Ræða Geirs H. Haarde í kvöld var nauða ómerkilegur pappír og ótrúlegt að maðurinn skuli láta slíkt frá sér fara á meðan þjóðin er að bugast undan efnahagsástandinu. Ekki er fjárlagafrumvarpið sem fjármálaráðherra lagði fram í vikunni skárra. Það er draumkennt. Stjórn SUF sendi annars frá sér ályktun um stöðu efnahagsmála fyrir nokkrum mínútum síðan sem er svo hljóðandi:
Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna átelur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir að taka ekki strax á fyrirsjáanlegum þrengingum í efnahagslífi þjóðarinnar þegar ljóst var í hvað stefndi fyrir rúmu ári síðan. Á þeim tíma sem liðinn er síðan flokkarnir tóku við stjórn landsmála hafa talsmenn þeirra hvað eftir annað skellt skollaeyrum við varnaðarorðum framsóknarmanna og annarra í samfélaginu sem bent hafa á fjölmörg hagstjórnarmistök sem gerð hafa verið á stuttum tíma.
Komin er upp alvarleg staða í efnahagslífi þjóðarinnar og tímabært að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar viðurkenni þann vanda sem við er að etja. Verði ekki strax ráðist í samhentar aðgerðir mun stærri skaði hljótast af. Aðgerðaleysisstefna ríkisstjórnarflokkanna hefur nú þegar stórskaðað trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Nauðsynlegt er að ráðast strax í samhentar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, Alþingis, sveitastjórna, Seðlabanka, samtaka atvinnurekenda, launþega og fjármálafyrirtækja með það að markmiði að snúa við þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp.
Ungir framsóknarmenn vilja greiða fyrir erlendri fjárfestingu í landinu til þess að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað, m.a. með uppbyggingu stóriðju s.s. á Bakka, í Straumsvík og Helguvík. í uppbyggingu hátækniþjónustu, t.d. gagnaverum felast auk þess mörg sóknartækifæri. Þá þarf að auka gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar verulega til þess að styðja við fjármálakerfi landsmanna og auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Loks þarf Seðlabankinn að hefja vaxtalækkunarferli enda ljóst að heimili og atvinnulíf í landinu geta ekki staðið undir núverandi vaxtabyrði.