Nú er runninn upp sá tími ársins þegar vart er þverfóta fyrir völvum á götum úti. Ég er ekki búinn að taka saman hvernig rættist úr spá völvu Vikunnar á síðasta ári en ætla að gera það við fyrsta tækifæri eins og ég hef gert undanfarin ár. Hins vegar er ég búinn að sjá völvu Vikunnar í ár og kemur þar margt skemmtilega fyrir sjónir. Ég er t.d. spenntur að sjá hvort spáin hennar um veðrið gangi upp: „Það verður þó stundum mjög kalt og leiðinlegt veður en svo koma góðir kaflar“.
Hún veltir einnig fyrir sér formannskjöri í Framsóknarflokknum og segir: „Ég sé tvísýna baráttu milli tveggja ungra manna um formannsembættið. Sá sem sigrar tengist presti eða prestsyni, sýnist mér“. Rétt er að taka fram að tveir ungir menn hafa boðið sig fram til þess að gegna formennsku í flokknum, annar er prestssonur en hinn guðfræðingur. Báðir geta þeir átt við lýsingu völvunnar. Ég gæti svo sem birt spána í heild sinni með athugasemdum en ætla ekki að gera ykkur það. Ég vitna samt eina setningu í viðbót sem snýr að náttúrunni og hljóðar svo: „Eldgosin láta kannski á sér standa þótt þeim sé spáð“.