Robert L. May var ósköp venjulegur starfsmaður í stórverslun árið 1939 þegar hann samdi kvæði sem hann kallaði „Rudolph the Red-Nosed Reindeer“. Þessi jól var kvæðið selt í 2,5 milljónum eintaka. Milljónir í viðbótu áttu eftir að fá eintak af kvæðinu þegar það var gefið út á ný árið 1946 og enn fleiri hafa kynnst því í gegnum sjónvarpsþætti og sönglagatexta. Með vinsældum kvæðisins tengdi Robert hreindýrin og jólin órjúfanlegum böndum.
Hreindýrin höfðu svo sem áður verið tengd jólunum. Þannig segir kvæðinu „A Visit from St. Nicholas“ sem gefið var út af ókunnum höfundi 1823 að St. Nicholas (forveri St. Claus) ferðist um á sleða sem dreginn er áfram af átta hreindýrum. Ekkert þeirra heitir reyndar Rúdolf en í kvæðinu heita dýrin Dasher, Dancer, Prancer, Vixen, Comet, Cupid, Donder and Blitzen. í þýsku merkir blitzen elding og í hollensku merkir donder þruma. Þessar orðsifjapælilngar fengu mig til að fabúlera aðeins.
Mér vitanlega voru hreindýr ekki tengd við jólin í Norður Evrópu framan af þó svo vissulega hafi það breyst á síðustu árum og áratugum. Þar var hátíðin miklu frekar tengd við geitur og óttuðust skandínavísk börn lengi jólageitina. Á leiðinni til íslands breyttist jólageitin í jólakött enda voru geitur sjaldséð sjón á íslandi. En við höfum dæmi um það úr heiðinni trú að geitur dragi vagn Þórs. Kem ég þá aftur að Blitzen og Donder en Þór var einmitt þrumuguð. Ég hef ekki kannað hvort einhver tengsl eru þarna á milli og það þarf alls ekki að vera en mér finnst þetta engu að síður skemmtilegar pælingar.
Þá kem ég aftur að því sem ég byrjaði á. Gefum okkur það að jólasveinninn ferðist um fljúgandi sleða sem dreginn er áfram af hreindýrum og eitt þeirra heiti Rúdolf. Þessi Rúdolf hefur í mörgum bókum verið teiknaður og myndaður með horn. Ef við segjum að Rúdolf sé með horn er mjög ólíklegt að hann sé fullvaxinn og karlkyns. Nánast öll þroskuð karlkyns hreindýr missa nefnilega horn sín í byrjun desember. Þannig að feiti rauði ameríski jólasveinninn er dreginn áfram af barnungum eða kvenkyns hreindýrum!
Með þessum orðum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla!