Eins og staðan er í dag er Mosfellsbær fjölmennasta sveitarfélag landsins sem ekki hefur framhaldsskóla. Vonandi verður ekki langt að bíða þar til slíkur skóli rísi hér í miðbænum. Undirbúningurinn er kominn á fullt og er tíminn þessa dagana notaður til þess að funda með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í bænum. Áfundunum skila flokkarnir inn sínum hugmyndum um stefnu skólans, mögulegar námsleiðir og staðsetningu. Það var áhugavert að heyra eftir fundinn með okkur Framsóknarmönnum í gær hversu samstíga flokkarnir virðast vera eftir að hafa unnið tillögurnar hver í sínu horni. Við gætum séð skóla á svæðinu sem er einstakur á landsvísu hvað varðar kennsluhætti og býður upp á spennandi námsframboð sem ekki er í boði annarsstaðar, byggt á styrkleikum Mosfellssveitar félagslega og atvinnulega, auðlindum og sögu.