Ég skrifaði grein í Moggann í gær. Seinni partinn í dag fékk ég síðan ábendingu um að hlusta á Morgunvaktina í morgun. Og viti menn, Sveinn Helgason vitnar í greinina í þessum pistli. Mikið er gott að hafa góða Borgnesinga sem vakta Rás 1 fyrir mig.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2006
Skólagjaldaumræða á Alþingi
„En það kemur að sjálfsögðu til greina að veita heimildir til skólagjaldstöku á einhverja tilteknar námsgreinar eða framhaldsnám að því uppfylltu að það sé lánað fyrir náminu og jafnræðis til náms þannig að fullu framfylgt“.
Þetta er tekið orðrétt upp úr ræðu á Alþingi í síðustu viku. Hér er ekki þingmaður Sjálfstæðisflokksins að tala heldur fulltrúi Samfylkingarinnar í menntamálanefnd þingsins og fyrsti maður á lista flokksins í Suðurkjördæmi.
Það er fráleitt að halda því fram að jafnræði til náms sé tryggt með því að LíN láni bara fyrir skólagjöldunum. Er Samfylkingin sem sagt núna opin fyrir því að taka upp skólagjöld við Háskóla íslands?
Borgfirsk martargerð
Tími jólahlaðborðanna er byrjaður. Fyrir þjóðfræðinga er áhugavert að skoða það sem í boði er á hlaðborðunum, reyktir strútar, fylltir krókódílar, kæstir fílar og fleira og fleira. Kokkar keppast um að bjóða upp á sem sérstæðustu réttina og vekja þannig athygli fjölmiðla. Ég held samt að erfitt verði að toppa Borgnesinga í furðulegri matargerð í ár. Ef þið viljið prófa réttinn heima þá fylgir uppskriftin með.
Utan þjónustusvæðis
Síðasta kennsluvika ársins að hefjast og meira en nóg að gera í verkefnaskilum. Tvö verkefni fyrir fimmtudaginn og annað sem ég þyrfti að skila sem fyrst. Auðvitað átti maður að vera búinn að þessu fyrir löngu en stundum eyðir maður tímanum í annað en skynsamlegt þykir. Mitt allra síðasta próf í BA náminu er síðan 13. desember (þ.e.a.s. ef ég tek ekki upp á því að falla). Eftir áramót þarf ég síðan bara að skrifa þrjár ritgerðir. En jólafríið byrjar snemma, langt síðan ég eyddi ekki afmælisdeginum í lærdóm.
Svell er á gnípu, eldur geisar undir
Enn á ný eru Vaka og Röskva komnar í hár saman. Ef marka má fréttabréf fylkinganna í vikunni logar meirihluti Stúdentaráðs í illdeilum. í Röskvufréttum segir m.a.:
Forsenda áframhaldandi samstarfs fylkinganna hlýtur að vera að Vökuliðar víkki sjóndeildarhringinn og standi ekki í vegi Röskvu þegar þarf að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.
Hvað nú ef Vökuliðar víkka ekki sjóndeildarhringinn, ætlar Röskva þá að slíta samstarfinu? Sé svarið já, hvað þá? Er þetta innantóm hótun eða liggur eitthvað að baki?
Og eitt enn. Vaka vill skoða hugmynd Jarþrúðar að selja byggingar Hí til að leysa fjárhagsvanda skólans.
Drykkjarhornið verður krúsidúlla
Drykkjarhornið og fjaðurpenninn hafa verið í merki Borgarness og seinna Borgarbyggðar frá því ég man eftir mér. Núna er allt breytt. Eftir sameiningu yfir tvö sýslumörk þurfti að skipta um merki og hver var útkoman? Einhver flétta sem hver má túlka fyrir sig. Mín skoðun er að byggðamerki eigi almennt að tengjast sögu eða menningu svæða á einhvern hátt.
Nýja merkið er alls ekki ljótt, það er stílhreint og flott en gæti verið tákn hvaða sveitarfélags sem er á íslandi. Það hefur enga sérstaka skýrskotun í Borgarfjörðinn eða á Mýrarnar. Einhverjir segja að útúr krúsidúllunni megi sjá Hvítárbrúnna, Baulu, Eiríksjökul, Hafnarfjall, Skessuhorn, samheldni og samvinnu íbúa og styrk sveitarfélagsins. Það sem mér finnst hins vegar best úr umsögn dómnefndar er þar sem segir að út úr merkinu megi sjá „hvernig framvinda mála veltur á þátttöku einstaklinganna“. Ef einhver sér það út úr merkinu er sá hinn sami kominn í aðeins of djúpar pælingar.
Fundurinn
Ekkert nöldur núna. Fundurinn tókst mjög vel og var fyrsta frétt í tíu fréttum. Frummælendurnir voru frábærir og á eftir sköpuðust góðar umræður. Ég geri líklega betur grein fyrir kvöldinu á öðrum vettvangi fljótlega.
Flottu staðirnir og prófkjör
Ásíðustu viku hef ég farið á alla helstu staði landsins. Um síðustu helgi skoðaði ég Sandgerði og Keflavík. Áþriðjudaginn var ég í Borgarnesi. Helginni eyddi ég síðan í Vík í Mýrdal í góðum hópi ungra framsóknarmanna.
Ég hef lítið um niðurstöður prófkjara helgarinnar að segja. Maggi sigraði örugglega hjá Framsókn. Bæði Herdís og Valdimar fengu glimrandi kosningu. Sjálfstæðismenn stilla síðan upp sama liðinu og síðast. Herdís er eins og staðan er í dag sú kona sem líklegust er til að komast á þing í Norðvesturkjördæmi. Pælið í því, bara ein kona í kjördæminu sem er í líklegu þingsæti!
Ég verð hér annað kvöld og hvet þig til að koma líka.
Nafnleysi
Nú er það þannig að ég kem fram undir nafni og ætlast til þess að aðrir geri það sama. Þeir sem ekki nenna að fylgja þeim reglum mega búast við því að kommentum þeirra verði eytt.
Spennan magnast
Ég hef ekki farið leynt með stuðning minn við Herdísi og Valdimar í póstkosningu okkar framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi. Þeir Framsóknarmenn sem eiga eftir að kjósa eru minntir á að skilafrestur atkvæðaseðla rennur út klukkan átta í kvöld.
Kristinn H. hefur verið duglegastur að auglýsa. Held að ég sé kominn með fjóra bæklinga og bréf frá honum auk þess sem hann auglýsti í útvarpi og á netinu. Aðrir auglýstu minna og sumir ekki neitt.
Spáin er tilbúinn eftir samtöl við góða menn og konur á síðustu dögum og vikum.
1. Magnús Stefánsson
2. Herdís Sæmundardóttir
3. Valdimar Sigurjónsson
4. Kristinn H Gunnarsson
5. Inga Ósk Jónsdóttir
Hvort ég verð sannspár eða ekki kemur í ljós í kvöld.