Jæja, þá líður víst að því að hluti jarðarbúa fagnar áramótum. Við íslendingar höfum á seinni árum heillast mjög að völvum sem þykjast sjá betur en aðrir hvað framtíðin ber í skauti sér. Fjölmiðlarnir draga svo upp ársgömul blöð og rifja upp hversu sannspáar þær voru. Þar sem enginn tekur saman hvað ekki rættist hef ég tekið það verkefni að mér. Ég nenni ekki að fara í gegn um allar spárnar en tek þá þekktustu, völvu Vikunnar. Verkefnið er þó nokkuð snúið þar sem spárnar eru mjög opnar og segja fátt beint út. Reyndar er völvuspáin ágætur dálkur til þess að koma skoðun sinni á framfæri enda á margt sem þar stendur fátt skylt við spádóma. Völvan er einfaldlega að segja hvað henni finnst um menn og málefni. Annað er kommon sens. Það þarf til dæmis ekki skynsama manneskju til að spá því að veðurfar á íslandi verði rysjótt og að einhverjar jarðhræringar verði.
í árinu 2007 komst Jónína Bjartmarz ekki á þing, Margrét Sverrisdóttir stóð ekki uppi með pálmann í höndunum eftir uppgjör í Frjálslynda flokknum, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn héldu stjórnarsamstarfinu ekki áfram, Sjálfstæðisflokkurinn fór ekki í ríkisstjórn með VG, Björn Bjarnason hætti ekki á árinu, ekkert eldgos varð á íslandi (þeim er reyndar spáð tveimur á næsta ári), ekki var tekin ákvörðun varðandi Sundabraut, engin lággjaldaflugfélög hófu flug til íslands, Ólafur Jóhann sendi ekki frá sér bók á árinu og Nylon voru ekki að gera neinar rósir. Eiður Smári náði ekki nýjum hæðum, Sirkus er enn í loftinu sem og fréttastofa Stöðvar 2 og Svanhildur Hólm, Saddam var tekinn af lífi (og það á síðasta ári), Castro er á lífi (allavega samkvæmt talsmönnum hans), Hillary Clinton hætti ekki við forsetaframboð, Beckham flutti ekki til Bretlands og Tom Cruse skildi ekki við Kate Holmes.
Þetta er meðal annars það sem ekki gekk eftir af spádómum Völvunnar fyrir árið 2007. Þrátt fyrir lélega útkomu held ég áfram að lesa spádómana mér til skemmtunar og bölva séu þeir loðnir. Kannski eitthvað af þeim rætist þrátt fyrir allt.