Ég stoppa alltaf þegar ég geng fram hjá Amagerbanken og finnst ég vera heppinn að sjá þar í glugganum sjónvarpsskjá með gæða sjónvarpsþáttum. Það eru mér mikil vonbrigði að fæstir skiptinemanna hér kannast ekki við það sem er á skjánum. Sjónvarpsþættirnir fjalla um mína uppáhalds dönsku bókmenntapersónu og er hún ekki sköpunarverk H.C. Andersen, Sí¸ren Kirkegaard eða Karen Blixen. Þó að þetta séu allt saman ágætir rithöfundar þá hefur ekkert þeirra skapað persónu sem kemst í líkingu við þekktustu persónu Cörlu og Vilhelm Hansen. Ég er að tala um smávaxinn og ævintýraglaðan björn í rauðum smekkbuxum með hvítum doppum. ísamt vinum sínum þeim Pingó, Skeggja, Pela, Skyldi, Eyrnalang, Adolf, Trínu, Geita og Ljónka leitar Rasmus Klumpur á vit ævintýranna, smíðar skip, skoðar pýramída og hjálpar Geita með uppskeruna og sigla henni til bæjarins svo aðeins eitthvað sé nefnt.
Mér finnst sköpunarsaga Rasmusar Klumps ekki síður áhugaverð. Þannig var að fyrirtæki eitt í Kaupmannahöfn græddi ágætlega á því að selja teiknimyndasögur um strútinn Rasmus til dablaða á fjórða áratug tuttugustu aldar. Þegar höfundur þeirra lét af störfum var leitað til Hansen hjóna og þau beðin um að teikna nýja seríu fyrir börn. Eina skilyrðið væri að aðalsöguhetjan myndi heita Rasmus. Þannig hófst ferill Rasmusar í dagblöðum. í fyrstu var hann þó skjaldbaka en það gekk víst ekki svo vel að að hafa svo hægfara aðalpersónu. Það var því gripið til þess ráð að breyta um dýr og átti Rasmus Klumpur upphaflega að heita Björninn Rasmus. Virðulegra þótti að gefa honum ættarnafnið Klumpur í höfuðið á hundi nágranna Hansen hjónanna. Alls komu út 37 bækur með Rasmusi. 15 bókanna voru gefnar út í íslenskri þýðingu Andrésar Indriðasonar. Undir lok tíunda áratugarins voru gerðir sjónvarpsþættir um Rasmus og vini hans. Það eru þessir þættir sem sýndir eru í glugga bankans.