meira. Hefðu þessi lög ekki verið sett hefði þjóðarsáttin farið fyrir lítið.
Sjálfur er ég ekki í nokkrum vafa um að Steingrímur á í fyllingu tímans eftir að fá það hrós sem hann á skilið fyrir þjóðarsáttina 1990. Það verður samt varla fyrr en eftir mörg ár þegar hægt verður að líta sanngjörnum augum á feril hans.
Ég held líka að hann eigi eftir að fá síðbúið hrós fyrir stefnu sína í umhverfismálum sem þótti framsækin á sínum tíma. Hann barði það nánast í gegn að hér yrði stofnað umhverfisráðuneyti sem áður hafði verið skúffa í Félagsmálaráðuneytinu. Hann talaði fyrir alþjóðasamningum um loftlagsmál þegar áhuginn á þeim málaflokki var lítill, fékk Bandaríkjamenn til að hugsa sig tvisvar um hvaða úrgangi þeir hentu í hafið og hefur unnið ötullega að landgræðslu hér heima.Â