Það vekur furðu mína að á 1. desember hátíðarhöldum Stúdentaráðs Hí í ár koma ekki til með að sitja fyrir svörum fulltrúar úr menntamálanefnd Alþingis eins og undanfarin ár. Einmitt nú hefði verið sérstaklega spennandi að krefja fulltrúa Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks efnda enda engin smá loforð sem gefin hafa verið háskólastúdentum síðustu ár. Ég velti því fyrir mér hvort breyting hafi orðið á vegna þess að Samfylkingin er komin í ríkisstjórn eða eru breytingar eftir ríkisstjórnarskipti bara tilviljun?
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2007
Með hetjur á heilanum
í tilefni af síðustu verkefnaskilum annarinnar greip ég í eina jólabók eftir skóla í dag. Fyrir valinu varð bókin Með hetjur á heilanum eftir Guðjón Ragnar Jónsson. Nokkuð langt er síðan ég las barnabók síðast en kannski ætti ég að gera meira af því, svo vel lifði ég mig inní umhverfi bókarinnar. Ég var meir að segja hálf pirraður þegar ég var búinn að koma mér vel fyrir í sófanum og síminn truflaði mig.
Sagan endurspeglar vel þær breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi síðustu hundrað ár og þá þróun sem nú á sér stað til sveita. Bókin er uppfull af fróðleik um þjóðfélagið, söguna og íslenska þjóðfræði auk þess að innihalda jákvæð skilaboð um jafnrétti, misnotkun áfengis og önnur vandamál unglingsáranna. Ég get mælt með þessari og býð spenntur eftir næstu bók Guðjóns.
Tölvuviðskipti
Tölvan mín sem fylgt hefur mér í gegn um háskólanámið gafst upp síðustu nótt. Svo sannarlega er þetta ekki besti tíminn fyrir svona lagað enda þarf ég að koma frá mér tveimur nokkuð stórum verkefnum á morgun. Fyrir rúmlega 7000 kr. fékk ég að vita að ekki borgaði sig að gera við hana. Dagurinn í dag fór því í að gráta þennan fyrrum vinnufélaga og leita að nýjum. Strax í morgun skoðaði ég heimasíðu EJS þar sem í boði var tölva á 110 þús. í kjölfarið ákvað ég að skoða hana betur. í versluninni fékk ég þær upplýsingar að hún væri nú á tilboði, 99.900 kr. Þetta var náttúrulega bara betra fyrir mig en samt ákvað ég að skoða fleiri tölvur. Þegar ég kem aftur þremur klukkutímum síðar segir sölumaðurinn mér frá nokkrum eintökum á 89.900 kr. Hvort sem ég hef lent á verðkönnunartölvu eða ekki þá ég kominn með nýjan vinnufélaga sem vonandi verður mér innan handar næstu árin.
Moggavefurinn
Nýr moggavefur virðist venjast fljótt. Ótvíræð framför hjá moggafólkinu er að bloggið tengt fréttunum er ekki jafn áberandi og áður.
Húsnæðismál, vegagerð og ljósastaurar
Ungt framsóknarfólk hefur miklar áhyggjur af þeirri alvarlegu stöðu sem nú er komin upp á fasteignamarkaði og samþykkti svohljóðandi ályktun á þriðjudaginn.
Stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu mála á húsnæðismarkaði.
Verðmyndun á markaðnum sem og aðstæður á lánamarkaði gera það nú að verkum að ungu fólki er nánast ómögulegt að eignast sína fyrstu íbúð. Þá er leigumarkaðurinn ekki valkostur til lengri tíma enda leiguverð á íbúðarhúsnæði nú einnig í sögulegu hámarki.
Ungt fólk krefst raunverulegra aðgerða af hálfu stjórnvalda, enda ekki boðlegt að einu viðbrögð forsætisráðherra þjóðarinnar, séu að segja fólki að kaupa sér ekki húsnæði. Þörf fólks fyrir húsnæði hverfur ekki þó forsætisráðherra kunni að óska sér þess.
Stjórnvöld verða að stemma stigu við villtum dansi bankanna á markaðnum og standa vörð um íbúðalánasjóð sem tryggir aðgang allra landsmanna að ódýru lánsfé, óháð búsetu.
Aðalfundur Félags ungra framsóknarmanna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu fór síðan fram í fyrrakvöld og lét ég þar af formennsku í félaginu sem ég tók við fyrir tveimur árum. Heiðar Lind tók við formennskunni og er ég þess fullviss að hann standi sig vel. Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun.
Aðalfundur Félags ungra framsóknarmanna í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu vill minna meirihluta sveitastjórnar Borgarbyggðar á að kjörtímabil hans er senn hálfnað og auglýsir eftir efndum á kosningaloforðum flokkanna sem að honum standa. Sjálfstæðisflokkur og Borgarlistinn sem starfa saman í meirihluta lofuðu t.d. stórauknu fjármagni í umhverfis- og vegamál fyrir síðustu kosningar en lítið virðist hafa gerst í þeim málum. Nauðsynlegt er að ráðast í stórfellt átak í gerð göngustíga, lagfæringu gatna í þéttbýli og knýja fram aukið fjármagn til viðhalds á tengi- og safnvegum í dreifbýli.
Þá fagnar fundurinn þeirri ákvörðun sveitastjórnar að styðja tillögu sveitastjórnarfulltrúa Framsóknarflokksins og taka til endurskoðunar reglur um lýsingu utan þéttbýlis.
Spurt og svarað
Spurt er hvort verið sé að stofna nýjan Háskólalista? Því er til að svara að ég er ekki að stofna nýjan Háskólalista.
Spurt er hvort Háskólalistinn bjóði fram að í næstu Stúdentaráðskosningum? Því er til að svara að það hefur verið rætt en engin ákvörðun hefur verið tekin þar að lútandi.
Spurt er hvort hið nýja miðjufélag ætli sér að bjóða fram til Stúdentaráðs? Því er til að svara engin ákvörðun hefur verið tekin þar að lútandi enda er það félagsmanna hverju sinni að ákveða framtíð félagsins.
Spurt er hvort ég sé genginn í Röskvu? Því er til að svara að ég er hvorki genginn í Röskvu né Vöku en finnst spurningin skemmtileg.
Ný kynslóð samvinnufólks
Núna á föstudaginn klukkan 12:00 verður haldinn í stofu 050 í Aðalbyggingu Háskóla íslands stofnfundur félags áhugafólks um miðjustefnu. Félaginu er ætlað að halda uppi upplýstri umræðu um miðjustefnu innan háskólasamfélagsins, m.a. með fyrirlestrum, námskeiðum og útgáfustarfsemi.
Allir þeir sem eru viðloðandi háskólasamfélagið á einhvern hátt eru velkomnir á fundinn.
ítta milljarða króna munur?
Vísir spyr hvað Landsbankinn fékk fyrir tæplega helming hlutabréfa í VíS á sínum tíma og segir átta milljarða króna mun vera á svörum fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins við þeirri spurningu. Galli fréttarinnar er hins vegar að líklega eru svörin mistúlkuð. Ég skil það allavega þannig að Valgerður svari því á hvaða verði hluturinn var seldur (6,8 milljarðar) en Finnur hvert markaðsvirði fyrirtækisins var miðað við söluna (14-15 milljarðar). Þá kæmu tölurnar meir að segja næstum því heim og saman.
Að lokum skal það tekið fram að ég hef ekki hugmynd um hvað bankinn fékk fyrir félagið og hef svo sem ekki verið að velta því fyrir mér hvað fjármálastofnanir hafa fengið fyrir fyrirtæki sem þau hafa selt í gegn um tíðina.
Frændur á toppnum
Ég hef gaman af alls konar listum. National Geographic hefur tekið saman lista yfir hvaða eyjar í heiminum er vert að heimsækja og tatarata… Færeyjar eru þar í fyrsta sæti. Annars er athyglisvert að fimm eyjar í fyrstu tíu sætunum eru í Norður Atlantshafi: Færeyjar (1), Lófóten (3), Hjaltlandseyjar (4), Skye (6) og ísland (9). Líklega er skýringin sú að litið var til sjálfbærni ferðaþjónustunnar, félagslegra aðstæðna, menningar og sögulegra minja þegar listinn var tekinn saman. Lestina reka eyjur þar sem ferðamannastraumurinn er orðinn of mikill, t.d. Mallorca, Ibiza, Puket og Jamaica.
Til þjóðsagnaáhugafólks
í dag var fyrsti þáttur af fjórum á Rás 1 þar sem Arthúr Björgvin Bollason ferðast um slóðir Grimms bræðra. Mæli með því að þjóðfræðinemar og áhugafólk um þjóðsögur fylgist með þessum þáttum. Hægt er að hlusta á þáttinn á netinu næstu tvær vikurnar.